Beint frá býli og lífrænir bændur aðilar að Bændasamtökum Íslands
Á þingfundi á Búnaðarþingi í morgun voru teknar fyrir aðildarumsóknir að Bændasamtökum Íslands frá Beint frá býli og Verndun og ræktun (VOR), félagi framleiðenda í lífrænum búskap. Voru þær báðar samþykktar.
Beint frá býli var stofnað 2008 og er tilgangur félagsins að hvetja til heimavinnslu og sölu beint frá bændum. Einnig að vinna að hagsmunum þeirra bænda sem stunda eða hyggjast stunda hverskonar framleiðslu og sölu á heimaunnum afurðum.
Meginmarkmið félagsins er að tryggja neytendum gæðavörur þar sem öryggi og rekjanleiki vöru er í fyrirrúmi. Félagið skal einnig hvetja til varðveislu hefðbundinna framleiðsluaðferða og kynningar á svæðisbundnum hráefnum og hefðum í matargerð.
VOR var stofnað 1993 og er hagsmunafélag framleiðenda sem stunda lífræna ræktun eða fullvinnslu lífrænna, íslenskra afurða.
Þingfundur heldur áfram eftir hádegi og verða kosningar til stjórnar um klukkan 13:30.