Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Breytingar á samþykktum Bændasamtaka Íslands
Fréttir 5. mars 2015

Breytingar á samþykktum Bændasamtaka Íslands

Höfundur: Vilmundur Hansen

Tillaga til breytinga á samþykktum Bændasamtaka Íslands var samþykkt á Búnaðarþingi 2015.


Tillöguna í heild má lesa hér fyrir neðan:

Tillaga til Búnaðarþings 2015
Breytingar á samþykktum
Bændasamtaka Íslands
og þingsköpum búnaðarþings

 

Samþykktir Bændasamtaka Íslands


I. kafli. Almenn ákvæði

1. grein
Samtökin heita Bændasamtök Íslands. Heimili þeirra og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein
Bændasamtök Íslands eru heildarsamtök íslenskra bænda. Aðild að samtökunum geta átt félög einstaklinga og lögaðila sem standa að búrekstri. Aðildarfélög skulu hafa að lágmark 50 fullgilda félagsmenn, sem jafnframt eru aðilar að Bændasamtökum Íslands eða að samanlögð velta félagsmanna sem jafnframt eru aðilar að Bændasamtökum Íslands sé a.m.k. 500 milljónir króna á ári.  Aukaaðild að samtökunum er heimil einstaklingum sem styðja vilja markmið þeirra.


3. grein
a) Fulla aðild að Bændasamtökum Íslands geta átt þeir einstaklingar og lögaðilar sem þess óska og stunda búrekstur í atvinnuskyni eða vegna eigin nota, enda séu þeir félagar í  a.m.k. einu aðildarfélagi BÍ og greiði félagsgjald til samtakanna.

b) Á búum þar sem a.m.k. einn einstaklingur eða lögaðili er félagsmaður í BÍ samkvæmt a) lið skal  full aðild einnig heimil þeim öðrum þeim einstaklingum sem standa að búrekstrinum.. Með því er átt við maka rekstraraðila, eigendur félagsbúa eða lögaðila sem standa fyrir búrekstri eða aðra þá einstaklinga sem standa sannanlega að búrekstrinum.
. Aðeins félagsmenn með fulla aðild geta gegnt trúnaðarstörfum fyrir BÍ.

c) Aukaaðild að Bændasamtökum Íslands geta átt þeir einstaklingar, 18. ára og eldri sem búsettir eru áÍslandi og samþykkja markmið samtakanna.

 

4. grein
Búnaðarþing skal staðfesta aðild og samþykktir nýrra aðildarfélaga með minnst 2/3 hlutum atkvæða þingfulltrúa en stjórn Bændasamtakanna staðfestir breytingar á samþykktum þeirra.


Í samþykktum aðildarfélaga skal mælt svo fyrir að fullnægjandi félagaskrá fylgi ávallt endurskoðuðum ársreikningi samþykktum á aðalfundi. Bændasamtökin halda sameiginlega félagaskrá skv. upplýsingum frá aðildarfélögum sínum. Í samþykktum aðildarfélaga skulu einnig vera ákvæði um álagningu félagsgjalda og innheimtu þeirra. 
Aðalfundir aðildarfélaga skulu haldnir einu sinni á ári og auk þess aukafundir eftir þörfum. Aukafundi skal halda ef meirihluti þeirra sem þar eiga rétt á sæti krefst þess.

5. grein
Félagsmenn sem eiga aðild að Bændasamtökum Íslands samkvæmt ákvæðum a) liðar 3. gr. skulu greiða félagsgjald sem reiknast að hámarki sem (0,3%) af veltu liðins árs.

Búnaðarþing getur sett reglur um afslætti á félagsgjöldum skv. 1. mgr. eða um  lágmarks- eða hámarksupphæðir þeirra.

Félagsmenn sem eiga aðild að BÍ samkvæmt ákvæðum b) liðar 3. gr. greiða ekki félagsgjald.
Félagsmönnum er skylt, óski Bændasamtökin þess, að senda þeim nauðsynlegar upplýsingar úr ársreikningum sínum þ.m.t. um veltu, vegna álagningar félagsgjalda. Heimilt er að áætla félagsgjald á félagsaðila sem ekki gefur nauðsynlegar upplýsingar til grundvallar álagningu. BÍ er heimilt að afla upplýsinga um rekstur félagsaðila í þessu skyni frá opinberum aðilum, enda sé farið með þær upplýsingar sem trúnaðarmál.
Félagsgjöldum ársins má skipta í jafnar greiðslur samkvæmt ákvörðun stjórnar, mest tólf greiðslur en minnst tvær greiðslur. Greiðslur er heimilt að miða við áætlun sem síðan leiðréttist á síðasta reikningi ársins, eða þegar nauðsynlegar upplýsingar liggja fyrir

Aðeins félagsmenn sem ekki skulda gjaldfallin félagsgjöld eða hafa samið um greiðslu þeirra njóta fullra réttinda innan Bændasamtakanna.

Félagsgjald aukafélaga samkvæmt c) lið 3. gr. skal vera föst árleg fjárhæð. Hún skal endurskoðuð á búnaðarþingi.


6. grein
Búnaðarþing getur með minnst 2/3 hlutum atkvæða þingfulltrúa vikið aðildarfélagi úr Bændasamtökum Íslands ef samþykktir þeirra eða starfsemi er ekki í samræmi við samþykktir þessar eða ef það þykir óhjákvæmilegt af öðrum ástæðum.

7.grein
Bændasamtök Íslands skulu vera málsvari bænda og vinna að framförum og hagsæld í landbúnaði. Í samræmi við þetta meginhlutverk greinist starfsemi samtakanna í fjóra meginþætti:

Þau beiti sér fyrir bættum kjörum bænda á öllum sviðum.
Þau annist leiðbeiningaþjónustu og sinni faglegri fræðslu í þágu landbúnaðarins.
Þau annist útgáfustarfsemi og miðlun upplýsinga sem varða bændur og hagsmuni þeirra.
Þau annist ýmis verkefni sem tengjast hagsmunum bænda og landbúnaði, veiti umsögn um lagafrumvörp sem snerta landbúnaðinn og sinni öðrum verkefnum er varða hag bænda.

A.
Bændasamtök Íslands gæta hagsmuna bændastéttarinnar og sameina bændur um þá, með því m.a. að:
1. Móta stefnu í málefnum bænda og landbúnaðarins í heild.
2. Vera málsvari bændastéttarinnar gagnvart ríkisvaldinu og öðrum aðilum þjóðfélagsins sem stéttin hefur samskipti við.
3. Beita sér fyrir nýmælum í löggjöf og breytingum á eldri lögum er til framfara horfa og snerta bændastéttina og landbúnaðinn.
4. Fylgjast grannt með afkomu bænda og rekstrarskilyrðum landbúnaðarins og kappkosta með því að tryggja þeim lífskjör í samræmi við aðrar stéttir þjóðfélagsins.
5. Annast samningagerð af hálfu bænda, t.d. um framleiðslustjórn, verðlagningu búvara og kjör starfsfólks í landbúnaði.
6. Koma fram fyrir hönd íslenskra bænda gagnvart hliðstæðum samtökum erlendis og annast samskipti við þau eftir því sem ástæða þykir og tilefni gefast til.

B.
Einkahlutafélag sem er alfarið í eigu Bændasamtaka Íslands annast leiðbeiningaþjónustu og faglega fræðslu í þágu landbúnaðarins með því m.a. að:
1. Vinna að framförum í landbúnaði með því að ráða ráðunauta er hafi á hendi leiðbeiningar á hlutaðeigandi sviðum í samræmi við ákvæði búnaðarlaga og búnaðarlagasamnings.
2. Hafa með höndum framkvæmd mála er Alþingi eða ríkisstjórn felur þeim í samræmi við búnaðarlög og búnaðarlagasamning.
3. Vinna að kynbótastarfsemi, annast eða hafa umsjón með afkvæmaprófun kynbótagripa og er m.a. heimilt að eiga og reka búfjárræktarstöðvar.
4. Hlutast til um að gerðar séu hagnýtar rannsóknir og tilraunir á öllum sviðum landbúnaðarins.
Stjórn Bændasamtaka Íslands er heimilt að leita til búnaðarþings um tilnefningu fjögurra manna í stjórn einkahlutafélagsins og fjögurra til vara. Formaður stjórnar einkahlutafélagsins skal vera sá sem er framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands hverju sinni.
Sala á hlutum í einkahlutafélaginu er óheimil nema með samþykki aukins meiri hluta fulltrúa á búnaðarþingi.

Stjórn Bændasamtaka Íslands gefur árlega út gjaldskrá samtakanna.  Þar skal tilgreina helstu þjónustuþætti sem félagsmönnum og öðrum standa til boða, ásamt verði þeirra til fullgildra félagsmanna, aukafélagsmanna og annarra.

8. grein
Bændasamtök Íslands fara með fyrirsvar framleiðenda búvara skv. lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Slíkt fyrirsvar er þó heimilt að framselja með samningum til aðildarfélaga sem starfa í þeirri búgrein sem um ræðir hverju sinni. Í þeim tilvikum skal gera verkaskiptasamning á milli BÍ og viðkomandi aðildarfélags eða -félaga. Slíkir samningar mega þó ekki hindra stjórn BÍ í að fjalla um og leysa málefni sem eru sameiginleg fleiri en einni búgrein.
+Í verkaskiptasamningum er jafnframt heimilt að kveða á um önnur atriði en að framan greinir. Stjórn BÍer enn fremur heimilt að gera þjónustusamninga við félög og félagasamtök sem á einhvern hátt tengjast landbúnaði. Í verkaskipta- og þjónustsamningum skal jafnan leitast við að verkaskipting sé sem skýrust þannig að saman fari ábyrgð og forræði á þeim málaflokkum sem heyra undir hvern samningsaðila

9. grein
Bændasamtök Íslands skulu gæta þess að halda góðum tengslum við félög og félagasamtök sem aðild eiga að samtökunum, m.a. með því að trúnaðarmenn bændasamtakanna sitji aðalfundi þeirra. Þá skulu bændasamtökin boða til almennra bændafunda í samráði við aðildarfélög, eða eftir því sem þau telja þörf á..

II. kafli. Búnaðarþing og ársfundur

10. grein
Búnaðarþing er aðalfundur Bændasamtaka Íslands og fer með æðsta vald í öllum málefnum þeirra. Það skal halda annað hvert ár. Heimilt er að halda aukaþing. Skylt er að kalla saman aukaþing ef helmingur þingfulltrúa óskar þess. Búnaðarþing skal boða á tryggilegan hátt með minnst tveggja mánaða fyrirvara og aukaþing með minnst viku fyrirvara. Um leið og fulltrúar eru boðaðir til þings ,   skal aðildarfélögunum jafnframt tilkynnt um þingið. Aðildarfélög geta sent mál til umfjöllunar á þinginu. Frestur til þess  rennur út 30 dögum fyrir þingsetningu. Stjórn Bændasamtakanna er heimilt að víkja frá þessu. Frekari skilyrði fyrir innsendingu mála má setja í þingsköpum búnaðarþings.

Aðildarfélög greiða laun og upphald sinna fulltrúa á Búnaðarþingi. Annan þingfararkostnað greiða Bændasamtök Íslands.

Í upphafi búnaðarþings skal flutt skýrsla um störf stjórnarinnar frá síðasta þingi og gerð grein fyrir framtíðarhorfum. Önnur verkefni þingsins eru m.a. að afgreiða reikninga samtakanna fyrir liðið ár, marka stefnu þeirra, gera fjárhagsáætlun til tveggja ára og kjósa stjórn og endurskoðendur samtakanna, sbr. 12. og 18. grein.

Búnaðarþing skal setja sér sérstök þingsköp.

11. grein
Búnaðarþing sitja fulltrúar aðildarfélaga Bændasamtaka Íslands.  Fjölda fulltrúa skal skipt með eftirfarandi hætti

A. Hvert aðildarfélag á rétt á einum fulltrúa.

B. Reikna skal hlutfall ársveltu fullgildra félagsmanna Bændasamtaka Íslands eftir hverju aðildarfélagi fyrir sig.  Með veltu er átt við veltutölur sem Bændasamtökin nýta til að leggja á félagsgjöld. Skipta skal allt að 15 fulltrúum til viðbótar á milli aðildarfélaga í samræmi við hlutfallið.   Hver fulltrúi telst sem 100 hlutar eða alls 1500.  Aðildarfélag sem reiknast með 51-150 hluta samkvæmt framangreindu fær einn viðbótarfulltrúa á Búnaðarþing.  Aðildarfélag sem reiknast með 151-250 hluta fær tvo viðbótarfulltrúa og svo framvegis með sama hætti þangað til 15 fulltrúum hefur verið skipt. Takist ekki að skipta 15 fulltrúum með framangreindum hætti falla sæti þeirra fulltrúa niður sem umfram eru.
Kjörtímabil fulltrúa er að hámarki 2 ár.  Bændasamtök Íslands tilkynna aðildarfélögum um skiptingu fulltrúa árlega, eftir að álagningu félagsgjalda lýkur.

 


Jafnframt skulu kjörnir með sama hætti jafnmargir varafulltrúar. Sami maður getur ekki verið aðal- eða varafulltrúi fyrir nema eitt aðildarfélag á þinginu.

Við sameiningu aðildarfélaga halda kjörnir fulltrúar þeirra kjörgengi út yfirstandandi kjörtímabil.

Aðildarfélög skulu kjósa fulltrúa á búnaðarþing að lágmarki annað hvert ár..Reglur um kjörið setja aðildarfélögin sér sjálf, en heimilt er að kveða á um að formaður aðildarfélags sé sjálfkjörinn á búnaðarþing.

Á þinginu eiga auk þess sæti stjórn bændasamtakanna, kosinn endurskoðandi og skoðunarmaður reikninga og þeir starfsmenn samtakanna er stjórnin ákveður. Kjörnir fulltrúar hafa einir atkvæðisrétt, en aðrir sem rétt eiga til setu á þinginu hafa málfrelsi og tillögurétt í þeim málum er snerta starfssvið þeirra sérstaklega.


Stjórnir aðildarfélaga skulu tilkynna stjórn bændasamtakanna hverjir séu réttkjörnir þingfulltrúar af þeirra hálfu eigi síðar en 30 dögum fyrir búnaðarþing.

12. grein
Ársfund Bændasamtakanna skal halda þau ár sem búnaðarþing er ekki haldið.  Á ársfundi skal taka til afgreiðslu reikninga BÍ og dótturfélaga fyrir umliðið ár. Þá skal fundurinn fara yfir gildandi fjárhagsáætlun samtakanna og endurskoða eftir atvikum..  Atkvæðisrétt um afgreiðslu þeirra mála eiga búnaðarþingsfulltrúar hverju sinni. Aðildarfélög geta ekki sent mál til umfjöllunar ársfundar. 

Ársfundur er að öðru leiti opinn öllum félagsmönnum BÍ, gegn greiðslu þátttökugjalds. 

Á ársfundi skal jafnframt fara yfir stöðu landbúnaðarins í heild og fjalla um önnur .þau mál sem talin eru varða heildarhagsmuni greinarinnar hverju sinni..

Ársfund skal boða almennri auglýsingu með a.m.k. fjögurra vikna fyrirvara.  Stjórn BÍ skipuleggur dagskrá og framkvæmd fundarins. 

III. kafli. Stjórn og starfsemi Bændasamtaka Íslands

13. grein
Búnaðarþing kýs stjórn Bændasamtaka Íslands..Kjör stjórnar gildir milli búnaðarþinga. Kjósa skal fimmmenn í stjórn bændasamtakanna og fimm til vara með eftirgreindum hætti:

Fyrst skal kosinn formaður í beinni kosningu. Fái enginn meira en helming greiddra atkvæða skal kosið aftur bundinni kosningu milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Ef jafnt verður að nýju skal hlutkesti varpað.

Því næst skulu kjörnir fjórir stjórnarmenn. Náist ekki niðurstaða um hverjir séu rétt kjörnir stjórnarmenn í einni umferð í kosningu, skal kosið aftur bundinni kosningu á milli þeirra sem jafnir eru. Ef jafnt verður að nýju skal hlutkesti varpað hver eða hverjir eru rétt kjörnir stjórnarmenn.
Stjórn skal kjósa sér varaformann
.
Að loknu kjöri aðalmanna skal kjósa fimm menn í varastjórn. Sá sem flest atkvæði hlýtur er fyrsti varamaður og svo koll af kolli.

Heimilt er að kjósa uppstillingarnefnd vegna kosninga til stjórnar, hafi tillaga þar um borist eigi síðar en á fyrsta starfsdegi búnaðarþings. Skal tillagan studd af a.m.k. 15% þingfulltrúa og skal hún tekin til einnar umræðu og afgreidd án vísunar til nefndar. Nefndin skal skipuð 5 mönnum.

Þingforsetar gera tillögu um skipan nefndarinnar.

14. grein
Stjórn Bændasamtaka Íslands fer með mál þeirra milli búnaðarþinga og fylgir ályktunum þeirra eftir. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra samtakanna.. Enn fremur skipar stjórnin fulltrúa bændasamtakanna til trúnaðarstarfa fyrir samtökin eftir því sem lög, reglur og samningar segja til um. Nú er um að ræða svo mikilsverðar ákvarðanir í kjaramálum eða öðrum hagsmunamálum bændastéttarinnar að stjórn telur nauðsynlegt að leita eftir afstöðu búnaðarþingsfulltrúa eða bænda almennt. Skal stjórnin þá:Tilkynna búnaðarþingsfulltrúum að hún hyggist láta fara fram atkvæðagreiðslu um málið meðal bænda, og kynna þeim reglur um kjörskrá, sem byggja skal á félagaskrá skv. 4. grein. Búnaðarþingsfulltrúum gefst þá viku frestur til þess að fara fram á aukaþing skv. 9. grein,
Stjórn skal kalla saman formannafund, þar sem seturétt eiga formenn allra aðildarfélaga bændasamtakanna, að minnsta kosti einu sinni á ári. Skylt er að kalla saman formannafund ef helmingur formanna aðildarfélaganna óskar þess. Formannafundir eru stefnumarkandi í þeim málum sem þar er fjallað um.

15. grein
Stjórnarfundir skulu haldnir svo oft sem þörf krefur. Í fjarveru stjórnarmanns skal kalla til varamann.

Formaður stýrir fundum stjórnar og er málsvari samtakanna út á við, nema stjórn ákveði að fela öðrum stjórnarmönnum eða starfsmönnum það hlutverk í sérstökum tilvikum. Í forföllum formanns kemur varaformaður fram fyrir hönd samtakanna.

16. grein
Framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands er prókúruhafi samtakanna og annast daglega yfirstjórn þeirra í samræmi við ákvarðanir stjórnar...

Framkvæmdastjóri ræður  annað starfsfólk samtakanna.
Stjórn bændasamtakanna skal að öðru leyti ráða skipulagi á starfsemi þeirra, að höfðu samráði við framkvæmdastjóra.

17. grein
Fagráð skulu starfa samkvæmt búnaðarlögum og eftir því sem nánar er kveðið á um í verkaskiptasamningum

Í fagráðum skulu sitja menn úr hópi starfandi bænda og einn ráðunautur í hlutaðeigandi búgrein eða fagsviði. Jafnframt skulu starfa með fagráðum sérfróðir aðilar, er vinna að kynbótum, rannsóknum, leiðbeiningum eða kennslu á hlutaðeigandi sviði. Heimilt er að skipa slíka aðila í fagráð. Verkefni fagráða er að móta stefnu í kynbótastarfi, fræðslumálum og rannsóknum búgreinarinnar í samræmi við verkaskiptasamninga svo og að fjalla um önnur fagleg mál sem þangað er vísað til umsagnar og afgreiðslu.

18. greinStarfsfé Bændasamtaka Íslands er:
1. Tekjur af félagsgjöldum.
2. Arður af eignum.
3. Þjónustugjöld og annað eigið aflafé.
4. Framlög af fjárlögum til starfsemi sem samtökunum er falin með lögum eða með stjórnvaldsfyrirmælum sem stoð hafa í lögum.

Ef Bændasamtökin taka að sér verkefni, sem greitt er fyrir að hluta eða öllu leyti af opinberu fé, skulu þau skýrt afmörkuð í skipulagi samtakanna og með sérgreindan fjárhag.

19. grein
Búnaðarþing skal kjósa einn löggiltan endurskoðanda Bændasamtaka Íslands og annan til vara. Kjör þeirra gildir milli búnaðarþinga.. Þá skal kjósa einn skoðunarmann reikninga og annan til vara með sama hætti.. Reikningsár samtakanna er almanaksárið. Löggiltur endurskoðandi skal framkvæma venjubundna endurskoðun og skoðunarmaður skal auk þeirrar endurskoðunar sem talin er nauðsynleg, kynna sér starfrækslu samtakanna yfirleitt og gera sérstaklega grein fyrir þeim frávikum er kunna að verða frá fjárhagsáætlun.. Þeir skulu eiga aðgang að öllum skjölum samtakanna og er stjórn og starfsmönnum þeirra skylt að veita þeim þær upplýsingar sem eru nauðsynlegar til framkvæmdar starfsins.  Samskonar endurskoðun skal eiga sér stað áður en reikningar og endurskoðuð fjárhagsáætlun eru tekin fyrir á ársfundi.
Ríkisendurskoðun er heimilt að láta endurskoða þann hluta af reikningum samtakanna er lúta að því starfi er samtökin sinna í opinbera þágu, ef um það er að ræða.

20. grein
Stjórnir aðildarfélaga skulu vera stjórn Bændasamtaka Íslands til aðstoðar um allt það er að samtökunum lýtur og sinna þeim verkefnum er hún kann að fela þeim.

IV. kafli. Breytingar á samþykktum

21. grein
Samþykktum þessum má aðeins breyta á búnaðarþingi og þarf til þess samþykki a.m.k. 2/3 hluta þingfulltrúa.

Ákvæði til bráðabirgða
Breytingar á samþykktum Bændasamtaka Íslands sem samþykktar eru á búnaðarþingi 2014, haldið 1.-4. mars 2014, skulu taka gildi að loknu búnaðarþingi 2015 að öllu leyti nema því að stjórn Bændasamtaka Íslands sem kosin var á búnaðarþingi 2013 skal sitja þangað til á búnaðarþingi 2016 þegar kosið skal eftir svo breyttum samþykktum.

Breytingar á samþykktum samþykktar á búnaðarþingi 2015 taka gildi á sama tíma og innheimta búnaðargjalds fellur niður.

Þannig samþykkt á búnaðarþingi 4. mars 2014.

Þingsköp búnaðarþings

1. grein
Formaður stjórnar Bændasamtakanna setur búnaðarþing og stjórnar kosningu kjörbréfanefndar, sbr. 2. grein, og stýrir fundi þar til kosning embættismanna þingsins, þ.e. forseta og varaforseta, sbr. 3. grein, hefur farið fram.

Að kosningu lokinni skulu formaður og framkvæmdastjóri flytja skýrslur sínar og að því búnu skulu leyfðar almennar umræður.

2. grein
Stjórn Bændasamtakanna skal skipa þriggja manna kjörbréfanefnd áður en búnaðarþing kemur saman. Hún skal ljúka störfum áður en þing hefst. Hún leggur fram tillögur sínar áður en fyrsta fundi þingsins lýkur og skal á þeim fundi úrskurða kosningu þingfulltrúa, eftir því sem við á.

Að loknum kosningum til Búnaðarþings skal kæra út af kosningu þingfulltrúa berast stjórn Bændasamtakanna að minnsta kosti tveimur vikum áður en þingið er sett.
3. grein
Þegar kjörbréf hafa verið afgreidd og úrskurðuð skal kjósa forseta þingsins og tvo varaforseta ásamt skrifurum. Í forföllum forseta ganga varaforsetar að öllu leyti í hans stað, eftir hans ákvörðun.

4. grein
Að lokinni kosningu embættismanna og almennum umræðum skulu kosnar starfsnefndir. Að jafnaði skulu eftirtaldar nefndir starfa:

1. Allsherjarnefnd.
2. Búfjárræktar- og fagráðanefnd.
3. Félagsmálanefnd.
4. Fjárhagsnefnd.
5. Framleiðslu- og markaðsnefnd.
6. Kjaranefnd.
7. Umhverfis- og jarðræktarnefnd.

Enginn þingfulltrúa má eiga sæti í fleiri en einni þessara nefnda.

Heimilt er að kjósa aðrar nefndir til að kanna einstök mál eða málaflokka, þá er einnig heimilt að sameina einstakar nefndir sé það talið henta.

Í hverri nefnd skulu sitja að lágmarki þrír þingfulltrúar.

Formaður stjórnar Bændasamtakanna og forseti þingsins geta verið undanþegnir setu í starfsnefndum. Fulltrúar, sem óska eftir setu í einhverri sérstakri nefnd, komi þeim óskum á framfæri við stjórn a.m.k. 25 virkum dögum fyrir Búnaðarþing.

5. grein
Um frest til að skila málum fer eftir samþykktum samtakanna. Málum skal skila til stjórnar Bændasamtakanna. Stjórn Bændasamtakanna getur með rökstuðningi endursent mál til frekari úrvinnslu. Þá skal hlutaðeigandi hafa 14 daga frest til að gera úrbætur. Þó getur þingið samþykkt að taka fyrir mál sem síðar koma fram. Þá getur stjórn Bændasamtakanna lagt til við nefndir í upphafi þings að tiltekin mál fái ekki efnislega meðferð heldur verði vísað beint til stjórnar án umræðu.

Miða skal við að fundargögn berist fulltrúum eigi síðar en 10 dögum fyrir setningu þings.
Í þingbyrjun skal leggja fram skýrslu starfsmanna og ársreikninga Bændasamtakanna fyrir liðið ár. Á sama hátt skulu í þingbyrjun lögð fram þau mál sem borist hafa. Þau mál, sem liggja fyrir Alþingi er landbúnaðinn og bændastéttina varða, skulu lögð fyrir í þingbyrjun þyki ástæða til að fjalla um þau.

6. grein
Á fyrsta fundi hverrar nefndar skal kosinn formaður og varaformaður sem jafnframt er ritari.
Nefnd lætur uppi álit sitt og skal fjölrita það og útbýta því meðal þingfulltrúa áður en málið er tekið til umræðu á þinginu. Nefndarálit skal undirritað af nefndarmönnum og tilgreint hver sé framsögumaður.
Nefnd getur lagt til, með rökstuðningi, að mál, sem vísað er til hennar, verði tekin út af dagskrá þingsins og vísað til stjórnar Bændasamtakanna. Um slíka tillögu fer atkvæðagreiðsla fram umræðulaust.

Stjórn Bændasamtakanna getur falið einstökum starfsmönnum samtakanna að aðstoða einstakar nefndir við störf þeirra.

7. grein
Forseti stýrir umræðum á þinginu og kosningum þeim er þar fara fram. Skal hann færa mælendaskrá og gefa þingfulltrúum og þeim öðrum, er málfrelsi hafa, færi á að taka til máls í þeirri röð sem þeir beiðast þess. Þó má hann víkja frá þeirri reglu er sérstaklega stendur á. Nú vill forseti taka þátt í umræðum frekar en forsetastaða hans krefur, víkur hann þá úr forsetastól, en varaforseti tekur við fundarstjórn á meðan. Forseta er heimilt að takmarka ræðutíma þingfulltrúa.

8. grein
Í upphafi hvers þingfundar skal útbýta dagskrá fundarins. Forseti getur tekið mál út af dagskrá og tekið ný mál á dagskrá er sérstaklega stendur á. Þingfulltrúi getur, meðan á umræðum stendur, krafist þess að mál verði tekið út af dagskrá. Um slíka tillögu fer atkvæðagreiðsla fram umræðulaust.

9. grein
Stjórn Bændasamtakanna tilnefnir einn af starfsmönnum þeirra til þess að færa fundargerð þingsins undir stjórn forseta.
Fundargerðir skulu frágengnar svo fljótt sem verða má. Þær skulu bornar upp og samþykktar og síðan undirritaðar af forseta. Jafnframt er forseta heimilt að leita samþykkis á því að fundargerð sé send þingfulltrúum til staðfestingar.

10. grein
Málum, sem lögð eru fram á þinginu, skal vísað til nefndar umræðulaust. Forseta er heimilt að leyfa flutningsmanni að reifa málið með stuttri ræðu.

Heimilt er að hafa búnaðarþing lokað um einstök mál. Slíkt skal á valdi þingsins hverju sinni.

Þingforseti hefur rétt til að vísa málum aftur til nefndar til frekari úrvinnslu.
Komi fram fyrirspurnir til stjórnar eða starfsmanna Bændasamtakanna má forseti ákveða eina umræðu um þær. Sá, sem fyrirspurninni er beint til, hefur sama rétt til ræðutíma og framsögumenn nefnda.


11. grein
Þingfulltrúar hafa rétt til þess að tjá sig um öll mál sem eru til meðferðar á þinginu.
Stjórnarmenn Bændasamtakanna hafa málfrelsi og tillögurétt eins og hinir kjörnu þingfulltrúar.

Starfsmönnum Bændasamtakanna, endurskoðanda og skoðunarmanni er heimilt að tala í þeim málum sem snerta starfssvið þeirra sérstaklega. Auk þess er þeim heimilt að gefa stuttar upplýsingar, ef þingfulltrúar óska þess, eða gera stuttar athugasemdir til þess að bera af sér sakir.

Forseti getur lagt til að umræðu sé hætt. Sama rétt hafa þingfulltrúar. Um slíka tillögu fer atkvæðagreiðsla fram umræðulaust.

 

12. grein
Kjörnir þingfulltrúar hafa einir atkvæðisrétt á þinginu. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á fundum. Þó þarf minnst 1/3 atkvæða allra þingfulltrúa til þess að samþykkja ályktanir svo að gildar séu.
Enga ályktun má gera nema minnst 2/3 þingfulltrúa séu á fundi.

13. grein
Allir félagsmenn í Bændasamtökum Íslands eru undantekningalaust í kjöri til trúnaðarstarfa á vegum samtakanna.  Sé skipuð uppstillinganefnd samkvæmt 12. grein samþykkta Bændasamtaka Íslands skal hún skila tillögu um jafnmarga einstaklinga og kjósa skal hverju sinni.   Takist það ekki tekur þingið tillögu nefndarinnar ekki til meðferðar.

14. grein
Forseti stýrir atkvæðagreiðslu og kveður menn sér til aðstoðar eftir þörfum til að telja saman atkvæði.

Atkvæðagreiðsla fer að jafnaði fram með handaruppréttingu. Heimilt er að viðhafa leynilega atkvæðagreiðslu um einstök mál ef sérstakar aðstæður kalla á slíkt. Ef þingfulltrúi óskar þess skal atkvæðagreiðsla þó fara fram með nafnakalli. Ennfremur er forseta heimilt að endurtaka atkvæðagreiðslu með nafnakalli ef hann telur þess þörf. Kjör stjórnar skal fara fram með leynilegri atkvæðagreiðslu.

15. grein
Skylt er þingfulltrúum að sækja alla fundi þingsins nema nauðsyn banni. Forseta er heimilt að veita þingfulltrúa fjarvistarleyfi, þó ekki lengur en einn dag nema þingið samþykki.
Varafulltrúar taki sæti aðalfulltrúa í forföllum þeirra, með samþykki forseta.

16. grein
Skylt er þingfulltrúum og öðrum, er rétt hafa til að sitja þingið, að lúta valdi forseta í öllu er lýtur að því að gætt sé góðrar reglu.

Víki þingfulltrúi eða aðrir, sem málfrelsi hafa, með öllu frá umræðuefninu í umræðum mála, skal forseti víta það. Ef hlutaðeigandi sinnir ekki slíkri ábendingu, þó að hún sé ítrekuð, má forseti svipta hann málfrelsi á þeim fundi í því máli sem um er rætt.

17. grein
Stjórn Bændasamtakanna ræður þinginu skrifstofustjóra úr hópi starfsmanna þeirra.
Skrifstofustjóri þingsins er forseta til aðstoðar við þinghaldið. Hann annast m.a. skráningu þingskjala, umsjón með skrifstofuvinnu vegna þinghaldsins, útgáfu og dreifingu þingskjala. Þá skal hann í samráði við stjórn hlutast til um nauðsynlega gagnasöfnun vegna afgreiðslu þeirra mála er berast á tilsettum tíma fyrir þingsetningu.

18. grein.
Þingsköp þessi gilda einnig á ársfundi BÍ eftir því sem við á.

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...