COVID-19
Það verður ekki komist hjá því að skrifa um þessa veiru sem allir eru að tala um og ógnar landinu þessa dagana. Frétt sem var ný fyrir klukkutíma er orðin úrelt klukkutíma seinna og eflaust verður megnið af því sem ritað er hér að neðan orðið úrelt þegar Bændablaðið kemur út þar sem að þetta er skrifað nokkrum dögum fyrir prentun blaðsins.
Fyrir mér er þessi veira lýsandi dæmi um hættuna sem getur skapast við óheftan innflutning á fersku kjöti. Covid-19 kemur með ferðamönnum erlendis frá og ekkert getur stoppað hana, hins vegar er verið að reyna að hægja á henni með ýmsum höftum.
Í áraraðir hefur innflutningur á kjöti verið takmörkum háð og ekki enn komnar umgangspestir við þann innflutning.
Fullmikill hræðsluáróður í samanburði við margt enn verra
Það er eins og að sumir fjölmiðlar nærist á neikvæðum fréttum af vírusnum, en ef grannt er skoðað er dánartíðni ekki há nema í þessum áhættuflokki þeirra sem eru með undirliggjandi sjúkdóma. Fyrir mér tel ég miklu meiri líkur á að ég láti lífið í umferðarslysi en af veiki, en sjaldan er rætt um það að á hverjum degi látast um 3.700 manns í umferðarslysum um heim allan.
Fólki hefur verið tíðrætt um hræðslu Ameríkana um áhrif faraldurs af Covid-19 eftir að landinu var lokað. Persónulega ef ég væri í Ameríku mundi ég vera hræddari við mikla byssueign Bandaríkjamanna, en að meðaltali eru 313 skotnir þar með byssum og af þeim látast að jafnaði daglega 103 einstaklingar.
Upplýsingar og fræðsla um Covid-19
Það er sama hvaða fréttamiðil maður skoðar á veraldarvefnum, allir eru með upplýsingar um þessa veiru. Á vef Vinnuverndar má finna ýmsar góðar ábendingar um þessa veiru og leiðir til að forðast hana eins og á svo mörgum síðum öðrum. Persónulega hefur mér fundist vanta betri upplýsingar um einkenni veikinnar frá degi til dags, en það virðist vera að þessi veiki leggist mjög misjafnlega á fólk og ekkert eitt munstur einkenni veikina. Margir hafa haldið úti „bloggi“ um líðan sína á meðan þeir voru veikir og svo var um enskukennara í Wuhan í Kína sem finnur fyrir einkennum 25. nóvember.
Fyrsta staðfesta smitið var greint 17. nóvember 2019 í Wuhan
Á vefsíðu fréttamiðilsins Daily Mail var birt dagbók 25 ára enskukennara frá Norður-Wales sem starfar í Wuham, en hann hélt úti bloggi á Facebook-síðu sinni sem virðist hafa smitast fyrstur Vesturlandabúa í nóvember og verður hann veikur 25. nóvember (hér eftir er mikið stytt útgáfa af dagbók hans).
„Dagur 1: Er með kvef, hnerra, augun óskýr. Dagur 2: Er með hálsbólgu. Dagur 3: Enn veikur, verð að komast í vinnu sem fyrst. Dagur 4: Svaf vel í nótt, greinilegt að kínverskt Whisky er gott meðal. Dagur 5: Hætt að vera kalt og virðist betri. Dagur 6: Held mig góðan, fer út að versla. Dagur 7: Hef farið of snemma út, mikill höfuðverkur, augun eins og að þau séu að brenna, þetta er engin venjuleg flensa. Dagur 8: Er betri, vil ekki fara út svo að ég smiti engan. Dagur 9: Þessi veiki er ekkert venjuleg, meira að segja er kettlingurinn minn slappur. Dagur 10: Er enn með hita, allt Whisky búið, en hef ekki orku í að fara út að kaupa meira. Dagur 11: Allt í einu líður mér betur, fer út að kaupa inn. Dagur 12: Mér sló niður, hef farið of snemma út, hélt að mér væri að batna. Svo slappur að ég kemst varla á klósettið. Fór til læknis og fékk lyf við lungnabólgu. Dagur 13: Kom seint heim í gær með lyfin, en tel mig það hraustan að ég ætla að sleppa að taka lyfin. Dagur 14: Hita vatn í skál og anda að mér gufunni undir handklæði og drekk heitt hunang. Dagur 15: Allt í móðu. Dagur 16: Örvænting, hringdi í mömmu, gat varla talað við hana. Dagur 18: Lungun hljóma betur, minna korr í þeim. Dagur 19: Nógu hress til að fara út til að kaupa nauðsynjar, fyrsti dagurinn í langan tíma sem ég hef matarlyst. Dagur 20: Betri. Dagur 21: Enn betri. Dagur 22: Orðinn það hress að ég er farinn að hugsa um vinnuna. Dagur 23: Hellan í eyrunum farin, allur betri. Dagur 24: Hallelúja, held mig frískan. Þetta var versta flensa sem ég hef fengið. Dagur 34: Búinn að vera góður í 10 daga, fékk tilkynningu um að þessi veiki hafi verið nýr faraldur og ég eigi að halda mig heima og væri í útgöngubanni. Dagur 67: Enn heima, má ekki fara út, nú veit allur heimurinn hvað var að mér. Fréttamiðlar hafa mikið haft samband við mig og birta bloggið mitt. Skrítið að lesa sumar fyrirsagnirnar, eins og í New York Post: Kennari læknaðist af veikinni með heitu Wisky og hunangi.“