Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Sunna Hrafnsdóttir, garðyrkjubóndi með lífræna vottun á Ósi í Hörgársveit.
Sunna Hrafnsdóttir, garðyrkjubóndi með lífræna vottun á Ósi í Hörgársveit.
Mynd / Skjáskot frá málþinginu.
Fréttir 14. desember 2020

Dæmisögur um kindina og aðlögunarferlið að lífrænni vottun

Höfundur: smh

Í síðasta Bændablaði var greint frá málþinginu Lífræn ræktun, umhverfi og lýðheilsa, sem Fagráð í lífrænum búskap stóð fyrir og haldið var 12. nóvember. Tvö síðustu erindi málþingsins komust ekki að þá og því kemur hér umfjöllun um þau. Sveinn Margeirsson, doktor í iðnaðarverkfræði og sveitarstjóri í Skútustaðahreppi, fjallaði um lífræna vottun í samhengi við íslenska sauðfjárrækt og Sunna Hrafnsdóttir, garðyrkjubóndi með lífræna vottun á Ósi í Hörgársveit, veitti innsýn inn í feril lífrænnar aðlögunar.

Yfirskrift erindis Sveins var „Framleiðsla og þjónusta í framtíðarlandinu Íslandi sem byggir á lífrænni vottun: Dæmisagan um kindina“. Upplegg hans var því að nota íslensku sauðkindina sem dæmi fyrir allan landbúnað á Íslandi og möguleika lífrænt vottaðra matvæla. Hann sagði að sú umræða, sem gengur út á að flokka allt lambakjöt sem „eins vöru“ hafi skemmt fyrir, bæði lífrænt vottaðri og „hefðbundinni“ framleiðslu. Ígrunda þyrfti vel alla ímyndarvinnu og markaðssetningu lambakjötsafurða. Gagnsæi framleiðsluaðferða, hin félagslegu áhrif og upplifun væru meðal atriða í allri matvælaframleiðslu að verða æ mikilvægari fyrir neytendur. 

Sveinn Margeirsson, doktor í iðnaðarverkfræði og sveitarstjóri. 

Taka þarf til í regluverki heimaslátrunar og sölu

Hann lagði áherslu á að það þyrfti að breyta þeirri staðreynd að bændur og frumframleiðendur matvæla væru með minnsta hluta framlegðar í virðiskeðjunni. Mikilvæg leið út úr þeirri stöðu sé að bændur geti markaðssett sínar vörur sjálfir og haft sem flesta þræði í hendi sér varðandi söluferlana.  Taka þurfi verulega til í regluverkinu í kringum heimaslátrun og sölu, ef ekki eigi einfaldlega að leggja sauðfjárræktina af. Sömuleiðis gæti lífræn vottun fyrir íslenskt lambakjöt verið leið til sóknar. 

Svo nefndi Sveinn nokkur atriði sem þyrfti til, svo hægt væri að stefna að lífrænni vottun fyrir íslenska sauðfjárrækt. Hann sagði að ekki væri ásættanlegt hvernig gæði á lambakjötsafurðum hefðu þróast, því þyrfti að snúa við og nefndi sérstaklega meyrnina.

Lambakjöt er ekki allt eins

Gleyma þyrfti þeirri goðsögn að allt lambakjöt væri eins, aðgreining á markaði væri grundvallaratriði í nútíma markaðsfræði. Þá þyrfti að virða þarfir og kröfur markaðarins; til dæmis varðandi möguleika á viðskiptum í gegnum netið og í snjalltækjum en einnig kaup á staðbundnum vörum og upprunamerktum með rekjanleika. 

Sveinn sagði að með lífrænt vottuðum sauðfjárbúskap væri stuðlað að fæðuöryggi til framtíðar og hann teldi raunar að skilgreina ætti á hverju ári tiltekið lágmarks framleiðslumagn sauðfjárafurða sem við vildum framleiða án allra innfluttra aðfanga. Í því tilliti þyrftum við að huga að því að nýta vel okkar auðlindir og ekki síst lífrænan úrgang.

Endurskoða þarf eftirlitskerfið

Að síðustu talaði Sveinn um þörfina fyrir endurskoðun á eftirlitskerfinu hvað varðar sauðfjárslátrun, það gæti haft gríðarlega mikil áhrif á bændur í lífrænt vottuðum sauðfjárbúskap og jafnvel meiri en hjá bændum í hefðbundnum búskap. Neytendur væru með skýra mynd af lífrænt vottuðum vörum og því betra að ná til þeirra með lífrænt vottaðar sauðfjárafurðir. Því mætti sjá fyrir sér að framleiðsla á slíkum afurðum myndi stóraukast með fullnýtingu afurða, betri þjónustu og sölu beint frá býli, væri eftirlitið ekki eins stíft og það er í dag.

Fengu lífræna vottun á síðasta ári

Sunna kom inn á málþingið með sjónarhorn garðyrkjubónda sem lokið hefur lífrænni aðlögun. Hún stýrir garðyrkjunni á Ósi í Hörgársveit ásamt manni sínum, Andra Sigurjónssyni, og móður, Nönnu Stefánsdóttur, og fengu þau land sitt vottað lífrænt á síðasta ári.

 Jörðin var keypt haustið 2016 og hafa þau mest látið að sér kveða í ræktun lífrænt vottaðra gulróta. Sunna útskrifaðist úr Garðyrkjuskólanum vorið 2018 af lífrænni braut skólans, en Nanna, móðir hennar, er skrúðgarðyrkjumeistari og hefur unnið við garðyrkju í meira en 30 ár.

Sunna sagði að á tveggja ára aðlögunartímanum hafi ráðgjöf í lífrænni ræktun skort hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), en þau hefðu mjög þurft á henni að halda fyrst í stað. Hún sé undrandi á því að hún sé ekki enn í boði og henni finnst að það vanti ráðunaut þar í lífrænni ræktun. 

Uppbygging og fjárfesting

Frá 2016 hafi verið byggð upp aðstaða á Ósi til að framleiða vörur, bæði vinnslurými í gömlum bragga sem var á jörðinni og svo sé verið að innrétta eldhús þar líka. Þá reistu þau sér 100 fermetra gróðurhús sem þjónar uppeldishlutverki fyrir grænmetið.

Hún segir að fjárfestingarkostnaður sé mikill í byrjun – og eigi eftir að vera það næstu árin – en þau hafi fengið lífrænan aðlögunarstuðning sem hafi breytt miklu í uppbyggingarferlinu, sem hefur líka falist í kaupum á tækjakosti.

Í lífrænt vottaðri garðyrkju fer mikill tími í að uppræta illgresi með höndunum, enda eru hvers kyns eiturefni bönnuð. Sunna segir að það sé kominn til sögunnar alls kyns tæknibúnaður til slíkra verka sem þau séu að skoða kaup á. Þá fer líka mikill tími og fjármagn í að byggja upp frjósemi jarðvegsins og segir hún að þau hafi lært heilmargt með tilraunum og einnig af mistökum í þeim málum – en líklega taki það um tíu ár að læra alveg inn á jörðina ræktunarmöguleikana á henni. 

Auka þarf beinan stuðning stjórnvalda

Sunna ræddi því næst gott framtak hjá VOR (samtökum framleiðenda í lífrænt vottaðri framleiðslu) sem boðið hefur nýliðum upp á að fá heimsóknir frá reynslumiklum framleiðendum til ráðgjafar. Þau hafi notið góðs af því síðasta sumar þegar Svanhvít Konráðsdóttir frá Hæðarenda kom til þeirra ásamt Helga Jóhannessyni, garðyrkjuráðunauti hjá RML.

Gulræturnar á Ósi hafa selst vel í verslununum á Norðurlandi frá því í haust. Tíu tonna gulrótauppskera var í ár. Þau hafa einnig verið að prófa sig áfram með fleiri tegundir í ræktun og þau finna fyrir miklum áhuga á lífrænt vottuðum vörum. Því sé mikilvægt að mega setja lífræna vottunarmerkið frá Túni á umbúðirnar. 

Sunna telur að stefna stjórnvalda gagnvart lífrænt vottuðum búskap þurfi að breytast til að fólk sjái sér fært að byrja, því mjög erfitt sé að koma sér af stað. Auka þurfi beinan stuðning.

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð
Fréttir 2. janúar 2025

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð

Vænlegast þykir enn sem komið er að horfa til notkunar á verkuðu votheyi til nýt...

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð
Fréttir 2. janúar 2025

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð

Lagt er til að hugtakið kolefniseining verði skilgreint í lögum og að þær verði ...

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild
Fréttir 30. desember 2024

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild

Búsæld seldi hlut sinn í Kjarnafæði Norðlenska (KN) í heild til Kaupfélags Skagf...

Styrkir til verslana
Fréttir 30. desember 2024

Styrkir til verslana

Sex dagvöruverslanir í minni byggðarlögum kringum landið hlutu styrki frá innvið...

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans
Fréttir 27. desember 2024

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans

Stefán Hrafn Magnússon, hreindýrabóndi í Grænlandi, hefur gróðursett tré á landi...

Kyngreining sæðis hafin
Fréttir 27. desember 2024

Kyngreining sæðis hafin

Við Nautastöð Bændasamtaka Íslands á Hesti í Borgarfirði hefur verið komið upp f...

Áskrift að Bændablaðinu 2025
Fréttir 27. desember 2024

Áskrift að Bændablaðinu 2025

Gefin eru út 23 tölublöð af Bændablaðinu ár hvert. Upplagi þess er dreift um all...

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...