Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Bændur í Flóahreppi og Skagafirði eru ósáttir við fyrirkomulag nýlegrar gjaldtöku vegna söfnunar dýrahræja.
Bændur í Flóahreppi og Skagafirði eru ósáttir við fyrirkomulag nýlegrar gjaldtöku vegna söfnunar dýrahræja.
Mynd / smh
Fréttir 11. febrúar 2025

Deilt um gjaldtöku vegna meðhöndlunar á dýrahræjum

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Fyrir áramót bárust tvö mál inn á borð lögfræðinga Bændasamtaka Íslands þar sem bændur leituðu ráða í tengslum við nýlega gjaldtöku sveitarfélaga vegna söfnunar og förgunar á dýrahræjum.

Um tvö býli er að ræða; annað er kúabúið Vaglar í Skagafirði en hitt er Lambastaðir í Flóahreppi. Bændurnir eru ósáttir við gjaldtökuna, sem þeir telja óréttmæta og illa útfærða.

Ný gjaldtaka í Flóahreppi

„Það hefur staðið gámur hér í nokkur ár sem ætlaður er undir dýrahræ og í bréfi sem við fengum í nóvember kom fram að það kostaði um sex milljónir króna á ári að reka söfnunargáma sveitarfélagsins og þeim kostnaði þyrfti að dreifa á alla eigendur bújarða sem eru með skráðan bústofn samkvæmt haustskýrslum frá matvælaráðuneytinu,“ segir Svanhvít Hermannsdóttir á Lambastöðum.

„Við fengum reikning í heimabankann í byrjun desember þar sem við erum rukkuð um 50 þúsund krónur fyrir þessa þjónustu. Við veltum því fyrir okkur af hverju Flóahreppur hafi tekið mið af haustskýrslum ráðuneytisins fyrir 2023 til 2024 í stað þess að bíða eftir nýjum skýrslum um búfjárhald sem voru rétt ókomnar. Núna erum við aðeins með 28 kindur hérna og tvö hross og samt fengum við 50 þúsund. Ef það hefur verið tilgangur Flóahrepps með gjaldtöku þessari að þeir greiði sem nota, mistókst það algjörlega. Í fylgibréfi með rukkuninni frá Flóahreppi kemur fram að enginn búfjáreigandi greiði meira en 140 þúsund í þetta dýraleifaförgunargjald. Sem þýðir að smábændur eru að greiða niður förgunarkostnaðinn fyrir stórbændur.“

Að sögn Svanhvítar vildu þau ekki kyngja þessu og leituðu annarra leiða, enda kom fram í bréfi Flóahrepps, þar sem fyrirkomulagið er útskýrt, að ef hægt sé að sýna fram á að búið sjálft myndi sjá um löglega afsetningu eða förgun sinna dýrahræja þá væri hægt að sækja um að fá gjaldið fellt niður. „Á Selfossi bauðst okkur svo að losa okkur við dýrahræ á rúmar 50 krónur á kílóið, hjá Gámafélaginu. Rollan er um 70 kíló og með því að fara með hræið af rollunni í Gámafélagið myndum við borga um 3.800 krónur, fyrir utan virðisaukaskatt. Sem þýðir að það þurfa 13 rollur að drepast á hverju ári á Lambastöðum til að ná þessari 50 þúsund króna upphæð, ef miðað er við verðskrá Gámafélagsins án virðisaukaskattsins.“

Eftir að ábendingar bárust Bændasamtökunum kannaði lögfræðingur þeirra málið og í kjölfarið var bændunum ráðlagt að kvarta til umboðsmanns Alþingis sem myndi birta álit á því hvort þessi gjaldtaka væri heimil samkvæmt lögum. „Þegar við létum sveitarstjóra vita af þessum betri kjörum hjá Gámafélaginu og vorum farin að tala um að senda erindi til umboðsmanns Alþingis, þá var gjaldið á okkur hins vegar snarlega lækkað niður í fimm þúsund krónur. Nú verður spennandi að sjá hvaða gjald verður lagt á okkur fyrir þetta ár sem okkur var sagt að yrði í byrjun ársins,“ bætir Svanhvít við.

Fast gjald, sama hvort hann missir gripi eða ekki

Gísli Björn Gíslason, kúabóndi á Vöglum í Skagafirði, segist hafa verið ósáttur við þessa gjaldtöku sveitarfélagsins frá því hún hófst árið 2023. Áður hafi bændur greitt fast verð fyrir þá gripi sem þurfti að losna við.

„Með þessu nýja kerfi er búið að ákveða að ég greiði fast gjald á hverja kú og lægra fyrir geldneyti og kálfa. Þannig er fengin upphæð sem ég á að greiða, sama hvort ég missi grip eða ekki. Árið 2023 var gjaldið 97.820 krónur, á síðasta ári 88.067 krónur, en í ár verður gjaldið 165.110 krónur og þó hefur gripum ekki fjölgað heldur hefur gjald á grip verið hækkað,“ segir Gísli.

Mun ódýrari lausn í boði

„Mér stendur til boða að losna við allar dýraleifar á mun ódýrari hátt með því að semja beint við förgunarfyrirtæki en er þá bundinn af þessu gjaldi sem sveitarfélagið skikkar mann til að greiða óháð notkun,“ heldur Gísli áfram.

„Ég tel að frelsi til að stjórna eigin viðskiptum séu mannréttindi og ef betri kjör bjóðast þá megi ekki koma í veg fyrir að maður geti nýtt sér þau. Annaðhvort túlka menn lögin ranglega eða þá að lögin eru ólög og þess vegna hef ég ákveðið að kvarta til umboðsmanns Alþingis til að fá úr því skorið hvort frelsi mitt til viðskipta sé til staðar,“ segir Gísli enn fremur.

Bændur ættu að geta valið sér hagstæðari leið

Í svari Jóhannesar Bjarka Urbancic Tómassonar hjá Umhverfis- og orkustofnun, við fyrirspurn um valdheimildir sveitarfélaga í þessum málum, kemur fram að sveitarstjórn ákveði fyrirkomulag söfnunar á úrgangi í sveitarfélaginu. „Hún hefur heimild í lögum um meðhöndlun úrgangs númer 55/2003 til að kveða á um hvernig skuli staðið að söfnun á dýraleifum og dýrahræjum. Sveitarstjórn fjallar um fyrirkomulag og framtíðartilhögun úrgangsmála á sínu svæði í svæðisáætlun sinni og útfærir nánari ákvæði í samþykkt um meðhöndlun úrgangs og í gjaldskrá sveitarfélagsins.

Í tilviki Flóahrepps þá innheimtir sveitafélagið gjald samkvæmt 4. grein gjaldskrár sinnar fyrir miðlæga söfnun dýrahræja en einnig er hægt að skila dýraleifum eða dýrahræjum beint á söfnunarstöðina í Hrísamýri og greiða gjald samkvæmt gjaldskrá söfnunarstöðvarinnar. Í 8. grein samþykktar sveitarfélagsins er tilgreint að semja má við þjónustuverktaka eða þjónustuaðila um ílát og þjónustu fyrir rekstrarúrgang, en það er sá flokkur sem dýraleifar og dýrahræ falla undir. Sveitarfélagið stefnir svo að því að byggja upp brennslustöð sem getur tekið á móti dýraleifum og dýrahræjum í samstarfi við aðrar sveitarstjórnir. Bændur í Flóahreppi ættu því að geta valið sér hagstæðari leið til endurvinnslu eða förgunar á sínum úrgangi, en sú leið þarf auðvitað alltaf að uppfylla þær ströngu kröfur sem gerðar eru til meðhöndlunar á áhættuúrgangi sem flestar dýraleifar og dýrahræ eru.“

Skagfirskir bændur geta ekki samið sig frá gjaldinu

Varðandi Skagafjörðinn segir Jóhannes að kveðið sé á um það í 7. gr. samþykktar sveitarfélagsins að dýraleifar séu sóttar og í 2. grein gjaldskrárinnar er tilgreint að ætlast sé til að býli með umfangsmikla sláturstarfsemi semji beint við þjónustuaðila. „Þar fyrir utan er ekki fjallað um undantekningar frá þeirri reglu að dýraleifar skuli sóttar heim á bæ og að bændur greiði gjald fyrir það. Í svæðisáætlun sveitarfélagsins er lagt kapp á að útrýma urðun dýraleifa og dýrahræja og framleiða í staðinn eins verðmæta vöru og mögulegt er. Bæði samþykkt og gjaldskrá sveitarfélagsins eru í samræmi við það og ég get ekki séð að bændum sé heimilt að semja sig frá því gjaldi sem sveitarfélagið leggur á þá vegna meðhöndlunar dýraleifa og dýrahræja.

Bændur í öðrum sveitarfélögum geta kannað hvernig staðið er að þessum málum í þeirra sveitarfélagi með því að skoða gjaldskrá og samþykkt sveitarfélagsins sem hvort tveggja er að finna á heimasíðu sveitarfélagsins. Í svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs sem flest sveitarfélög hafa sett sér í samfloti við önnur sveitarfélög má sjá hvaða framtíðarhugmyndir sveitarfélagið hefur í úrgangsmálum,“ segir Jóhannes.

Hann bendir á að hægt sé að lesa meira um svæðisáætlanir á vefnum úrgangur.is.

Skylt efni: dýrahræ

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári
Fréttir 20. mars 2025

Lök uppskera á kartöflum og gulrótum á síðasta ári

Hagstofan gaf á mánudaginn út uppskerutölur úr grænmetisog salatræktun síðasta á...

Í fremstu röð í þrjátíu ár
Fréttir 20. mars 2025

Í fremstu röð í þrjátíu ár

Bændablaðið hefur í þrjátíu ár stuðlað að upplýsandi umræðu um landbúnað á víðum...

Vanburða innviðir hringrásarhagkerfis
Fréttir 20. mars 2025

Vanburða innviðir hringrásarhagkerfis

Ekkert eftirlit er á Suðurlandi með því að garðyrkjuúrgangur úr íslenskri útiog ...

Þróun á kjötframleiðslu styður ekki við markmið stjórnvalda um aukið fæðuöryggi
Fréttir 17. mars 2025

Þróun á kjötframleiðslu styður ekki við markmið stjórnvalda um aukið fæðuöryggi

Talsvert hefur verið fjallað um mikilvægi fæðuöryggis landsins að undanförnu, bæ...

Upplýsingar uppfærðar um lambakjöt
Fréttir 14. mars 2025

Upplýsingar uppfærðar um lambakjöt

Eitt af þróunarverkefnum búgreina sem nýlega var veittur styrkur úr matvælaráðun...

Tangi besta nautið
Fréttir 14. mars 2025

Tangi besta nautið

Tangi 18024 frá Vestra-Reyni undir Akrafjalli hlaut nafnbótina besta naut fætt á...

Áform dregin til baka
Fréttir 13. mars 2025

Áform dregin til baka

Áform fjármála- og efnahagsráðherra um frumvarp til breytingar á tollalögum, þar...

Kvíaból fyrirmyndarbú ársins
Fréttir 13. mars 2025

Kvíaból fyrirmyndarbú ársins

Kvíaból í Köldukinn var útnefnt fyrirmyndarbú nautgripabænda árið 2025 á deildar...