Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Torfi 17-816 frá Gróustöðum í Gilsfirði kom nýr inn á sæðingastöð síðastliðið haust. 
Torfi 17-816 frá Gróustöðum í Gilsfirði kom nýr inn á sæðingastöð síðastliðið haust. 
Mynd / RML
Fréttir 20. mars 2020

Drög að ræktunarmarkmiðum fyrir forystufé

Höfundur: smh

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar 28. febrúar flutti Eyþór Einarsson, sauðfjár­ræktar­ráðunautur hjá Ráðgjafar­miðstöð landbúnaðarins, erindi um drög að ræktunarmarkmiðum fyrir forystufé.

Í drögunum eru sett fram ýmis atriði sem liggja eiga til grundvallar slíkum markmiðum; skilgreining á forystufé, mikilvægi erfðafjölbreytileika og æskilegir eiginleikar. Þá er í drögunum stillt fram leiðum að settum markmiðum og dómstigi kynntur fyrir forystufé og forystublendinga.

„Þessi drög verða tekin til afgreiðslu hjá fagráði í sauðfjárrækt á næsta fundi,“ segir Eyþór. „Sá fundur verður væntanlega í byrjun apríl. Allar ábendingar og athugasemdir varðandi markmiðin og dómstigann eru vel þegnar og þá mikilvægt að þær berist fyrir næstu mánaðamót.“

Eyþór Einarsson í ræðustóli á fagfundi sauðfjárræktarinnar. Mynd / smh

Skilgreint sem sérstakt fjárkyn

„Drögin eins og þau líta út núna hef ég unnið í samráði við ýmsa sérfróða aðila; Daníel Hansen hjá Forystufjársetrinu og Anna Englund í Sandfellshaga, formaður í forystufjárfélaginu, hafa hvatt til þessarar vinnu. Verkið hófst með fundi norður í Þistilfirði þar sem nokkrir ræktendur forystufjár komu saman til skrafs og ráðagerðar.

Segja má að það hafi verið rökrétt framhald eftir að forystuféð var skilgreint sem sérstakt fjárkyn – og allt varðandi forystufé var fjarlægt úr ræktunarmarkmiðum um íslenska sauðféð – að sett yrðu niður sérstök markmið fyrir forystuféð. En í kjölfar fræðigreinar sem Jón Viðar Jónmundsson og fleiri rituðu 2015 í Náttúrufræðinginn, var teningunum kastað varðandi það að skilgreina forystufé sem sér fjárkyn.

Markmiðunum fylgja einnig drög að dómstiga fyrir forystufé sem væri þá hugmyndin að prófa á komandi hausti. En hugmyndin er að hvetja til sýningarhalds á forystufé sem vonandi myndi bæði glæða áhugann á ræktun þess og efla þannig varðveislu á þessum einstaka fjárstofni,“ segir Eyþór.

Forystuhæfileikar og skap

Í skilgreiningum á æskilegum eiginleikum hvað forystuhæfileika og skap varðar er tekið fram að forystukindur skulu búa yfir góðum forystuhæfileikum, þ.e.a.s. að þær hafi hæfileika til að taka forystu í fjárrekstri og leiða hópinn.  Forystukind skal þannig vera athugul, róleg og kjörkuð.

Nokkur atriði eru tiltekin varðandi útlitskröfur forystufjár. Einnig æskilegir eiginleikar hvað frjósemi og mjólkurlagni varðar.

Hvað stærð og sköpulag varðar skulu forystukindur hafa fríðan haus með stór, skýr augu og skarplegan svip. „Þær séu léttbyggðar en sterklegar. Tiltölulega stórar en þó fínlegar, háreistar og tignarlegar kindur. Fætur háir og réttir. Sköpulag forystukinda miðist við að þær eigi auðvelt með að hreyfa sig og séu hraustar og endingargóðar.“

Stefnt skuli að því að viðhalda litafjölbreytileika í stofninum. Forystufé getur verið af öllum litum og litaafbrigðum. 

Ullin skal vera fremur fínleg og mjúk. Ullarmagn gott og hreinleiki lita góður. 

Forystufé getur bæði verið hyrnt og kollótt. Varast skal hornalag sem leitt getur til þess að horn vaxi í haus.

Forystuær skulu vera frjósamar og mjólkurlagnar. Æskilegt er að fullorðin forystuær sé að jafnaði tvílembd og mjólki auðveldlega tveimur eðlilega þroskuðum lömbum.

Erfðafjölbreytileiki og skýrsluhald

Í drögunum, í kaflanum um leiðir að settu marki, kemur fram að mikilvægt sé að skráning ætternisgagna sé viðhöfð fyrir allt forystufé í landinu þannig að skyldleiki gripa sé þekktur.  „Í Fjárvis.is þarf að vera hægt að halda sérstaklega utan um forystufé og hlutfall forystufjárblóðs eða hreinræktunarhlutfall hvers grips.  Skilgreindur sé grunnhópur í Fjárvís.is með gripum sem taldir eru hreinræktað forystufé (100% forystublóð). Grunnskráin skal miðast við gripi fædda árið 2008 eða fyrr sem skilgreindir hafa verið sem hreinræktað forystufé. Hægt verður að bæta við gripum í grunnhópinn af þar til bærum aðila ef þörf þykir á.

Kindur sem skilgreindar eru sem forystukindur (hafa 66,7% eða meira forystublóð) og kindur sem skilgreindar eru sem forystublendingar (hafa 33,3%-66,6% forystublóð) skulu undanskildar afurðauppgjöri með kindum sem ekki teljast til forystufjár.  

Til að stuðla að útrýmingu á áhættuarfgerð m.t.t. riðumótsstöðu er æskilegt að sem flestir gripir á sölusvæðum séu arfgerðargreindir,“ segir í hlutanum um erfðafjölbreytileika og skýrsluhald fyrir forystufé.

Tiltekið er að skipulag ræktunarstarfs fyrir forystufé skuli miða að því að skyldleikarækt sé takmörkuð eins og kostur er.  Þá er áhættuarfgerð með tilliti til riðumótstöðu óæskileg.  Stefnt skal að útrýmingu þeirrar arfgerðar.

Strumpur 14-815 frá Gunnarsstöðum í Þistilfirði. Mynd / RML

Forystuhæfileikar, skap og útlit

Í drögunum segir að efla þurfi sýningarhald á forystufé og þróa dómstiga sem tekur á forystuhæfni, skapferli og útliti. „Þegar dómskalinn hefur verið fullmótaður þarf að vera hægt að skrá dóma í fjárvís.is. Þá er æskilegt að bændur geti sjálfir metið forystuhæfni gripa, t.d. með því að geta skráð í fjárvís hvort viðkomandi gripur sýni litla, einhverja eða mikla forystufjáreiginleika.“

Varðandi afurðaeiginleika er í drögunum stefnt að, við mat á frjósemi og mjólkurlagni forystufjár og forystublendinga, að sá hópur sé gerður upp sérstaklega í skýrsluhaldinu.  Þar kemur fram að ekki verður unnið með skrokkgæðaeiginleika við ræktun forystufjár, enda sé aukin holdasöfnun ekki markmið við ræktun forystufjár.

Nánari upplýsingar um ræktunarmarkmiðin og dómstigann fyrir forystufé má finna á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, rml.is.

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild
Fréttir 30. desember 2024

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild

Búsæld seldi hlut sinn í Kjarnafæði Norðlenska (KN) í heild til Kaupfélags Skagf...

Styrkir til verslana
Fréttir 30. desember 2024

Styrkir til verslana

Sex dagvöruverslanir í minni byggðarlögum kringum landið hlutu styrki frá innvið...

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans
Fréttir 27. desember 2024

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans

Stefán Hrafn Magnússon, hreindýrabóndi í Grænlandi, hefur gróðursett tré á landi...

Kyngreining sæðis hafin
Fréttir 27. desember 2024

Kyngreining sæðis hafin

Við Nautastöð Bændasamtaka Íslands á Hesti í Borgarfirði hefur verið komið upp f...

Áskrift að Bændablaðinu 2025
Fréttir 27. desember 2024

Áskrift að Bændablaðinu 2025

Gefin eru út 23 tölublöð af Bændablaðinu ár hvert. Upplagi þess er dreift um all...

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...