Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Eftirspurnin fer vaxandi eftir mjólkurvörum
Fréttir 1. október 2018

Eftirspurnin fer vaxandi eftir mjólkurvörum

Höfundur: Snorri Sigurðsson, snsig@arlafoods.com
Eftirspurnin eftir mjólkurvörum kemur til með að halda áfram að aukast næstu áratugina, umgjörð framleiðslunnar mun breytast verulega og kúabúskapur í Evrópu mun skipta auknu máli í framtíðinni samkvæmt spá nokkurra sérfræðinga í mjólkur­framleiðslu. 
 
Þeir birtu afar góða og ítarlega grein í tímaritinu Journal of Dairy Science um þetta efni og er hún grunnur þessara skrifa hér um mjólkurframleiðsluna í heiminum eftir 50 ár.
 
Aukin eftirspurn
 
Á komandi árum mun eftirspurnin eftir mjólkurvörum aukast verulega af tveimur ástæðum að mati greinarhöfunda:
 
Í fyrsta lagi munu meðaltekjur á hvern íbúa heimsins aukast á komandi árum og áratugum og mun það auka eftirspurn eftir mjólkurvörum og matvælum frá búfjárrækt, sérstaklega í þeim löndum sem við köllum þróunarlönd í dag.
 
Í öðru lagi þá innihalda mjólkur­vörur mikið af næringarefnum sem henta fyrir mannkynið og þess utan er framleiðsla á mjólk og mjólkurpróteinum mun nýtnari á land en önnur próteinframleiðsla. Í búfjárrækt, þ.e. til að framleiða hvert gramm af nýtanlegu próteini þarf minna landsvæði til framleiðslunnar sé próteinið framleitt með mjólkurframleiðslu en með annarri búfjárframleiðslu.
 
Þá leiðir neysla mjólkurafurða til hámörkunar á nýtingu lands sem aðrir fæðuflokkar ná enganvegin að gera og gildir það bæði um framleiðslu á grænmeti og afurða frá annarri búfjárrækt.
 
Úr 87 kg í 119 kg
 
Í dag nemur umreiknuð mjólkur­neysla 87 kg á hvert mannsbarn, þ.e. sé heildarneysla mjólkurvara umreiknuð í magn þeirrar mjólkur sem býr að baki framleiðslunni þá nemur hún 87 kílóum. 
 
Á bak við þessa tölu er reyndar ekki gert ráð fyrir smjörneyslu en í tölum hjá FAO, Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, er mjólkurfitan flokkuð utan við aðrar mjólkurafurðir. 
 
Til þess að setja þessi 87 kíló í samhengi má geta þess að um-reiknuð meðalneysla á mjólkurvörum í þróuðum löndum er í dag 225 kg á hvern einstakling og er því mikill munur á milli landa. Talið er að meðaltal allra landa verði komið í 119 kíló eftir 50 ár og að viðbættri þeirri mjólk sem fer til framleiðslu á smjöri auk áætlaðrar fólksfjölgunar hafa greinarhöfundar reiknað út að árið 2067 muni vanta um 600 milljarða lítra af mjólk til viðbótar því magni sem framleitt er í dag!
 
Í dag kemur 82,4% af mjólkinni frá mjólkurkúm, 13,6% frá buffalóum, 2,3% frá geitum, 1,3% frá ám og 0,4% frá úlföldum og eigi mjólkurkýr að ná að sinna þessari auknu framleiðslu þurfa meðalafurðir þeirra að tvöfaldast á næstu 50 árum eða úr 2.405 kg í 4.531 kg. Þetta telja greinarhöfundar ógerlegt vegna þess að þar sem meðalafurðirnar eru hvað lægstar í heiminum í dag, eru lang flestar kýr nú þegar. Líklegri er því sú spá að kúm muni fjölga en meðalafurðir munu auðvitað hækka einnig eitthvað.
Stuðla ber að jafnvægi
 
Greinarhöfundar benda á að svo unnt verði að sinna hinni auknu eftirspurn sé mikilvægt að hvert markaðssvæði geti sinnt mikið til eftirspurninni með framleiðslu á eigin markaðssvæði og að jafnvægi þurfi að vera á heimaframleiðslu og innflutningi. Verði þetta gert mun framleiðslan aukast verulega í þróunarlöndunum en þar sem fyrirséð er að eftirspurnin muni vaxa umfram getu kúabænda viðkomandi landa og landsvæða þá muni verða markaður fyrir útfluttar mjólkurvörur.
 
Mikil fólksfjölgun fram undan
 
Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) telja að íbúum heimsins muni fjölga úr þeim 7,6 milljörðum, sem talið var að væru á jörðinni um síðustu áramót, í 10,5 milljarða árið 2067. Þessari spá fylgja þó rífleg öryggismörk og gæti því fólksfjöldinn verið einhversstaðar á bilinu 8,6-12,6 milljarðar. 
 
Að mati SÞ mun 93% af aukningunni næstu 50 árin verða í Asíu og Afríku en að mannfjöldinn í Evrópu muni dragast saman. Á öðrum svæðum í heiminum mun fólki hins vegar fjölga hóflega. Að 50 árum liðnum er talið að helmingur íbúa heimsins muni búa í einungis 10 löndum: Indlandi, Kína, Nígeríu, Bandaríkjunum, Pakistan, Indónesíu, Kongó, Eþíópíu, Brasilíu og Bangladesh!
 
Vegna þessara fyrirséðu breyt­inga, þar sem markaðurinn í Evrópu er talinn muni dragast saman, er ljóst að eigi kúabúskapur í Evrópu að halda áfram að vaxa og/eða standa í stað þarf að huga að enn frekari útflutningi mjólkurvara en nú er gert.
 
Hækkandi hitastig
 
Síðustu fimm áratugi hefur hitastig jarðar hækkað og er því spáð að sú þróun muni halda áfram næstu fimm áratugi. Það er þó sérstaklega þróun veðurfars á norðurhveli jarðar sem skiptir máli fyrir mjólkurframleiðsluna enda búa þar í dag 81% mannkyns og 86% mjólkurinnar er framleidd norðan við miðbaug. Ef þessi hluti jarðar heldur áfram að hitna mun það leiða til breyttra ræktunarskilyrða og aukinnar uppskeru á sumum landsvæðum en leiða til minni uppskeru annarsstaðar vegna þurrka. Þetta gæti gjörbreytt þeirri heimsmynd sem blasir við í dag þegar horft er til mjólkurframleiðslu og t.d. er því spáð að alvarlegur vatnsskortur muni hrjá stór svæði í Bandaríkjunum og m.a. þar sem 42% af mjólkinni er framleidd í dag! Á móti kemur að stór svæði í norðurhluta Bandaríkjanna, í Kanada og Rússlandi muni henta mun betur til mjólkurframleiðslu á komandi áratugum en þau gera í dag.
 
Bætt nýting fóðurefna
 
Nú þegar eru kúabú heimsins farin að nýta sem fóður fyrir mjólkurkýr margskonar aukaafurðir annarrar matvælavinnslu s.s. hrat sem verður til við sykurgerð, bjór- eða vínframleiðslu, djúsframleiðslu og margt fleira mætti tína til. Í framtíðinni verður þessi nýting að líkindum enn meiri og betri og mun það leiða til enn umhverfisvænni mjólkurframleiðslu en þekkist í dag þar sem þörf búgreinarinnar fyrir land mun ekki vaxa í sama hlutfalli og hin aukna framleiðsla. Þá er talið ljóst að mjólkurframleiðsla muni færast meira yfir á þau landsvæði sem eru grasgæf og land sem hentar til beinnar matvælaframleiðslu fyrir mannfólk verði síður notað sem fóðurframleiðslusvæði kúa.
 
Stærri og tæknivæddari bú
 
Mjólkurframleiðslan í framtíð­inni mun þróast í átt að stærri og tæknivæddari búum en þróunin mun þó ráðast mikið af afkomunni í greininni. Nýleg rannsókn frá Írlandi bendir til þess að þau bú sem hafa mestar meðalafurðir á hverja kú og mesta mjólkurframleiðslu af hverjum hektara skili mestum hagnaði auk þess sem kolefnisfótspor þessara búa er minna en annarra. Telja greinarhöfundar að hagnaður kúabúa framtíðarinnar muni verða í samræmi við niðurstöður þessarar írsku rannsóknar, en það verði þó algjörlega háð þróun afurðastöðvaverðsins, sem muni þróast í takt við framboð og eftir-spurn á heimsmarkaðnum.
 
Öflugri kýr
 
Þó svo að kýrnar sem notaðar eru í dag við mjólkurframleiðslu víða í heiminum séu ágætar til síns brúks þá er talið að þær muni taka nokkrum breytingum á komandi árum. Sérstaklega þegar horft er til endingar þeirra og hreysti en kynbætur og aukin tæknileg þekking muni hafa verulega góð áhrif á þessa eiginleika á komandi árum og áratugum. Þá muni dýravelferð hljóta aukið vægi næstu áratugina og mun það fara saman með þróun á fjósbyggingum og hönnun á nærumhverfi nautgripa almennt.
 
Þróun afurðasemi kúa mun einnig breytast verulega á komandi áratugum en áherslan verður frá því að framleiða mikið magn mjólkur og yfir í að framleiða aukið magn af verðefnum mjólkurinnar, þ.e. auka þurrefnishluta mjólkur með kynbótum og breyttri fóðrun.
 
Óvissuþættir
 
Mjólkurframleiðsla hefur verið tengd síðustu 360 kynslóðum mannkyns og er afar ólíklegt annað en að hún verði einnig nátengd næstu tveimur kynslóðum þ.e. næstu 50 árin eða svo. Ör þróun í framleiðslu á staðgönguvörum mjólkurvara gæti þó haft einhver áhrif á þetta samspil.
 
Þá gæti ný tækniþekking, þar sem sjó er breytt í drykkjarvatn, gjörbreytt aðstæðum til mjólkurframleiðslu og stóraukið hana langt umfram þær spár sem gerðar hafa verið.
 
Mest óvissa, varðandi framtíðar­þróun mjólkurframleiðslu, er þó sú fjarlægð sem hefur myndast og mun halda áfram að myndast á milli frumframleiðslu matvæla og neytenda. Margir neytendur telja að búfjárrækt spilli meira en hún gagnist náttúrunni og líta jafnvel á búfjárframleiðslu sem níð. Með aukinni tæknivæðingu og bættri nýtingu aðfanga verður hluta af þessum áhyggjum eytt en þó ekki að fullu og þetta skapar ákveðna óvissu um framtíðina.
 
Þrátt fyrir og vegna þess sem hér að framan kemur fram, auk ótal annarra atriða sem of langt mál væri að taka fyrir í stuttri grein, telja greinarhöfundar að framtíðin sé í raun björt hjá mjólkurframleiðendum. Mjólkurframleiðslan í framtíðinni muni verða vistvænnni en kraftmikil og muni hlú bæði að búfé og umhverfinu og verða þörf mann-kyninu með framleiðslu sinni á mikilvægum næringarefnum.
 
Heimild: Britt ofl., 2018. Learning from the future – A vision for dairy farms and cows in 1967. Journal of Dairy Science, 101(5):3.722-3.741.
Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi
Fréttir 22. nóvember 2024

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi

Formlegt erindi liggur nú í matvælaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því að arf...

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...

Lán að ekki fór verr
Fréttir 22. nóvember 2024

Lán að ekki fór verr

Um sex þúsund varphænur drápust í eldsvoðanum sem varð í eggjabúi hjá Nesbúeggju...

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning
Fréttir 22. nóvember 2024

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning

Matvælaráðuneytið hefur úthlutað nýliðunarstuðningi í landbúnaði fyrir árið 2024...

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...