Elsti Íslendingurinn lagði birkifræsverkefninu lið með fræsöfnun
Dóra Ólafsdóttir, elsti Íslendingurinn, sem er 108 ára gömul, fædd 6. júlí 1912, brá sér nýlega bæjarferð úr Reykjavík, þar sem hún býr, í Hveragerði til að safna birkifræi og leggja þar með landsátaki um söfnun fræja lið.
Dóra hefur alltaf verið mikil landgræðslu og skógræktarkona og vill að útbreiðsla birkiskóga verði aukin en talið er að þeir hafi þakið a.m.k. fjórðung landsins við landnám. Birkifræinu sem safnast verður dreift á völdum svæðum í öllum landshlutum. Allar nánari upplýsingar um hvernig best er að tína fræ, varðveita og dreifa er að finna á vefnum birkiskogur.is.