Endurheimt votlendis í Skálholti
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur samþykkt útgáfu fram- kvæmdaleyfis vegna endurheimtar á votlendi innan jarðar Skálholts og hefur falið skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins útgáfu leyfisins.
Um er að ræða framkvæmdaleyfi frá Landgræðslunni vegna endurheimtar votlendis í landi Skálholts á um 13,5 hekturum. Fyrirhugað er að fylla upp í og þar með að stífla um 1.670 metra af skurðum. „Áhersla verður lögð á að vanda til verka, þjappa efninu vel ofan í skurðstæðið svo að fyllingar skolist ekki til og að öryggi manna og dýra sé gætt.
Eins á að taka til hliðar gróður úr skurðum og ofan af ruðningum til að þekja yfirborð rasksvæða og flýta þannig fyrir uppgræðslu þeirra. Verkið verður unnið með beltagröfu og einungis notaðir gamlir ruðningar og efni á endurheimtarsvæðinu til að fylla upp í skurðina,“ segir m.a. í umsókn Landgræðslunnar.