Ferskt íslenskt kínakál og nýjar kartöflur í verslanir
Fyrsta merki þess að upp sé runninn tími íslenska útiræktaða grænmetisins er þegar kínakálið kemur í verslanir – og sú er raunin í dag.
Að sögn Guðna Hólmars Kristinssonar, framkvæmdastjóra afurðarsviðs Sölufélags garðyrkjumanna, má búast við að á næstu vikum komi fleiri tegundir inn og strax um helgina koma nýjar íslenskar kartöflur í einhverjar verslanir.
„Ég held að útiræktin líti nokkuð vel út eins og er. Fyrsta kínakálið kemur frá Óskari Rafni Emilssyni á Grafarbakka. Kartöflurnar koma frá Vigni Jónssyni í Auðsholti og Óskari Kristinssyni og Birki Ármannssyni í Þykkvabæ. Kartöflurnar eru frekar snemma á ferðinni en kínakál hefur stundum komið í lok júní.
Það gerist svo mikið í þessu á næstu tveimur til þremur vikum; þá fer að koma spergilkál, gulrætur, blómkál, hvítkál og grænkál. Rauðkál og gulrófur koma svo í ágúst,“ segir Guðni Hólmar Kristinsson.