Fimm ARR-ær bættust við á Þernunesi og átta T137-gripir á Árskógsströnd
Greining sýna í átaksverkefni Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins í arfgerðargreiningum í sauðfé er nú í fullum gangi, en um stærsta verkefni sinnar tegundar á Íslandi er að ræða. Í síðustu niðurstöðum hafa komið fram fimm ARR-kindur á Þernunesi á Reyðarfirði og átta T137-gripir á Stóru-Hámundarstöðum á Árskógsströnd.
Fyrstu niðurstöður voru birtar 14. mars og komu að mestu leyti frá bæjum í Skagafirði og Austur-Húnavatnssýslu, upphafssvæði riðuveiki á Íslandi, og fannst engin kind með hina alþjóðlega viðurkenndu verndandi arfgerð (ARR) gegn riðu og engin með arfgerðina T137, sem er talin mögulega verndandi. Í næsta skammti, sem birtar voru niðurstöður úr þann 28. mars, fannst hins vegar einn hrútur á Stóru-Hámundarstöðum á Árskógsströnd með þá arfgerð.
Það er í fyrsta sinn sem arfgerðin T137 finnst í hrúti hér á landi, en hann heitir Austri (20-623) og telst vera hinn álitlegasti kynbótagripur, samkvæmt lýsingu Eyþórs Einarssonar ráðgjafa sem birtist á vef RML.
Samkvæmt nýjustu niðurstöðum eru því T137 gripirnir orðnir 17; átta á Stóru-Hámundarstöðum, sex á Sveinsstöðum í Austur-Húnavatnssýslu og þrjár kindur á Straumi í Hróarstungu.
Átti öflugasta sláturlambahópinn
Á vef RML segir Eyþór um Austra að hann sé „sá hrútur sem átti hvað öflugasta sláturlambahópinn sl. haust á búinu. Hann átti um 60 afkvæmi með sláturupplýsingar og hlutu þau að jafnaði 10,7 fyrir gerð og 5,7 fyrir fitu við 17,5 kg fallþunga. Faðir Austra er sæðingastöðvahrúturinn Amor 17-831 frá Snartarstöðum, en ekki kemur T137 frá honum.
Móðurættin er frá Stóru-Hámundarstöðum í grunninn en er aðeins blönduð með hrútum af sæðingastöðvunum. Það er þó bara einn stöðvahrútur sem kemur fyrir í fyrstu fjórum ættliðunum í móðurætt Austra en það er Myrkvi 10-905 frá Brúnastöðum sem er MFF. Amma Austra er ein af betri afurðakindum búsins og er með 119 stig fyrir mjólkurlagni.
Kynbótamat Austra er: 120 (gerð) – 112 (fita) – 103 (frjósemi) – 104 (mjólkurlagni),“ segir Eyþór á vef RML.
Niðurstöður liggja nú fyrir úr um sex þúsund sýnum. Heildarfjöldi kinda sem stendur til að greina í gegnum verkefnið er um 25 þúsund frá um 500 sauðfjárbúum.
Alls komnir fram 14 ARR-gripir og allir á Þernunesi
ARR-arfgerðin hefur eingöngu fundist í Þernunesi fram til þessa. Eyþór segir þann 5. apríl á vef RML að markvisst hafi verið farið í gegnum hjörðina í leit að fleiri gripum.
„Í gær bárust niðurstöður úr greiningum á 136 sýnum frá búinu. Í hópnum fundust 5 nýir ARR gripir, allt ær. Þá eru ARR kindurnar orðnar 14 í það heila á búinu,“ segir hann.
Áhættuarfgerðin fannst í í 202 kindum á riðusvæðum
Í fyrstu niðurstöðunum, frá bæjum í Skagafirði og Austur-Húnavatnssýslu, fannst áhættu arfgerðin VRQ í 202 kindum, eða 7,7 prósenta gripanna.
Fimm ær voru arfhreinar um þessa arfgerð sem telst næm gagnvart riðusmiti og því óæskilegt fé á riðusvæðum.
Arfgerðin C151 er mögulega talin verndandi í arfhreinu ástandi og úr fyrstu niðurstöðunum fundust 30 kindur með hana á 12 búum, en allar voru þær arfblendnar.
Að sögn Eyþórs munu niðurstöður berast hraðar á næstunni.
Kindin 20-006 frá Höfða í Grýtubakkahreppi er ein af 30 kindum úr fyrstu niður- stöðum með arfgerðina C151, sem gæti verið verndandi í arfhreinu ástandi.