Fleiri sveitarfélögum boðið að borðinu í umræðum um sameiningu í Austur-Húnavatnssýslu
Sveitarstjórnir í Austur-Húnavatnssýslu hittust á dögunum á fundi með ráðgjöfum RR-ráðgjafar sem eru þeim innan handar í viðræðum um hugsanlega sameiningu sveitarfélaga í sýslunni.
Fram kemur í fundargerð að ráðgjafar telji að ýmis atriði þurfi að rýna betur áður en lengra er haldið. Fram kom á fundinum að sveitarstjórn Skagastrandar hafi óskað eftir því að unnið yrði að því að finna samhljóm og sameiginlega meginhagsmuni á svæðinu. Þá hefur komið fram ósk frá sveitarstjórn Húnavatnshrepps um að mörkuð verði stefna varðandi framtíðarverkefni á Húnavöllum ef skólahald þar leggst af.
Sjö sveitarfélög eru í dag í Vestur- og Austur-Húnavatnssýslum, en Skagaströnd klýfur þar sveitarfélagið Skagabyggð í tvennt. Nú er rætt um þann möguleika að þau sameinist öll í eitt sveitarfélag.
Í tengslum við umræðuna á fundinum vakti Halldór G. Ólafsson, oddviti Sveitarfélagsins Skagastrandar, máls á því að mikilvægt væri að komast að niðurstöðu um meðferð þeirra fjármuna sem Sveitarfélagið Skagaströnd á. Í kjölfarið sköpuðust umræður um möguleika á því að tryggja að fjármunirnir yrðu nýttir til uppbyggingar á innviðum á Skagaströnd sem myndu þó nýtast svæðinu öllu til góða.
Einnig urðu á fundinum umræður um hvort kanna ætti áhuga fleiri sveitarfélaga á þátttöku í sameiningarviðræðum og var borin upp tillaga um að bjóða Húnaþingi vestra, Sveitarfélaginu Skagafirði og Akrahreppi formlega að viðræðunum og var hún samþykkt.