Ný rannsókn leiðir í ljós að fóðurframleiðsla og/eða heyframleiðsla eru helstu áhrifaþættir umhverfisáhrifa fyrir allar kjötvirðiskeðjur.
Ný rannsókn leiðir í ljós að fóðurframleiðsla og/eða heyframleiðsla eru helstu áhrifaþættir umhverfisáhrifa fyrir allar kjötvirðiskeðjur.
Mynd / Werner/Pixabay
Fréttir 2. október 2024

Fóðurval skiptir lykilmáli í kjötframleiðslu

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Lífsferilsgreining innlendra kjötframleiðsluvirðiskeðja er nú til skoðunar hjá Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.

Um þessar mundir vinnur Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, ásamt samstarfsaðilum, að verkefninu „Sjálfbært heilsusamlegt mataræði“, sem styrkt er af markáætlun Rannís. Markmið verkefnisins er meðal annars að skoða þau fjölbreyttu umhverfisáhrif sem tengjast mataræði Íslendinga.

Fóðurval og hey áhrifaþættir
María Guðjónsdóttir og Ólafur Ögmundarson

María Guðjónsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ, og Ólafur Ögmundarson, dósent og sérfræðingur í lífsferilsgreiningum við deildina, segja að meðal helstu niðurstaðna verkefnisins sé til dæmis að framleiðsla á lambakjöti á Íslandi sé mjög sambærileg hvað umhverfisáhrif varðar og sjá megi í nágrannalöndum okkar.

„Einhver munur felst þó í nýtingu á beitarlandi, heyi og fleiri þáttum. Á óvart kemur hve stóran þátt fóðurval og heyskapur hefur á heildarumhverfisáhrif framleiðslunnar. Þetta eru þó þættir sem er hugsanlega hægt að bæta með frekari rannsóknum og vali á hentugra fóðri,“ segja þau.

Svipaða tilhneigingu hafi verið að sjá í flestum virðiskeðjunum, þ.e. lambakjöts, nautakjöts og mjólkur, svína- og alifuglakjöts.

„Fóðurval skiptir greinilega lykilmáli í kjötframleiðslu á Íslandi óháð tegund búfénaðar og því er mikilvægt að frekari rannsóknir verði kostaðar til að minnka umhverfisáhrif þessa parts framleiðslunnar. Þá vonumst við til að niðurstöður verkefnisins veki fólk til umhugsunar um hvernig fæðuval okkar getur haft áhrif bæði staðbundið hér á Íslandi og á heimsvísu,“ segja þau.

Framleiðsla á lambakjöti á Íslandi er mjög sambærileg hvað umhverfisáhrif varðar og í nágrannalöndum okkar.
Helstu kjötframleiðsluvirðiskeðjur

Að sögn Maríu og Ólafs er þekkt frá fyrri rannsóknum að kjötframleiðsla, sérstaklega framleiðsla rauðs kjöts, stuðli almennt að hærri umhverfisáhrifum, svo sem kolefnisfótspors og vatnsnotkunar, en aðrir flokkar matvæla. Hins vegar hafi takmarkað verið vitað um hvernig iðnaðurinn hér á Íslandi standi gagnvart umhverfisáhrifum og hvort við séum á sambærilegu róli og löndin sem við berum okkur saman við að jafnaði. Því hafi verið lögð áhersla á að greina heildstæð umhverfisáhrif (bæði staðbundin og hnattræn) allra helstu kjötframleiðsluvirðiskeðja á Íslandi, þar með talið virðiskeðjur lambakjöts, nautakjöts og mjólkur, svína- og alifuglakjöts.

„Ítarlegar greiningar á umhverfisáhrifum með lífsferilsgreiningu taka til mun fleiri þátta en kolefnisspors framleiðslunnar, þó svo að það sé sú breyta sem oftast er rætt um,“ útskýra þau María og Ólafur. Lífsferilsgreiningarnar í verkefninu meti til að mynda vatns-, land- og orkunotkun, út frá til dæmis áburðarnotkun og fóðurframleiðslu, ásamt fleiri þáttum.

Rannsóknin nýnæmi

Í lífsferilsgreiningum eru umhverfisáhrif reiknuð út frá efna- og orkunotkun innan skilgreinds ramma rannsóknarinnar.

„Í okkar tilviki reiknum við umhverfisáhrifin fyrir öll aðföng og orkunotkun sem þarf til að framleiða dýraafurðirnar þar til þær fara á sláturhús. Gögnin sem stuðst er við eru t.d. samsetning mismunandi fóðurtegunda og framleiðsla einstakra þátta þeirra, bæði heys og kjarnfóðurs, brennsla olíu og rafmagnsnotkun, svo eitthvað sé nefnt,“ segja María og Ólafur.

Aðspurð hvort nýmæli séu í þeirri lífsferilsgreiningu segja þau að Ísland sé í sérstöðu, vegna smæðar, til að veita gögn sem gefi raunhæfa mynd af umhverfisáhrifum framleiðslu heils lands og veiti það rannsókninni mikið nýnæmi.

Enn fremur opni lífsferilsgreiningarnar á íslenskum matvælavirðiskeðjum möguleika á ítarlegri áætlunum en áður um umhverfisáhrif mataræðis Íslendinga. Niðurstöður á kolefnisspori og fleiri breytum verði tengdar við niðurstöður Landskönnunar á mataræði sem framkvæmd var árin 2019–2021 á vegum Embættis landlæknis og Rannsóknarstofu í næringarfræði við HÍ.

„Ítarlegar samantektir á gögnum verða þá gerðar aðgengilegar fyrir framtíðarrannsóknir, en í því felst gríðarlegt verðmæti,“ segja þau.

Vönduð sögun á kjöti skiptir miklu máli fyrir neytendur.

Gagnasöfnun á heimsmælikvarða

María og Ólafur segja hafa komið á óvart hve erfitt reyndist að nálgast opinber og traust gögn um virðiskeðjurnar fyrir verkefnið.

„Gögn eru almennt ekki úr ritrýndum eða staðfestum heimildum og því felst þó nokkur óvissa í gæðum hrágagnanna. Gagnasöfnunin sem var framkvæmd í verkefninu er því ein sú ítarlegasta sem finnst á alþjóðavísu og stefnt er á að öll gögn rannsóknarinnar verði birt og aðgengileg fyrir framtíðarrannsóknir á þessu sviði,“ segja þau.

Einnig þykir þeim áhugavert að fóðurframleiðslan og/eða heyframleiðsla séu helstu áhrifaþættir umhverfisáhrifa fyrir allar kjötvirðiskeðjurnar.
„Þar sem fóðrið er nær eingöngu unnið úr erlendum hráefnum, umfram heyið sem nýtt er í sumum virðiskeðjanna, er greinilegt að umhverfisáhrifin af íslenskri kjötframleiðslu teygja sig langt út fyrir landamæri Íslands.

Þetta vekur spurningar um fæðuöryggi landsins, auk siðferðislegra spurninga um mikilvægi þess að velja vel hvaðan hráefnið í fóðurgerðina kemur. Hvað heyframleiðsluna varðar vekur athygli mikið magn tilbúins innflutts áburðar sem er mun hærra en í flestum öðrum löndum, líklega vegna lægri umhverfishita og rýrari ræktunarskilyrða. Allt hefur þetta áhrif á heildarumhverfisáhrif virðiskeðjanna,“ útskýra þau.

Sér fyrir endann á verkefninu

Nú er efst á baugi í verkefninu að fjöldi doktors- og meistaranema vinna að því og taka mismunandi virðiskeðjur og sjónarhorn fyrir í rannsóknarverkefnum sínum.

María og Ólafur segja nemana að mestu búna með gagnaöflun sína og vinni nú að ritun vísindagreina og ritgerða sem birtar verði á árinu. Rannsóknarhópurinn stefni svo á að tengja umhverfisáhrif allra greindra virðiskeðja saman í eitt heilsteypt mat á umhverfisáhrifum matvælaframleiðslu á Íslandi.

„Rannsóknarverkefnið „Sjálfbært heilsusamlegt mataræði“ er á lokametrunum og mun klárast nú í haust en haldinn verður lokafundur í upphafi október. Þó verður unnið áfram að birtingu niðurstaðna næstu mánuði og kynningu á helstu niðurstöðum verkefnisins og tengdra rannsóknarverkefna okkar. Doktorsnemendur sem hafa unnið við verkefnið munu þá útskrifast á þessu skólaári ef allt gengur að óskum,“ segja þau að lokum.

Aukinn innflutningur á lægri tollum
Fréttir 2. október 2024

Aukinn innflutningur á lægri tollum

Ekki er hægt að fá uppgefna þá aðila sem standa að baki innflutningi á landbúnað...

Fóðurval skiptir lykilmáli í kjötframleiðslu
Fréttir 2. október 2024

Fóðurval skiptir lykilmáli í kjötframleiðslu

Lífsferilsgreining innlendra kjötframleiðsluvirðiskeðja er nú til skoðunar hjá M...

Tilkynna á tjón vegna ágangs
Fréttir 2. október 2024

Tilkynna á tjón vegna ágangs

Bændum ber að skila tjónamati vegna ágangs álfta og gæsa fyrir 20. október nk.

Reglur um öflun sjávargróðurs
Fréttir 1. október 2024

Reglur um öflun sjávargróðurs

Reglugerð um öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni hefur nýlega verið gefin út.

Dagur landbúnaðar á Suðurlandi
Fréttir 1. október 2024

Dagur landbúnaðar á Suðurlandi

Bændasamtökin og Samtök fyrirtækja í landbúnaði blása til málþings á degi landbú...

Fækkun framleiðenda
Fréttir 1. október 2024

Fækkun framleiðenda

Mjólkurframleiðendum hefur fækkað um 66 á fimm árum. Greiðslumarkseign hefur min...

Mannmergð truflar réttarstörf
Fréttir 30. september 2024

Mannmergð truflar réttarstörf

Talsverð umræða hefur verið á Facebook-síðunni Sauðfjárbændur um óreiðukennt ást...

Sumarið sem aldrei kom
Fréttir 30. september 2024

Sumarið sem aldrei kom

Bændur á stórum hluta landsins segja heyannir í sumar hafa verið með þeim erfiðu...