Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Skapa þarf forsendur til að bændur geti gripið til varnar gegn ágangi fugla á tún og akra.
Skapa þarf forsendur til að bændur geti gripið til varnar gegn ágangi fugla á tún og akra.
Mynd / Hlynur Gauti
Fréttaskýring 11. nóvember 2023

Ágreiningur um áhrif veiða

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Samkeppni um rými og auðlindir geta valdið misklíð milli manna og dýra. Í tilfelli sambands bænda og álfta, gæsa og helsingja er lífsafkoma og efnahagur bóndans rót ágreiningsins.

Fuglarnir sækja í fæðu á tún og akra sem ætlað er fyrir búskapinn. Með auknum jarðgæðum og vaxandi kornrækt er fyrirséð að ágangur fugla aukist enda geta gróskumikil tún og kornakrar verið hagstæðir dvalarstaðir með afbragðs fuglafæðu.

Bændur hafa reynt að grípa til hinna ýmsu aðferða til að fæla fugla frá landskikum. Fuglahræður, veifur, ýlur, gasbyssur og hundar hafa verið notuð gegn fuglaágangi sem og tiltekin jarðvinnsla og skjólbeltaræktun – jafnvel sérstakir fuglabeitarakrar. Allar slíkar aðgerðir eru bæði tímafrekar eða kalla á umtalsverð fjárútlát – og aukatími og aurar eru ekki beint á hverju strái hjá bændum. Þeir sem lenda í miklum ágangi geta orðið fyrir talsverðu tjóni; heymagn minnkar og verður jafnvel ólystugt vegna mengunar, kornbændur verða af uppskeru sem vega þarf þá upp á móti með auknum kaupum á innfluttu fóðri.

Álftahópur á túni í Eyjafirði í vetur. Mynd /Steinunn Ásmundsdóttir

Bændur sem vilja afstýra tjóni þurfa að gera það á sinn kostnað. Ekkert kerfi er í gangi til að styðja við fyrirbyggjandi aðgerðir. Það eina sem er í boði er að tilkynna þegar tjón hefur átt sér stað og sækja um bætur. Bændur eru á einu máli um að þær tjónagreiðslur skili engum árangri og feli ekki í sér neinar úrbætur á augljósu og vaxandi vandamáli.
Margir bændur eru hins vegar á því að lausnin felist í afléttingu alfriðunar álfta og skýrari heimild til að verja sitt jarðnæði með veiðum. Fjórum sinnum í röð hefur verið lögð fyrir Alþingi þingsályktunartillaga um tímabundið leyfi til veiða en málið hefur ekki fengið brautargengi.
Bent hefur verið á að veiðar séu ekki lausnin og geti í raun haft þveröfug áhrif. Ýmsar aðrar leiðir séu fyrir hendi sem gætu stemmt stigu við ágangi og nýjasta tækni gæti þar reynst haukur í horni. Allar ákvarðanir og aðgerðir krefjist þó í fyrsta lagi rannsókna, ítarlegs samráðs, stefnumótunar og áætlanagerðar.

Fuglarnir

Orsakir aukins ágangs fugla liggur í breyttri landnotkun, bættum aðstæðum til ræktunar og aukinni kornrækt. Í Bleikum ökrum – aðgerðaráætlun um aukna kornrækt er farið yfir málefnið með vísunum í heimildir og rannsóknir þar að lútandi.

Þær fuglategundir sem helst herja á tún og kornakra eru álft, heiðagæs og grágæs en einnig hafa margæsir, blesgæsir og helsingjar valdið staðbundnu tjóni. Stór áborin tún með næringarríku sáðgresi og kornakrar eru góð fæða fyrir þessa fugla.

Álftin er stærsti fugl sem hér á landi finnst og algengur um allt land.

Caption

Stofninn hefur stækkað töluvert – um 1960 taldi hann um þrjú til fimm þúsund fugla en árið 2020, þegar síðasta talning fór fram, var stofnstærð metin um 43.000 fuglar.

Heiðagæsastofninn hefur einnig stækkað umtalsvert, árið 1952 var hann 23.000 fuglar en er nú í sögulegu hámarki, um 480.000 fuglar. Grágæsir eru taldar 60.000 talsins og hefur fækkað töluvert undanfarin ár, voru um 100.000 árið 2012.

Veiða má grágæs og heiðagæs frá 20. ágúst til 15. mars. Álftin er hins vegar alfriðuð og vernduð sérstaklega samkvæmt hinum alþjóðlega Bernarsamningi um villtar plöntur og dýr.

Stofnstýring ekki í sjónmáli

Ísland er þar að auki aðili að samningi um vernd farfugla og votlendisfugla í Afríku og Evrasíu. Samningurinn er gerður til verndunar votlendisfuglum á viðkomustöðum þeirra og nær til fjölda fuglategunda sem verpa eða hafa áningarstað á Íslandi.

Ríki geta ákveðið að vinna að því að stýra stofnstærðum fugla- tegunda sem valda skemmdum á uppskeru, og þurfa þá að skilgreina ásættanlega verndarstöðu. Út frá þeirri skilgreiningu er hægt að ráðast í aðgerðir til að hafa áhrif á stærð fuglastofna.

Það var gert í tilfelli Svalbarðastofns heiðagæsa árið 2012, stofn- stærð var þá minnkuð skipulega niður í 60.000 fugla til að lágmarka skaða sem þær valda á uppskeru og gróðri í freðmýri án þess að gera út af við stofninn.

Ekki hefur verið farið út í að skilgreina ásættanlega verndarstöðu íslenskra fuglastofna, en sú forsenda þarf að vera fyrir hendi ef ráðast á í fækkunaraðgerðir. Þar sem álftin er vernduð sérstaklega samkvæmt Bernarsamningnum myndi markviss fækkun þeirra eða opin veiðileyfi aldrei samrýmast alþjóðlegum skuldbindingum Íslands gagnvart samningum.

Ef út í slíka stofnstýringu færi farið væri nauðsynlegt að samræma aðgerðir milli aðildarríkja viðkomandi samninga.

Eins og áður sagði hefur fjórum sinnum verið lögð fyrir Alþingi þingsályktunartillaga um tímabundið leyfi til veiða gæsa, álfta og helsingja. Ein slík tillaga liggur nú fyrir Alþingi en áður hefur málið ekki hlotið framgang.

Sjöunda grein laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994 kveður á um að ráðherra geti, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, veitt tímabundið leyfi til veiða í því skyni að koma í veg fyrir tjón. Bændur hafa látið á þessa undanþágu reyna en með litlum sem engum árangri.

Þurfti að forða fénu og fékk ekki undanþágu

Í vor fór Hákon Bjarki Harðarson, bóndi á Svertingsstöðum 2 í Eyjafjarðarsveit, þess á leit við umhverfis-, orku- og lofts­lags- ráðherra að hann veitti honum undanþágu til að skjóta allt að fimm álftir í þeim tilgangi að fæla frá álftahóp sem var þaulsetinn á beitarhólfi fyrir lambfé í nær tvo mánuði.

Hákon Bjarki Harðarson, bóndi á Svertingsstöðum 2

Hákon segir að hundruð geldfugla hafi sótt í þetta tiltekna beitarhólf, tekið undir sig svæðið og haldið lambfénu frá um helming beitarhólfsins. Hann þurfti að endingu að færa hluta af lambfénu í annað beitarhólf þar sem beitin var búin sökum mikils ágangs álfta. Beiðni Hákonar fór í umsagnarferli og niðurstaðan var neikvæð – ráðherra hafnaði henni.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands vegna málsins kemur fram að ekki séu forsendur fyrir tímabundinni afléttingu friðunar vegna þess að skýra stefnumótun vanti. Hins vegar er þar viðurkennt að álftastofninn hafi farið stækkandi og ágangur á akra og tún sé vaxandi vandamál. Hákon segist þekkja til þess að fleiri hafi látið á undanþáguákvæðið reyna en ekki haft erindi sem erfiði. Samkvæmt upplýsingum frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu hafa aðeins tvær undanþágubeiðnir borist því á sl. fimm árum. Ein er óafgreidd.

„Mér finnst ekkert að því að sækja þurfi um sérstakt veiðileyfi, en mér finnst engu að síður réttlætanlegt að bændur fengju þá einhvern tímann heimild til veiða. Í Danmörku geta bændur fengið veiðileyfi með þeim skilyrðum að þeir skili inn hluta af hræinu. Ég myndi vilja sjá einhvers konar fyrirkomulag þar sem bændur gætu fengið leyfi til að verja sín lönd,“ segir Hákon og bætir við að það þurfi aðeins heilbrigða skynsemi og sjón til að átta sig á stærðargráðu vandamálsins.

„Þótt við höfum farið allt að tíu sinnum á dag til að reka upp fuglana þá vorum við oft ekki komin nema heim að íbúðarhúsi aftur, í 200 metra fjarlægð, og þá voru fuglarnir komnir aftur á beitarhólfið,“ segir Hákon.

Tjónið bætt en styrkur minnkar á móti

Í svari ráðuneytisins til Hákonar er honum bent á að hægt sé að sækja um styrki vegna tjóns af völdum villtra dýra. Hákon segist einu sinni hafa sótt um þann styrk og fengið bætt tjón þegar álftir lögðust á byggakur.

„En þá féll jarðræktarstyrkurinn niður á móti og sama upphæð kom sem styrkur vegna tjóns. Eftir það hef ég því bara tekið jarðræktarstyrkinn og sleppt því að eyða tíma í að skrifa umsókn og tjónamat vegna ágangs fugla.“

Hann segir að ekki sé hægt að sækja um bætur ef ágangurinn er á tún nema það sé nýrækt á fyrsta ári. „Mér finnst það skjóta verulega skökku við að eingöngu sé bætt fyrir tjón á nýræktum á fyrsta ári. Í okkar tilfelli leggjast álftirnar á tún sem ætlað er fyrir lambfé á vorin. Þar verðum við ekki eingöngu af grasi sem ætlað var fénu heldur skilja álftirnar eftir sig mikið magn af skít sem skemmir svo fyrstu uppskeru á túninu. Skepnurnar vilja síður hey sé það mengað af skít.“

Geldfuglar hreinustu vandræði

Eiríkur Egilsson, bóndi á Selja­völlum í Nesjum í Hornafirði, er einnig að kljást við ágang bæði að vori og hausti. „Við erum þannig í sveit sett að gæsin kemur um miðjan apríl og því er þetta sérstaklega slæmt á vorin. Þær passa sig á því að velja bara það besta,“ segir hann og vísar þar í nýræktartún sem bæði heiðagæsir og grágæsir gæða sér á. Á seinni árum hafi helsingjum einnig fjölgað mikið.

Eiríkur Egilsson, bóndi á Selja­völlum

Álftin er þó erfiðari að eiga við, hún mæti eilítið síðar til Seljavalla en dvelji lengur við og virðist meðvituð um að vera vernduð fyrir veiðum. „Geldfuglarnir eru hreinustu vandræði. Þeir eru komnir jafnharðan og maður rekur þá upp. Það er allt of mikið af þeim og alveg nauðsynlegt að fara að fækka þeim eitthvað.“

Eiríkur segist bregða á það ráð að setja upp fuglahræður en þrátt fyrir það þurfi hann að fara oft á dag til að styggja fugla í burt. „Þetta snýst líka um að sá alveg að skurðbökkum til að koma í veg fyrir að fuglarnir geti lent einhvers staðar, því þá er voðinn vís. Einnig höfum við verið að girða kanta.“

Því fari mikil aukavinna í að verjast ágangi fugla. Eiríkur segist ekki hafa sótt um tjónabætur, enda liggi kostnaðurinn í efni og vinnu við að afstýra búsifjum frekar en að verða fyrir tjóni.

Hann telur æskilegt að bændur fái í hendur frekari úrræði til að verja tún sín og akra og nefnir þar möguleika á vorveiðum á gæs og heimild til að veiða álft.

„Slíkar veiðar mættu náttúrlega ekki vera stjórnlausar því það yrði auðvelt að skjóta álftina. En ef það væri skotið á álftina þá myndi hún styggjast og ekki gera jafn mikinn usla,“ segir Eiríkur.

Uppskerutapið mælt

Náttúrustofa Suðausturlands vann skýrslu árið 2018 um uppskerutap vegna ágangs gæsa á valin ræktarlönd í landshlutanum vorið 2018. Höfundar skýrslunnar voru Kristín Hermannsdóttir, Pálína Pálsdóttir og Snævarr Guðmundsson. Þar var gerð tilraun til að meta fjárhagslegt tjón bænda af völdum ágangs. Könnuð voru áhrif gæsabeitar að vori og fram á sumar á grasuppskeru. Bornar voru saman uppskerur, annars vegar á grasi sem óx á friðuðum grasreitum og hins vegar á reitum sem fuglar komust að. Einnig voru skoðuð tengsl á milli fuglafjölda á ákveðnum túnum og rýrnun uppskeru.

Niðurstöður sýndu að þurrefnis­uppskera var að meðaltali 24% minni þar sem fuglar komust um túnin. Uppreiknað töpuðust 3,1 heyrúlla af þurrefnisuppskeru á hektara að meðaltali á tilraunatúnunum. Grófir útreikningar, miðað við kostnaðarforsendur árið 2015, sýndu að mismunur á uppskeru kostaði að meðaltali 24.647 kr./ha.

Í umræðukafla skýrslunnar segir: „Það er mikilvægt að finna viðunandi lausnir á þeim vanda og tjóni sem bændur standa frammi fyrir á jörðum sínum en öruggar upplýsingar um stofnstærð og þróun íslenska grágæsastofnsins og grænlensk/íslenska heiðagæsastofnsins er ein af forsendum þess. Rannsóknir sýna að aukinn ágangur gæsa í ræktarlönd bænda er ekki einungis vegna fjölgunar í gæsastofnum. Varpsvæði þeirra eru að stækka og farvenjur þeirra að breytast vegna loftslagsbreytinga sem hefur þær afleiðingar að gæsir dvelja lengur á landbúnaðarsvæðum á hverju ári heldur en áður.“

Veiðar gætu haft þveröfug áhrif

Ágangur fugla á ræktarlöndum var efni veggspjalds sem Náttúrustofa Vesturlands hafði til sýnis á nýlegri líffræðiráðstefnu. Höfundar þess voru Hafrún Gunnarsdóttir, Róbert A. Stefánsson og Menja von Schmalensee. Yfirlitsgrein eftir þau um efnið mun birtast í næsta tímariti Fugla, félagariti Fuglaverndar.

„Við fórum yfir fjölda greina þar sem fjallað var um tjón fugla á ræktarlandi, hvaða afleiðingar það getur haft og til hvaða aðgerða hægt er að grípa. Á Íslandi eru það náttúrlega álftir og gæsir sem hafa gert bændum lífið leitt enda standa bændur að mestu einir gegn þessum vanda og hafa fá tól í höndunum til að bregðast við.

Hafrún Gunnarsdóttir, líffræðingur hjá Náttúrustofu Vesturlands.

Ég skil því að margir kalli eftir því að einfaldlega fækka fuglum innan þessara stofna en ég tel að málið sé hreinlega ekki svo einfalt og rannsóknir hafa bent til þess að slíkt gæti haft þveröfug áhrif og aukið orkuþörf fuglanna þ.e.a.s. að þeir færi sig meira á milli svæða og þurfi því að éta meira. Sömuleiðis eykst streita hjá þeim og minni tími gefst í fæðuinntöku og þá þurfa fuglarnir að verja lengri tíma á ræktarlandi,“ segir Hafrún Gunnarsdóttir, sem starfar sem líffræðingur hjá Náttúrustofu Vesturlands. „Þéttleikaháð áhrif geta valdið því að veiðar hafi lítil áhrif á stofninn í heild sinni og í sumum tilfellum jafnvel fjölgað fuglum. Það getur t.d. virkað þannig að við fækkun batni afkoma eftirlifandi fugla og þeir framleiði fleiri unga Annar möguleiki er að óskipulögð fækkun innan stofna fækki fuglum um of og minnki fjölbreytileika innan stofnanna, sem getur skaðað þá til framtíðar.

Það er því ljóst að ef fækka á gæsum og álftum hérlendis með veiðum þarf að móta vöktun í kringum verkefnið, sem grundvallast á því að viðhalda ákveðnum fjölda fugla þannig að lífvænleika stofnanna sé viðhaldið en skaðsemi af hálfu fuglanna verði ásættanleg. Slíka vöktun þarf að móta á vísindalegum grunni sem byggist á gögnum sem ná yfir grunnupplýsingar stofnana svo sem fjölda fugla, aldursdreifingu innan stofna, stofnsveiflur, dreifingu fugla um landið, farleiðir yfir landamæri og því þarf að auka samstarf við önnur lönd en ekki síst þurfum við að skilja sambandið á milli fjölda fugla og umfangs tjónsins sem þeir valda,“ segir Hafrún.

Því sé ljóst að aðgerðir sem miða að því að fækka fuglum með veiðum yrðu alltaf mjög kostnaðarsamar.

Tækniframfarir gætu hjálpað við fælingar

Hafrún bendir á að tjón af völdum fugla sé miklu frekar fólgið í hegðun þeirra heldur en fjölda. Þannig valdi grágæs töluvert meira tjóni en heiðagæs, þrátt fyrir að stofninn sé miklu minni. Ástæðan er að grágæsir kjósa að dvelja á láglendi en heiðagæsir halda sig á hálendinu á varptíma.
Í grein Hafrúnar, Róberts og Menju er lögð áhersla á að fara aðrar leiðir en að grípa til stórfelldra veiða til að fækka gæsum, annars vegar með því að nota einhvers konar fælingaraðferðir og hins vegar að beita atferlisvistfræðilegum nálgunum.

Fæling snýst um að valda fuglum óþægindum eða hræðslu svo þeir forðist ákveðin svæði. Hafrún nefnir nokkur dæmi: „Þær geta verið sjónrænar, svo sem fuglahræður, flugdrekar, borðar sem endurkasta ljósi eða annars konar eftirlíkingar af rándýrum. Hljóðrænar fælur hafa verið notaðar á flugvöllum en ég veit ekki til þess að slíkt sé mikið notað á ræktarlöndum. Þetta geta verið gasbyssur sem framleiða háværa hvelli, stundum eru neyðarköll fugla spiluð til að vekja óttaviðbrögð hjá fuglum. Svo eru sumir fuglar næmir fyrir hátíðnihljóðum, sem geta valdið forðun en í tilfelli álfta og gæsa er óvíst hvort slíkar fælur komi að gagni. Hundar, ekki síst smalahundar, hafa reynst vel til þess að fæla fugla af ræktarlandi en hins vegar er það ekki á allra færi að ala upp hund og ljóst er að töluverður tími fer í þjálfun þeirra, auk þess sem finna þarf leiðir til að hundarnir traðki sem minnst á uppskerunni, þar sem það á við.“

Þá telur Hafrún líklegt að drónar gætu spilað stærri þátt í framtíðinni við fælingu fugla. „Fyrirtækið The Drone Bird Company hefur þróað sérstaka dróna sem ætlaðir eru til þess að verjast tjóni vegna ágangs fugla. Drónarnir þeirra líkjast ránfugli á flugi sem hægt er að nota án mikillar fyrirhafnar með sjálfstýringu.“

Fæling snýst um að valda fuglum óþægindum eða hræðslu svo þeir forðist ákveðin svæði. Fyrirtækið The Drone Bird Company hefur þróað sérstaka dróna sem ætlaðir eru til þess að verjast tjóni vegna ágangs fugla. Drónarnir líkjast ránfugli á flugi sem hægt er að nota með sjálfstýringu.
Mynd / Drone Bird Company

Fælingaraðferðir hafa verið gagnrýndar fyrir að virka aðeins í skamman tíma, enda hafa álftir og gæsir töluverða vitsmunalega getu til að þekkja og læra á umhverfið sitt. Þess vegna segir Hafrún mikilvægt að blanda saman ólíkum fælum til að viðhalda forðun hjá fuglum. Einnig geti verið gott að færa kyrrstæðar fælur reglulega úr stað til að koma fuglunum á óvart og tryggja að fælingarátakið sé sem öflugast þegar gróður er á viðkvæmu vaxtarstigi.

Atferlisvistfræðilegar nálganir

Skilningur á atferli álfta og gæsa er grundvallarforsenda þess að hægt verði að stemma stigu við tjóni af þeirra völdum. Tjón virðist oft vera fremur staðbundið, þ.e.a.s. sumir bændur verða endurtekið fyrir miklu tjóni á meðan aðrir verða ekki varir við fuglana.

„Ég tel að þetta geti verið vegna þess að gæsir og álftir velji alltaf hagstæðasta dvalarstaðinn hverju sinni. Slíkir staðir eru oft í nálægð við vötn eða votlendi, henta vel til flugtaks og lendingar, hafa gott útsýni og hætta á afráni er lítil. Því má gera ráð fyrir að þótt fuglum verði fækkað með veiðum, sé ekki víst að það muni hafa áhrif á tjón á svæðum sem myndu teljast til hagstæðra fuglasvæða, því álftir og gæsir munu jú halda áfram að sækjast í slík svæði,“ segir Hafrún og bendir á að kannski sé mögulegt að hagnýta þá þekkingu og breyta svæðunum þannig að þau verði minna aðlaðandi fyrir fugla. Jafnvel með því að planta skjólbeltum sem bæði skerða útsýni og draga úr hentugleika til lendingar og flugtaks.
Hún segir að víða erlendis hafi verið brugðið á það ráð að útbúa sérstaka fuglabeitarakra þar sem fuglar fá að dvelja óáreittir og uppfylla orkuþörf sína.

Fyrirtækið Bird - X hefur þróað alls kyns fælingarlausnir, þar á meðal leysigeisla og LED ljós eins og hér sést.Mynd / Bird-X

„Á Norðurlöndunum hafa bændur fengið sérstaklega greitt fyrir að útbúa og viðhalda slíkum ökrum. Það getur verið hagkvæmt að nota fælingu og fuglabeitarakra sem sameiginlegt úrræði þannig að hægt sé að fæla fugla frá einum stað og laða þá að öðrum. Rannsóknir benda til þess að ef rétt er að þessu staðið megi draga umtalsvert úr tjóni. Hins vegar gefur augaleið að notkun fuglabeitarakra kostar mun meira land heldur en ella og því þarf að vega og meta hverju sinni hvort réttlætanlegt sé að eyða náttúrulegum heimkynnum annarra dýra til að laða að álftir og gæsir. Mögulega er einnig hægt að nýta ræktarland sem nú þegar er búið að uppskera, enda sækja gæsir og álftir gjarnan í slíkt land þar sem mikið af korni fellur til við uppskeru og verður því auðveldlega aðgengilegt. Seinkun á plægingu akra getur því þjónað svipuðum tilgangi og fuglabeitarakrar ef gæsir og álftir fá að dvelja þar óáreittar og fita sig upp fyrir far eða vetrardvöl á Íslandi,“ segir Hafrún.

Aukin þekking nauðsynleg fyrir árangursríkar ákvarðanir

Ágangur og tjón af völdum álfta og gæsa er flókið viðfangsefni sem krefst rannsókna, ítarlegs samráðs, stefnumótunar og áætlanagerðar. Ef ráðast á í það verkefni að lágmarka tjón af völdum ágangs þarf bæði að greina umfang vandans og auka skilning á honum. Í niðurstöðu greinar Náttúrustofu Vesturlands er lögð áhersla á að rannsóknaraðilar og bændur efli samstarf sín á milli.

„Þetta er mikilvægt vegna þess að veiðar á innlendum dýrum til að verjast tjóni ættu alltaf að vera þrautaráð og ættu ekki einungis að ráðast af efnahagslegum sjónarmiðum. Allar aðgerðir sem beinast að villtum dýrum þurfa einnig að taka mið af líffræðilegri fjölbreytni, vistfræðilegum áhrifum og dýravelferðarsjónarmiðum. Einnig er Ísland aðili að alþjóðasáttmálum um náttúruvernd, þar á meðal Bernarsamningnum um verndun villtra dýra og plantna og því ber okkur skylda til að vernda þær tegundir sem falla þar undir. Nauðsynlegt er að fá ólíka aðila að borðinu, svo sem bændur, rannsóknaraðila, náttúruverndarsinna og stjórnvöld, til að móta saman stefnu sem byggð er á þekkingu. Því burtséð frá því hvar hver og einn stendur í garð náttúruverndar, hlýtur sameiginlegt markmið okkar að miðast við að auka þekkingu svo hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir sem skila árangri,“ segir Hafrún Gunnarsdóttir.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...