Bragðgæði á borð Bandaríkjamanna
Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Bandaríska verslunarkeðjan Whole Foods Market hyggst hygla íslenskum matvörum á haustdögum. Markaðsherferðin hefur verið lengi á teikniborði verslunarkeðjunnar en hvalveiðar hafa aftrað framkvæmd hennar.
Á dögunum voru staddir hér á landi starfsmenn bandarísku verslunarkeðjunnar Whole Foods Markets, Joe Wood kjötinnkaupastjóri og John Blair Gordon heildsali. Verslunarkeðjan Whole Foods sérhæfir sig í vistvænum og lífrænum matvörum. Nær 450 verslanir eru reknar í nafni Whole Foods og er keðjan talin sú stærsta sinnar tegundar þar í landi. Verslanirnar Whole Foods bjóða til sölu nokkrar vörur frá Íslandi, þ.á m. bleikju, salt og sælgæti en sérvara þeirra er íslenska lambið.
„Við höfum ákveðna sérstöðu í íslensku vöruúrvali og við teljum að það sé meðal þess sem skilur okkur frá samkeppnisaðilum okkar. Sérstök markaðssetning fyrir íslenskar vörur hefur verið til umræðu hjá okkur í mörg ár. Ég vil að þetta verði árið sem við framkvæmum hugmyndina. Markmiðið er að gera íslenskum vörum sérstök skil í mánaðarlangri kynningarherferð,“ segir Joe.
Íslenskt lambakjöt er árstíðarbundin vara í Whole Foods Market, og hefur verið seld í verslunum þrjá mánuði á ári. Ef af verður, mun markaðsherferðin líklegast eiga sér stað í októbermánuði. „Þá myndum við afmarka íslenskar vörur í öllum verslunum okkar og standa fyrir ýmsum viðburðum. Við sjáum til dæmis fyrir okkur að íslenskir matreiðslumenn kæmu og matreiddu lamb fyrir gesti,“ segir Joe.
Hvalveiðar torveldu markaðsstarf
Þrátt fyrir að hafa selt íslenskar vörur í áraraðir hefur verslunarkeðjan þó ekki þorað í umfangsmikla kynningarherferð. Ástæðan eru hvalveiðar, að sögn Joes. „Við höfum verið uggandi yfir því að hvalveiðar Íslendinga hefðu slæm áhrif á ímynd okkar fyrirtækis. Við gerum miklar kröfur og lofum ákveðnum siðferðislegum og lífrænum gæðum. Við höfum talað fyrir sjálfbærni og hreinleika íslenskra vara. Við sjáum tækifæri í að kynna eðli okkar starfsemi í gegnum íslensku vörurnar. Á meðan samkeppnisaðilarnir eru varkárir í fullyrðingum erum við það ekki. Þar af leiðandi erum við auðveld skotmörk ef eitthvað kemur upp á. Hvalveiðar hafa því verið vandasamt málefni og hefur verið talið líklegt til að geta haft neikvæð áhrif í för með sér.“ Nú þegar ljóst sé að engar hvalveiðar verði stundaðar í sumar sé líklegra að ráðist verði í kynningarherferðina.
Stenst hæstu gæðakröfur
Íslenska lambakjötið selst upp ár hvert hjá Whole Foods, þeir félagar hyggja að verslanirnar hafi selt um 190 tonn á síðasta ári og ætla að veðja á aukna sölu í ár með því að auka innflutning í um 230 tonn. Kjötið er selt ferskt úr kjötborði. „Við flytjum inn alla hluta lambsins og seljum þá úr kjötborði og er þá skorið til á staðnum eftir óskum neytenda,“ segir Joe.
Joe og Blair segja bragðgæði vera ástæðu vinsælda lambsins í Bandaríkjunum. Bragðið sé einstaklega milt og ljúft. Ástæða þess liggi í aldri við slátrun og heilbrigðum lífsferli. Þau lifi á hreinu fæði, góðu vatni, frelsi og fjallalofti. „Þvílíkt líf sem þau lifa. Aðeins einn slæmur dagur,“ segir Blair.
Gríðarlegar kröfur eru gerðar til vörutegunda hjá Whole Foods Market. Vörur þurfa að standast alþjóðleg gæðaviðmið en einnig hefur keðjan þróað sína eigin staðla, t.d. fyrir kjötafurðir sem kallast GAP sem stendur fyrir Global Animal Partnership. Kerfið metur velferð dýra á meðan þau lifa en þar er lagt upp úr bæði líkamlegu og andlegu heilbrigði dýra.
Enn fremur starfar keðjan náið með Sláturhúsi KVH á Hvammstanga, en þaðan kemur allt það kjöt sem flutt er út til Whole Foods-verslananna. Joe nefnir að Sláturhúsið á Hvammstanga hafi síðast skorað 95 stig í slíkri mælingu en 88 stig þarf til að uppfylla hæstu gæðakröfur.