Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fleira er matur en feitt ket
Fréttaskýring 10. júní 2020

Fleira er matur en feitt ket

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Hafið við Ísland er gjöfult og þar er mörg matarholan. Nokkur óvenjuleg sjávardýr og fiskar, sem frjáls veiði er á, skiluðu samanlagt um milljarði króna í aflaverðmæti á síðasta ári.

Umræða um sjávarútveg á Íslandi snýst að vonum einkum um þær fisktegundir sem veiðast í miklu magni og skila mestum verðmætum, svo sem þorsk eða makríl. En fleira er matur en feitt ket. Hér við land veiðast ýmsar tegundir sjávardýra, flestar í smáum stíl en skapa samt vinnu og verðmæti sem vert er að huga að.

Hér verður fjallað um nokkrar þessara tegunda og sjónum beint að sjávardýrum sem ekki tilheyra hinu eiginlega kvótakerfi. Um veiðar á nokkrum þeirra gilda mismunandi sérreglur og þær eru háðar leyfi frá Fiskistofu ár hvert. Veiðar á öðrum eru frjálsar að því gefnu að skip hafi veiðileyfi á annað borð.

Meðfylgjandi er listi yfir tíu tegundir í þessum flokki sem skiluðu mestu aflaverðmæti á síðasta ári. Aflaverðmæti þeirra losaði samanlagt um einn milljarð króna. Einnig er litið á árin 2017 og 2018 til samanburðar. Upplýsingarnar eru fengnar hjá Fiskistofu.

Ekki verður fjallað um grásleppu hér þótt hún sé utan kvótakerfisins, enn sem komið er að minnsta kosti, þar sem hún nýtur jafnan mikillar umfjöllunar í fjölmiðlum.

Ekki eru heldur teknar aflatölur fyrir lúðu. Veiðar á henni eru í raun bannaðar. Þó er heimilt að koma með í land lúðu sem fæst sem meðafli ef ekki er hægt að sleppa henni lifandi í sjóinn.

Sæbjúgu gáfu mest verðmæti

Sæbjúgu eru afar sérstök dýr og eru ættbálkur innan skrápdýra. Þau eru sívöl og bjúglaga, lengd fullorðinna dýra er allt að 30 sentímetrar.

Sæbjúgu gáfu mest verðmæti á síðasta ári af þeim tegundum sem hér eru til umfjöllunar. Um 5.600 tonn komu á land að verðmæti um 406 milljónir króna.

Tilraunaveiðar á sæbjúgum hófust hér við land árið 2003. Aflinn var lítill í fyrstu en hann náði hámarki á síðasta ári.

Markaðir fyrir sæbjúgu eru víða í Asíu. Þau er meðal annars reykt eða þurrkuð. Holdið er einnig notað sem bragðbætir í súpur.

Sæbjúgu eru veidd í plóg. Í fyrstu voru þau veidd í Breiðafirði og Faxaflóa. Síðan fundust fengsæl mið til viðbótar fyrir austan land og víðar. Á síðasta ári veiddu átta skip sæbjúgu og mestur afli fékkst á suðursvæði Austurlands.

Hörpudiskur.

 

Hlýri ekki lengur frjáls

Veiðar á hlýra koma næstar í röðinni. Reyndar á hlýrinn ekki lengur heima í þessari upptalningu því hann var settur í kvóta í fyrsta sinn fiskveiðiárið 2018/2019. Hann fær þó að fljóta með þar sem veiðar voru frjálsar árið 2017 og átta mánuði af árinu 2018.

Á síðasta ári voru veidd um 1.400 tonn af hlýra að aflaverðmæti tæpar 290 milljónir króna. Þetta er svipað magn og verðmæti og árið 2017 þegar veiðar voru alfrjálsar.

Hlýri veiðist sem meðafli í troll eða á línu. Einnig hefur hann verið veiddur í beinni sókn í takmörkuðum mæli. Hlýri er náfrændi steinbítsins og ekki er alltaf gerður greinarmunur á þessum tegundum í vinnslu.

Lengi vel var hlýraaflinn um og innan við þúsund tonn á ári en hann jókst jafnt og þétt í lok síðustu aldar og fyrstu ár þessarar aldar. Hæst fór aflinn í 3.600 tonn árið 2006.

Lýsa vinsæl hjá Vestmannaeyjabátum

Lýsa er smár eða miðlungsstór fiskur af þorskfiskaætt, algeng stærð um 40 sentímetrar. Hún er einn fárra hvítfiska sem eitthvað kveður að og sem veiðar eru frjálsar á.

Á síðasta ári veiddust um 830 tonn af lýsu að verðmæti tæpar 90 milljónir króna. Aflinn hefur yfirleitt verið um og yfir þúsund tonn á ári en fór mest í tæp 3 þúsund tonn árið 2011.

Lýsa fæst á svipuðum slóðum og ýsa og kemur mest sem meðalfli í botnvörpu. Sum skip sækja beint í lýsu, einkum skip frá Vestmannaeyjum. Lýsa hefur verið flutt út að stórum hluta óunnin í gámum flest árin, aðallega til Bretlands.

Öfugsnúinn flatfiskur

Öfugkjafta er utankvótafiskur og veiðist suður af landinu sem meðafli í humartroll, botnvörpu og dragnót.
Á síðasta ári veiddust 333 tonn af öfugkjöftu að aflaverðmæti tæpar 80 milljónir króna. Mestur afli Íslendinga á öfugkjöftu var 419 tonn árið 1996.

Öfugkjafta, öðru nafni stórkjafta, er flatfiskur af hverfuætt. Hún heitir svo af því að augu og kjaftur snúa öfugt (þ.e. eru á vinstri hlið) miðað við aðra þekktari flatfiska svo sem kola og lúðu sem skarta báðum augum á hægri hlið eins og áður hefur verið fjallað um í Bændablaðinu.

Hörpudiskur, hruninn stofn

Á síðasta ári veiddust 482 tonn af hörpudiski að verðmæti tæpar 49 milljónir króna. Veiðin var töluvert minni en tvö árin á undan. Hörpudiskur er veiddur í plóg. Þegar best lét veiddust um 17 þúsund tonn af hörpudiski árið 1985. Aðalveiðisvæðið er í Breiðafirði. Þar fengust mest 12.700 tonn árið 1986.

Hörpudiskur má muna tímana tvenna því hann var einn af helstu nytjastofnum okkar og snar þáttur í kvótkerfinu. Það er liðin tíð. Stofn hörpudisks í Breiðafirði hrundi á árunum 2000 til 2004. Hnignun stofnsins hefur einkum verið rakin til frumdýrasýkingar. Veiðar voru bannaðar í nokkur ár en tilraunaveiðar hófust haustið 2014.

Einn til tveir bátar hafa stundað tilraunaveiðar síðustu ár en alls óvíst er hvort og hvenær atvinnuveiðar geti hafist á ný.

Ígulker, verðmætasta sjávarafurðin

Ígulker er ein gerð skrápdýra líkt og sæbjúgun. Þau eru hnöttótt með brodda. Fullorðin dýr geta mest orðið 8 til 9 sentímetrar í þvermál.

Á síðasta ári veiddust 345 tonn af ígulkerum að verðmæti rúmar 47 milljónir króna. Heimilt er að gefa út þrjú veiðileyfi fyrir ígulker á ári.

Ígulkeraveiðar hófust hér við land árið 1993. Í byrjun tóku kafarar stóran hluta aflans en fljótlega hófust plógveiðar. Veiðarnar náðu hámarki 1994 þegar landað var um 1.500 tonnum.

Á árunum 1997 til 2003 lágu veiðarnar á ígulkerum að mestu niðri vegna erfiðleika á mörkuðum. Þær hófust að nýju í Breiðafirði árið 2004. Frá 2007 hefur árlegur afli verið 130 til 340 tonn.

Aðeins hrogn ígulkera eru nýtt. Hrognin eru verðmætasta sjávarafurð sem seld er frá Íslandi miðað við verð á kíló. Dýrasta varan fer á sushi-markað og kostar nálægt 20 þúsund krónum kílóið, að því er fram kemur í nýlegu og áhugaverðu viðtali í páskablaði Fiskifrétta við forsvarsmenn Royal Iceland sem veiðir og vinnur ígulker.

Konungur beitunnar

Beitukóngur er skelfiskur með kuðungslaga skel. Fullvaxinn beitukóngur er um 7 til 10 sentímetrar. Við Ísland hefur beitukóngur verið veiddur til matar og til beitu og þaðan er nafnið komið.

Á síðasta ári veiddust um 350 tonn af beitukóngi að aflaverðmæti rúmar 45 milljónir króna. Beitukóngur er veiddur í gildrur. Aðeins einn bátur stundaði veiðarnar á síðasta ári að einhverju marki.

Tilraunaveiðar á beitukóngi hófust í Breiðafirði árið 1996 og var landað 500 tonnum það ár. Síðan hefur aflinn verið sveiflukenndur vegna markaðsaðstæðna. Mest fengust tæp 1.300 tonn árið 1997. Beitukóngur er soðinn í skelinni og seldur að stærstum hluta til Kína en markaðir eru víðar.

Beitukóngur leggur sér ýmsar tegundir til munns, meðal annars hörpudisk. Þá sýnir hann einstök klókindi. Hann klifrar upp á aðra hlið skeljarinnar, bíður þar til hún opnast og stingur síðan kuðungnum inn í opið þannig að skelin getur ekki lokað sér. Síðan teygir beitukóngur rana sinn inn í skelina og étur skelfiskinn.

Tindaskata bjargar Þorláksmessu

Tindaskata er smágerð skötutegund, oftast um 40 til 70 sentímetrar að lengd. Annað nafn á henni og jafnvel algengara er tindabikkja.

Um 885 tonn af tindaskötu bárust á land á síðasta ári að aflaverðmæti um 18,5 milljónir króna. Hún fæst mikið sem meðafli við línuveiðar og var lengi vel ekki kærkominn fengur. Henni var oft hent fyrir borð en síðan var farið að vinna hana.

Nýting innanlands hefur svo aukist seinni árin vegna skorts á hefðbundinni skötu. Kæst tindaskata er nú algeng á borðum landsmanna á Þorláksmessu. Hún hefur einnig verið fryst til úflutnings, t.d. fyrir markað í Frakkalandi.

Stinglax, meðafli við togveiðar

Stinglax er þunnur og langvaxinn fiskur sem verður rúmlega 120 sentímetrar að lengd. Hann finnst víða í Atlantshafi og er meðal annars veiddur á línu við eyjuna Madeira og þykir ágætur matfiskur.

Hér við land finnst hann aðallega djúpt suður af landinu og veiðist sem meðafli við togveiðar. Aflinn hér jókst nokkuð fyrir áratug eða svo þegar fáein frystiskip fóru að leggja sig lítillega eftir stinglaxi þegar þess gafst kostur. Aflinn fór mest í 365 tonn árið 2012. Síðustu ár hefur hann minnkað og aðeins veiddust 65 tonn árið 2019 að verðmæti tæpar 11 milljónir króna.

Veiðar á skötu í skötulíki

Við Ísland þekkjast í kringum 15 tegundir skötu. Ein þeirra og sú mikilvægasta gengur einfaldlega undir nafninu skata. Hún er oftast 100 til 150 sentímetrar að lengd.

Skata var og er eftirsótt og náði afli hennar á Íslandsmiðum mest rúmum 2.500 tonnum árið 1951 þegar erlend skip voru hér að veiðum. Mestan afla fengu íslensk skip árið 1958, eða rúm 1.270 tonn. Erlendis svo sem í Frakklandi er skata etin fersk en Íslendingar vilja hana aðeins kæsta eða salta sem kunnugt er.
Vegna ofveiði víða hefur skötustofninn dregist verulega saman og er talinn í útrýmingarhættu. Á síðasta ári veiddust aðeins 175 tonn af skötu við Ísland að verðmæti rúmar 9 milljónir króna. Eins og getið er hér að framan hleypur tindaskatan í skarðið þegar skötuna vantar.

Hin eina og sanna skata er samofin ísleskri þjóðmenningu og fáir fiskar koma fyrir í jafnmörgum orðtökum og samlíkingum og skatan. Flest eru þau á einhvern hátt niðrandi. Sagt er að eitthvað sé í skötulíki þegar illa er að verki staðið. Pör sem ekki voru gift voru í eina tíð nefnd skötuhjú og þótti ekki fínt. Þegar eitthvað fer úrskeiðis er sagt að menn skripli á skötunni.

Og er þá ekki hægt að segja í ljósi aðstæðna að veiðar á skötu séu nú í skötulíki!

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...