Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Fréttaskýring 11. desember 2017
Heimild til að nota Glyfosat framlengd í ESB í fimm ár eða til ársloka 2022
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Gert hefur verið ráð fyrir að glyfosat, sem er m.a. virka efnið í gróðureyðingarefninu Roundup, verði bannað í landbúnaði í Evrópu í kjölfar framlengingar til 2022 eins og greint var frá í síðasta Bændablaði. Áfýjunarnefnd ESB samþykkti framlengingu á heimild til notkunar síðastliðinn mánudag með 18 atkvæðum gegn 9 og einn fulltrúi sat hjá.
Með þessu lýkur, í bili að minnsta kosti, átökum sem staðið hafa um framlenginguna undanfarna mánuði.
Enn eina ferðina eru Íslendingar minntir á hversu við höfum það gott í hreinu landi þar sem bændur nota langflestir ekkert af glyfosat-tengdum eiturefnum við sína matvælaframleiðslu, né sýklalyf eða hormóna sem vaxtarhvata. Þessu er ekki alltaf að heilsa annars staðar í Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada. Þar eru mjög hörð skoðanaskipti um notkun á gróðureyðingarefnum og skordýraeitri, eða því sem menn kalla „varnarefni“ í landbúnaði.
Með slíkri notkun reyna bændur víða um heim að tryggja hámarksframleiðslu á hvern hektara fyrir markað sem heimtar stöðugt ódýrari matvöru. Það er m.a. hvatinn á bak við löggjöf og reglugerðir sem hafa leitt til þess að EFTA-dómstóllinn hefur nú bannað Íslendingum að gera kröfur til að koma í veg fyrir innflutning sjúkdóma í hráu kjöti og eggjum.
Fylgifiskur notkunar eiturefna í landbúnaði eru meint eitrunaráhrif á neytendur, spilling grunnvatns og ofnýting jarðvegs. Afleiðingin getur síðan verið niðurbrot jarðvegs sem verður þá ónothæfur til ræktunar. Það mun aftur leiða til stórhækkaðs matvælaverðs og mögulega matvælaskorts. Enginn þeirra sem hafa að undanförnu sagst bera hag neytenda mjög fyrir brjósti í þessum málum, hefur samt borið á borð hvar neytendur eigi að leita ásjár og krefjast ábyrgðar ef illa fer.
Bráðabirgðaleyfi fyrir glyfosat átti að renna út 15. desember
Bráðabirgðaleyfi fyrir áframhaldandi notkun glyfosat í ESB-löndunum átti að renna út 15. desember og í síðasta lagi 31. desember samkvæmt vefsíðu framkvæmdastjórnar ESB (European Commission). Ítrekað hefur banni verið frestað innan Evrópusambandsins enda miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi. Þar hefur legið tillaga um að framlengja leyfi til notkunar á glyfosati um fimm ár, eða til 2022, eins og frétt Guardian byggir á. Mögulegt virðist hins vegar vera að heimild til notkunar á glyfosati renni endanlega út um næstu áramót. Það er eitthvað sem fjársterk hagsmunaöfl munu berjast gegn, hvað sem það kostar.
Ekki náðist samstaða á fundi 9. nóvember
Á fundi í Brussel 9. nóvember var meiningin að afgreiða málið, en ekki náðist samstaða um slíkt. Þar vildu 14 ESB-ríki með 36,95% íbúa ESB framlengja leyfi til notkunar, en 9 ríki með 32,26% íbúa ESB voru á móti. Þá sátu 5 ríki, með 30,79% íbúa hjá við atkvæðagreiðslu, þar á meðal Þýskaland. Lagt var til að málið fari fyrir áfrýjunarnefnd sem tók málið fyrir á mánudag, 27. nóvember.
Samþykkt að framlengja leyfi til notkunar til 2022
Málið var komið í alvarlega klemmu en úr því leystist á mánudag. Í frétt BBC segir m.a. að atkvæði hafi fallið þannig að 18 fulltrúar greiddu atkvæði með heimild til áframhaldandi notkunar til ársins 2022. Níu fulltrúar voru á móti og einn sat hjá.
Fyrir atkvæðagreiðsluna í áfrýjunarnefndinni á mánudag var staðan sú að fulltrúar um þriðjungs íbúa ESB í framkvæmdastjórninni voru staðfastir í að heimila áfram notkun glyfosat, fulltrúar annars þriðjungs íbúa voru harðir á móti og síðan þorðu fulltrúar þess þriðjungs sem eftir var ekki að taka afgerandi afstöðu til málsins.
Eftir mikil átök innan ESB var loks samþykkt í júlí 2016 að heimila um takmarkaðan tíma áframhaldandi notkun á efnum til notkunar í landbúnaði sem innihéldu glyfosat. Þá horfðu menn fram á að heimildir rynnu út 31. júlí 2016. Þessi heimild var síðan framlengd síðastliðið sumar um 6 mánuði eða í allra síðasta lagi til 31. desember 2017. Nú er enn búið að framlengja leyfið og það til fimm ára.
Málamiðlun í júlí
Í sumar, eða þann 20. júlí, lagði framkvæmdanefndin fram málamiðlunartillögu fyrir væntanlega atkvæðagreiðslu um glyfosatmálið í haust. Þar var m.a. lagt til að verndun grunnvatns yrði tekin inn í umræðuna sem og verndun svæðisbundinna dýra og plantna.
Þrjú skilyrði voru sett sem hrein málamiðlun fyrir samþykkt framlengingar á notkunarheimildinni til 6 mánaða síðastliðið sumar.
-
Bann var sett á notkun hiðarafurðaefna sem innihalda glyfosat eða svokallaðra POE-tallowamine efna sem m.a. hafa verið notuð í sápur og ýmsar iðnaðarvörur.
-
Dregið skyldi úr notkun gróðureyðingarefna sem innihalda glyfosat á opnum opinberum svæðum, eins og í almenningsgörðum og á leiksvæðum.
-
Skoðuð yrði forvarnarnotkun á efnum sem innihalda glyfosat á ræktarlandi.
Með þessum skilyrðum átti heimildin til notkunar á glyfosati að renna út 15. desember 2017.
Pöntuð niðurstaða EFSA?
Framkvæmdastjórn ESB fór þess á leit við Evrópsku matvælaöryggisstofnunina (EFSA) fyrr á þessu ári að skoða áhrif efna eins og glyfosat á innkirtlastarfsemi manna með tilliti til reglugerðar um slík efni. EFSA skilaði skýrslu um málið í ágúst þar sem niðurstöður eru um margt á skjön við fullyrðingar vísindamanna og Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar WHO, sem áður höfðu sagt að notkun glyfosat í landbúnaði til framleiðslu á matvörum væri mönnum skaðleg og gæti verið krabbameinsvaldandi.
Evrópska matvælaöryggisstofnunin fjallar mjög þröngt í niðurstöðu sinni um áhrifin á innkirtlastarfsemi út frá grein 31 í reglugerð númer 178/2002 og segir að nægileg gögn séu ekki fyrir hendi. Þrátt fyrir að EFSA segi að gögn skorti, þá gefur EFSA það samt út í 20 síðna skýrslu sinni að engar sannanir né eiturefnafræðilegar rannsóknir séu fyrirliggjandi um að glyfosat valdi röskun á innkirtlastarfsemi. Þetta hafa andstæðingar áframhaldandi notkunar á glyfosat gripið á lofti og sagt vera skýrt dæmi um fyrirfram pantaða niðurstöðu frá EFSA.
Áhættunefnd RAC segir glyfosat „ekki eitrað efni“
– en sé samt eitrað
Efnafræðistofnun ESB (European Chemicals Agency – ECHA) sendi frá sér álit um málið 15. júní síðastliðinn sem er þó opið í báða enda. Þar kemur fram að RAC, áhættunefnd ECHA, hafi samþykkt að halda sig við sameiginlega skilgreiningu á hvað væru hættuleg efni sem gætu m.a. valdið augnskaða og verið hættuleg lífi í vötnum og haft langvarandi eituráhrif. Þar segir að RAC hafi komist að þeirri niðurstöðu að engar fyrirliggjandi vísindalegar sannanir væru fyrir því að skilgreina glyfosat sem krabbameinsvaldandi, stökkbreytandi eða yfirleitt sem eitrað efni. Samt vísar nefndin til þess tveim málsgreinum síðar að fyrirliggjandi í augnablikinu séu vísindalegar sannanir fyrir því að glyfosat valdi alvarlegum augnskaða (Causes serious eye damage) og sé eitrað fyrir vatnalífverur og valdi langvarandi eituráhrifum (Toxic to aquatic life with long lasting effects).
Síðan segir í áliti ECHA að RAC hafi komist að þeirri niðurstöðu að fyrirliggjandi vísindalegar sannanir standist „ekki kröfur samkvæmt CLP reglum“ til að hægt sé að skilgreina glyfosat sérstaklega sem hættulegt efni fyrir líffæri, né að það sé krabbameinsvaldandi eða geti valdið stökkbreytingum á genum og sé ekki heldur hættulegt æxlunarfærum.
Þetta er athyglisvert í ljósi þess að Alþjóðaheilbrigðismálastofnnin, WHO, gaf út þá yfirlýsingu fyrir tveimur árum að glyfosat væri sennilega krabbameinsvaldandi.
Mun breyta afstöðu í takt við pólitískt veðurfar
Í lok þessa álits RAC er síðan sagt að viðtekin skoðun sem notuð er til að samræma skilgreiningu á glyfosati verði svo endurskoðuð í samræmi við niðurstöðu aðildarríkja ESB um hvort heimiluð verði áframhaldandi notkun á glyfosati eða ekki síðar á þessu ári. Með öðrum orðum, áhættunefnd RAC mun breyta afstöðu sinni til þess hvort glyfosat sé hættulegt eða ekki í takt við pólitískt veðurfar innan Evrópusambandsins. Miðað við þetta er ekki skrítið að andstæðingar notkunar á glyfosati tali um pantaðar niðurstöður frá stofnunum ESB.
Beiðni um stöðvun studd undirskriftum milljóna
Framkvæmdastjórn ESB fékk í hendur þann 6. október sl. beiðni svokallaðs frumkvæðishóps evrópskra borgara um að stöðva notkun á glyfosati. Var það stutt undirskriftum einnar milljónar íbúa í sjö ESB-löndum. Þá hafði nefndinni líka borist staðfestar undirskriftir ríflega milljón íbúa í 22 aðildarlöndum ESB um að banna glyfosat. Gefa átti andstæðingum glyfosat úr röðum frumkvæðishópsins tækifæri til að ávarpa Evrópuþingið 20. nóvember og kynna sínar röksemdir. Í framhaldinu var meiningin að framkvæmdastjórn ESB tæki endanlega ákvörðun í málinu. Þó flestir líti svo á að bann við notkun glyfosat verði framlengt til 2022, þá er endanlega ákvörðun um slíkt greinilega ekki í hendi. Því gæti mögulega farið svo að formlegt bráðabirgðaleyfi til notkunar renni út nú í desember.
Glyfosat er virka efnið í góðureyðingarefnum
Glyfosat er virka eiturefnið í því sem gjarnan eru kölluð „gróðurverndarefni“ af framleiðendum og sumum vísindamönnum, en eru ekkert annað en gróðureyðingarefni. Enda stendur gjarnan á umbúðum slíkra efan orðin „Weed Killer“, skýrara getur það varla verið. Þau eru hönnuð til að drepa svokallað illgresi eða óæskilegan gróður til að ná fram hámarksuppskeru á nytjajurtum. Þetta er gert með því að glyfosat lokar fyrir streymi nauðsynlegra ensíma um plöntuna sem því er úðað á. Plantan getur þá ekki lengur framleitt prótein sem nauðsynleg eru til vaxtar.
Efnafyrirtækið Monsanto þróaði hugmyndina um notkun gróðureyðingarefna í landbúnaði upp úr „góðum“ árangri af notkun „Agent Orange“ í stríðsrekstri Bandaríkjamanna í Víetnam á sjöunda áratug síðustu aldar. Efnafræðingurinn John E. Franz vann að málinu og varð til um 1970 vel þekkt gróðureyðingarefni sem inniheldur glyfosat. Var það síðan markaðssett undir nafninu Roundup. Það hefur stundum einnig verið kallað „Hið nýja Agent Orange“.
Monsanto hélt einkaleyfi á þessari glyfosat-formúlu Roundup til ársins 2000, en þá fóru fleiri efnafyrirtæki að framleiða slík gróðureyðingarefni eins og Bayer CropScience, BASF, Dow AgroSciences, DuPont, Syngenta ásamt kínverskum framleiðendum. Í dag eru til yfir 400 afbrigði af Roundup undir ýmsum nöfnum sem öll innihalda glyfosat frá yfir 30 fyrirtækjum.
Til að gera notkun Roundup enn skilvirkari fóru sérfræðingar Monsanto að beita erfðatækninni og hafa þróað fjölmargar nytjajurtir sem drepast ekki þó mikið sé notað af eitrinu til að drepa illgresi á sama akri. Á þessu hefur Monsanto hagnast gríðarlega, bæði af enn meiri sölu á gróðureyðingarefnum samhliða sölu á einkaleyfisvörðu og erfðabreyttu sáðkorni. Gróði annarra efnafyrirtækja sem hafa róið á sömu mið hefur einnig verið ævintýralegur.
Endurbætt Agent Orange
Efnafyrirtækin sjá svo fyrir sér enn meiri gróða af enn sterkara efnasambandi sem kallað er Enlist Duo og inniheldur glyfosat og 2,4-D efnasambandið (2,4-dichlorophenoxy acetic acid) sem var m.a. notað í Agent Orange eitrinu sem úðað var yfir skóga í Víetnam í gríðarlegu magni. Þá er einnig annað efnasamband komið til sögunnar frá Monsanto sem nefnist Dicamba.
Í Agent Orange var líka ýmsu öðru bætt í til að gera blönduna enn skilvirkari og eitraðri, eins og 2,4,5-T sem innihélt díoxín.
Frá 1961 til 1971 er talið að Bandaríkjaher hafi úðað yfir skóga og akra í Víetnam, Kambódíu og Laos um 20 milljónum gallona, eða 91 milljón lítra (91 þúsund tonnum) af Agent Orange. Þar af var um 13 milljónum gallona (um 59 þúsund tonnum) úðað yfir Víetnam einu og sér. Uppskeru á um 2 milljónum hektara í Víetnam var eytt með eitrinu.
Þetta skaðaði ekki bara akra og skóga, heldur olli líka miklum skaða á fólki. Talað er um að um 2 milljónir manna í Víetnam hafi fengið krabbamein af völdum efnisins og um hálf milljón barna hafi skaddast í móðurkviði og fæðst andvana eða hræðilega vansköpuð. Bandarískir hermenn urðu líka fyrir barðinu á þessu á sama hátt. Það sem verra er er að efnið er sagt þrávirkt og hefur haldið áfram að vera virkt í jarðvegi fram á þennan dag.
Árið 1991 viðurkenndu bandarísk yfirvöld sem fóru með málefni hermanna sem börðust í Víetnam-stríðinu, að bein tenging væri á milli margháttaðra sjúkdóma í þeirra röðum og úðunar á Agent Orange.
Þar voru viðurkennd nokkur sjúkdómaafbrigði:
-
Sykursýki II
-
Hodgkin´s sjúkdómurinn
-
Húðsjúkdómur (Soft-tissiue sarcoma)
-
Úlimataugakvilli (peripheral neuropathy)
-
Hrygg og mænuskaði í börnum hermanna
-
Margháttað krabbamein
-
Hvítblæði (B-Cell Laukemias)
-
Parkinsons-sjúkdómur
-
Hjartasjúkdómur (Ischemic)
Auk þessa var viðurkennt að eftirtaldir sjúkdómar gætu orsakast af notkun á Agent Orange:
-
Fjölþætt mergæxli
-
Tæring á húð (Chloracne)
-
Krabbamein í öndunarfærum
-
Beina- og liðakvilli (AL Amyloidosis)
-
Blöðruhálskrabbamein
-
Svo reyna menn að halda því fram að virku efnin í gróðureyðingarefnunum séu ekki skaðleg og halda áfram notkun þeirra í meira magni en nokkru sinni.
Fjölmörg afbrigði af Agent Orange
Auk Agent Orange, sem dró nafn sitt af lit blöndunnar, notaði bandaríski herinn líka efnablöndur sem kallaðar voru Agent Pink, Agent Green, Agent Purple, Agent White og Agent Blue. Þessi efni voru framleidd í mismunandi styrkleikum af Monsanto, Dow Chemical og fleiri fyrirtækjum. Einnig voru mismunandi sterkar blöndur af Agent Orange, þ.e. Agent Orange I, Agent Orange II, Agent Orange III og svokallað „Super Orange“.
Roundup ekki lengur talið vera nógu sterkt
Monsanto hefur um margra ára skeið undirbúið sig undir notkun sterkari gróðureyðingarefna en Roundup. Hefur það fyrir löngu hannað erfðabreytt afbrigði nytjajurta eins og sojabauna sem þola Agent Orange. Ástæðan er að illgresið sem reynt hefur verið að drepa á ökrum bænda um árabil hefur nefnilega tekið upp á þeim fjanda að mynda þol gegn eitrinu. Til hefur orðið svokallað ofurillgresi, eða „Superweeds“. Þá dugir auðvitað ekkert annað en að mæta slíku með ofureitri. Segir ekki líka einhvers staðar í góðri bók að með illu skuli illt út reka?
Verði glyfosat bannað í Evrópusambandinu eftir 2022 yrði það gríðarlegt áfall fyrir framleiðendur gróðureyðingarefna. Þar eru stjarnfræðilegar fjárhæðir í húfi. Fyrir tveim árum var á vefsíðu Agri Business talað um að Monsanto væri að hala inn 6 milljörðum dollara (um 624 milljörðum króna) á sölu á Roundup. Bannið myndi líka hafa mikil áhrif á framleiðslu í landbúnaði, en yrði náttúrunni örugglega til góða.
Bændasamtök í Kaliforníu til liðs við Monsanto
Frá Bandaríkjunum berast nú þær fréttir að Monsanto og félög korn-, maís- og sojabænda á vesturströnd Bandaríkjanna hafa nú höfðað mál á hendur Kaliforníuríki fyrir að krefjast þess að vörur sem innihalda glyfosat séu merktar með varúðarmerkingum um að þau geti verið krabbameinsvaldandi.
Bændasamtök á svæðinu, sem eru fulltrúar fyrir maís-, soja- og kornbændur og Monsanto vísa því á bug að efnið sé hættulegt og segja að það sé ekki glyfosat sem orsaki krabbamein. Þess vegna hafa þau ákveðið að fara í mál við yfirvöld því þau halda því fram að varúðarmerkingarnar muni verða til þess að fölskum upplýsingum sé haldið að fólki.
Athyglisvert er að bandarísk bændasamtök skuli vera í liði með Monsanto um að fá að halda áfram að nota eiturefnin óáreitt. Er þetta þvert á baráttu þeirra sem vilja auka framleiðslu á heilnæmum matvælum sem séu laus við öll eiturefni.
Í Evrópu hafa sumir bændur farið sömu leið og berjast þar fyrir áframhaldandi heimild til notkunar á glyfosati, m.a. í Bretlandi og Þýskalandi. Bændur í Evrópu eru þó langt í frá sammála um þetta og lífrænir bændur hafa farið fremstir í flokki andstöðu við notkun slíkra efna. Á Íslandi hefur ekki reynt sérstaklega á þetta enda hefur Roundup sáralítið verið notað hér í landbúnaði og erfðabreytt korn er m.a. bannað í sauðfjárrækt. Mest af því sem flutt hefur verið inn af Roundup og skyldum efnum hefur verið notað í görðum í þéttbýli.
Decamba eyðileggur uppskeru í Bandaríkjunum
Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna hóf í haust auknar kröfur varðandi notkun á ofureiturefninu Dicamba frá Monsanto. Var það gert eftir úðun þess yfir akra með dicambaþolnum sojabaunum (dicamba-resistant soyabeans) þar sem uppskeran á 1,2 milljónum hektara eyðilagðist. Efnið reyndist sem sagt það eitrað að það drap allt líf á akrinum, bæði illgresið og nytjajurtirnar.
Í Kanada skemmdist líka uppskera vegna notkunar á Dicamba, en þó ekki í eins miklum mæli og í Bandaríkjunum. Heilbrigðisyfirvöld í Kanada hafa samt ekki séð ástæðu til að herða reglurnar og segjast þegar hafa sett reglur sem eigi að hindra að úðun berist yfir nálæg svæði.