Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Skagafjörður hefur orðið illa fyrir barðinu á riðuveiki.
Skagafjörður hefur orðið illa fyrir barðinu á riðuveiki.
Mynd / HKr.
Fréttaskýring 11. nóvember 2020

Hinn hræðilegi skaðvaldur riðuveikin

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Matvælastofnun staðfesti þann 27. október riðu á bæjunum Grænumýri og SyðriHofdölum í Blönduhlíð, og Hofi í Hjaltadal. Sauðféð sem riðan greindist í kom frá Stóru-Ökrum þar sem riða var staðfest í vikunni þar á undan. Ákvörðun um niðurskurð lá ekki fyrir þegar blaðið fór í prentun. 

Ljóst er að á StóruÖkrum þarf líklega að farga um 800 kindum og hátt í tvö þúsund fjár samanlagt á hinum bæjunum þrem. Einnig þykir vafasamt að hægt sé að flytja allt þetta fé í þá einu brennslustöð sem til er í landinu til slíks, en það er sorpbrennslustöðin Kolka við Helguvík í Reykjanesbæ. Liggur því beinast við að urða verði hræin, en óvíst er hvar sá urðunarstaður verður.   

Niðurstöðu ráðuneytis að vænta í þessari viku

Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu er unnið að lausn á þeim verkefnum sem við blasa. Fulltrúar atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytisins, umhverfis og auðlindaráðuneytisins, Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar vinna í sameiningu að málinu. Áhersla sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra er sú að allt sé gert til að styðja við bændur á svæðinu og gripið sé til ráðstafana í samráði við þá. Vonir standa til að niðurstaðan liggi fyrir eigi síðar en í þessari viku.  

Gríðarlegt áfall

Er áfallið gríðarlegt fyrir bændur í Skagafirði. Fram til ársins 2010 greindist riða á nokkrum bæjum á landinu á hverju ári en engin tilfelli hefðbundinnar riðu greindust á árunum 2011–2014. Eitt riðutilfelli kom upp í landinu árið 2019, en það var á bænum Álftagerði. Þá sagði í tilkynningu frá Matvælastofnun að riðan væri á undanhaldi, en ekki megi sofna á verðinum. Það voru því döpur tíðindi þegar riðuveiki var staðfest á bænum Grófargili í nágrenni Varmahlíðar í Skagafirði 24. febrúar 2020. Var þetta í fyrsta sinn sem riða kom upp á bænum.

Riðuveikin talin hafa borist til Íslands með enskum hrúti 

Riðuveiki er talin hafa borist til Íslands með enskum hrúti sem fluttur var hingað frá Danmörku að Veðramóti í Skagafirði árið 1878. Veikin breiddist í allar áttir með hrútum undan hinum enska hrúti, sem var af nýju og spennandi kyni. Veikin virtist ekki smitandi í fyrstu. Útbreiðslan var hæg um Norðurland fyrstu 75 árin en varð að smitfaraldri, sem óð yfir stóran hluta landsins næstu tvo áratugina þar á eftir. 

Allar götur síðan hafa vísindamenn jafnt sem bændur og aðrir leikmenn velt fyrir sér hvort og hvernig megi koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins. 

Oft hefur tekist um tíma að uppræta riðuveikina á einstölum svæðum, en svo hefur hún jafnvel blossað upp aftur. 

Mörkuð var sú stefna 1978 að útrýma riðuveiki á Íslandi

Samkvæmt upplýsingum frá Jóni Kolbeini Jónssyni, dýralækni í Skagafirði, sem er héraðsdýralæknir Norðvesturumdæmis, þá var mörkuð sú stefna af íslenskum yfirvöldum  árið 1978 að koma í veg fyrir útbreiðslu riðu og til að útrýma henni í landinu. 

Árið 1986 var vitað um riðu á 104 bæjum í 24 varnarhólfum og var þá ákveðið að útrýma riðuveiki í áföngum með skipulögðum hætti. 

„Það er því ljóst að riðusmitefnið var dreift ansi víða og í miklu magni á mörgum bæjum. Margar sögur eru af því að ásetningurinn dugði ekki til þess að mæta afföllunum sem urðu yfir veturinn, bændum þótti því fullreynt að búa við riðuna, auk þess sem sýktir gripir þola miklar þjáningar áður en sjúkdómurinn dregur þá til dauða,“ segir Jón Kolbeinn. 

Riðuveiki landlæg í Bretlandi í að minnsta kosti 250 ár

Samkvæmt grein í BMC Veterinary Research hefur riðuveiki verið landlæg í Bretlandi í að minnsta kosti 250 ár. Þar er líka talað um að til að sauðfé þrói með sér þennan sjúkdóm þurfi það helst að vera erfðafræðilega móttækilegt. Þar er líka talað um að ástæður fyrir sjúkdómum kunni fremur að leynast í búskaparháttum á þeim stöðum þar sem sjúkdómurinn kemur upp, fremur en umhverfislegum þáttum eins og varðandi jarðveg. Einnig er talað um að enn sé verið að rannsaka frumorsakir þess að sjúkdómurinn myndist.

Karakúlféð kom með garnaveikina

Stundum hefur verið talað um karakúlfé í samhengi við riðuveiki, en það er ekki alls kostar rétt. Hins vegar flutti karakúlféð með sér annan mjög skæðan sjúkdóm. Árið 1933 var flutt inn karakúlfé til Íslands frá Þýskalandi, en með þeim fluttist hingað garnaveiki (Paratuberculosis) sem gerði mikinn usla í sauðfé bænda um nær allt land. Karakúlfé (fræðiheiti; Ovis vignei) er sérstök sauðfjártegund upprunnin í Úsbekistan og gefur af sér mjög verðmætar gærur (sérstaklega lömbin). Karakúlféð er nefnt eftir þorpi í Úsbekistan þar sem ræktun þessa sauðfjár hófst.

Heymaurar geta borið riðusmit

Íslenskir vísindamenn sem störfuðu á sínum tíma að rannsóknum á riðu settu fram kenningu um að staðbundnir heymaurar geymdu í sér smitefni og gætu sýkt nýjan fjárstofn eftir langan tíma. 

Kenningin fékk byr í seglin þegar Sigurður Sigurðarson, dýralæknir á Keldum, fékk vísindamenn í New York til að rannsaka málið. Staðfestu þeir riðu í tilraunamúsum sem sprautaðar höfðu verið allt að 2 árum fyrr með lausn af heymaurum frá riðubæjum á Íslandi. Þessir bæir höfðu verið fjárlausir mánuðum saman. Endurteknar tilraunir styrktu þetta og vísindamenn í Frakklandi létu reyna á þessa kenningu um smitbera riðuveikinnar í samvinnuverkefni með Íslendingum og Spánverjum.

Riðuveikli orsakast af gölluðu prótíni

Riðuveiki er hvorki bakteríusjúkdómur né vírussjúkdómur. Vísindamenn hafa lýst því að ástæða veikinnar sé aflögun á príonprótíni. Heilbrigt prótín er sagt vera hringlaga en príonprótín tígullaga. 

Prótín eru gerð úr byggingareiningum sem heita amínósýrur. Fjöldi amínósýrugerða sem koma fyrir í prótínum er 20, að því er segir í grein Þuríðar Bjarnadóttur líffræðings sem finna má á Vísindavefnum. 

Frumorsök fyrir aflögun prótína virðist vera óþekkt

Enginn virðist hafa getað sýnt fram á með óyggjandi hætti hvers vegna þessi aflaga prótín myndast upphaflega, þ.e. hver frumorsökin er. Samt virðist smitefni, eða aflaga prótín, geta borist milli dýra, m.a. með fóðri og af grasi eða úr jarðvegi í bithaga og virðist geta valdið því að dýr sem innbyrða aflaga prótín geti þróað með sér riðuveiki. Því skiptir miklu máli að landinu er skipt upp í 25 afgirt varnarsvæði til að hindra för sýktra dýra inn á ósýkt svæði. Það vekur þó athygli að riðuveikin í sauðfé virðist ekki hafa smitast yfir í aðrar tegundir grasbíta. Hún smitast heldur ekki í menn. 

Geitur geta líka fengið riðuveiki

Sigurður Sigurðarson dýralæknir hefur ritað einn mest um þennan sjúkdóm hérlendis. Hann segir að ýmsar fullyrðingar hafi komið fram í umræðunni um riðuveikina nú sem standist ekki alltaf. Þannig hafi því m.a. verið haldið fram að geitur geti ekki smitast af riðuveiki úr sauðfé. Það sé ekki rétt þó ekki sé vitað til að geitfé hafi smitast á Íslandi. Jafnvel þó geitur hafi verið á sömu bæjum og þar sem sauðfé hefur verið skorið niður vegna riðuveiki. Hann segir að riðuveiki sé t.d. vel þekkt í geitfé í Bandaríkjunum og allavega sé vitað um eitt tilfelli í Noregi. 

Frekari rannsóknir skortir

Sigurður hefur ritað fjölmargar greinar um riðusjúkdóminn. Hann segir að vissulega skorti frekari rannsóknir á frumorsökum þess hvað veldur því að príonprótín afmyndast og orsakar riðuveiki. Í grein þar sem hann útskýrir hvað riðuveiki sé segir m.a.: 

„Riðuveiki eða riða (e. scrapie) í sauðfé er smitandi sjúkdómur í heila og mænu, kvalafullur og langvinnur. Algengast er að kindur veikist 1½ til 4 ára en þó eru dæmi um riðu hér á landi í 7 mánaða gömlu lambi og 14 vetra á. Riða leggst misþungt á ólíkar arfgerðir sauðfjár. Skemmdir sem verða í heilanum leiða til einkenna frá taugakerfi svo sem ótta, öryggisleysis og fælni. Oft sést og finnst hárfínn titringur eða skjálfti og tannagnístur heyrist nær alltaf í riðuveikum kindum. Fyrir kemur að riðukindur sjái illa, þær gangi á og beri framfætur hátt. Oft ber á slettingi í gangi, lömun eða þróttleysi. Kindurnar geta snarast um koll ef tekið er í horn. Oftast ber á vanþrifum þegar líður á sjúkdóminn.“

Mikill kláði getur verið eitt af einkennum riðuveiki í sauðfé eins og þessi mynd frá NADIS (The National Animal Disease Information Service) í Bretlandi sýnir. 

Greining getur verið erfið

„Það torveldar oft og tefur greiningu veikinnar að fyrstu einkenni geta verið mjög breytileg og misjafnlega auðsæ. Stundum sést aðeins eitt eða fá einkenni lengi framan af. Oft er þá talað um kláðariðu, lömunarriðu, hræðsluriðu eða taugaveiklunarriðu eftir því einkenni sem er mest áberandi. Það getur hjálpað við sjúkdómsgreiningu að spörð úr riðukindum eru stundum, en ekki alltaf, sérstök að útliti: dökk, smá, jöfn að stærð og perulaga með holu í annan enda en totu úr hinum.“

Engin lækning er þekkt við riðuveiki

 „Á stöku stað erlendis er talið að kindur geti drepist snögglega úr riðuveiki en yfirleitt ágerist veikin hægt í margar vikur og mánuði, sjaldan þó lengur en eitt ár. Engin lækning er þekkt, ekkert bóluefni og engin nothæf próf sem nota má til að leita uppi smitbera í lifandi fé. Smitefnið berst með eitilfrumum um allan líkamann. Það finnst í blóði, en virðist óstöðugt þar og nýtist því ekki til blóðprófs enn sem komið er. Smitefnið hleðst upp í hálskirtlum, í mjógörn, einkum aftast, og í eitlavef víðar um líkamann. Svo berst það til heila og mænu og safnast þar fyrir. Í heila og mænu sjást vefjaskemmdir en varla annars staðar. Ekki er vitað hvers vegna það er. 

Enn vantar á þekkingu um riðuveiki og vísindalega staðfestingu á ýmsu, sem reynslan hefur kennt. Sjúkdómsvaldurinn eða smitefnið er ekki að fullu þekkt. Ekki er hægt að rækta það, það er ótrúlega lífseigt, þolir langa suðu, útfjólublátt ljós, öll helstu sótthreinsiefni og virðist geta lifað árum saman í umhverfinu.“ 

Hvorki baktería né veira

„Smitefnið er hvorki baktería né veira heldur prótín, svokallað príonprótín, sem hefur aflagast eða krumpast en haldið að mestu sömu efnasamsetningu og heilbrigt príonprótín. Príonprótín er eðlilegur hluti af heilbrigðri skepnu en við það að krumpast breytast eiginleikar þess. Það verður torleyst, hættir að taka þátt í efnaskiptum líkamans, safnast að mestu saman í og við frumuhimnur, einkum í heilanum og eitlavef og skemmir út frá sér og þær skemmdir leiða til sjúkdómseinkenna. 

Þegar smitefnið kemst inn í heilbrigðan líkama, oftast um munn, og nær að búa um sig, fer það að breyta þeim heilbrigðu og ókrumpuðu príonprótínum sem það mætir í sína eigin mynd. Þau umbreyttu breyta síðan öðrum heilbrigðum príonprótínum og svo koll af kolli. Þannig fjölgar smitefninu, fyrst hægt en svo með vaxandi hraða og þá koma riðueinkenni í ljós.“

Smitleiðir

„Riðuveiki í sauðfé smitast fyrst og fremst með því að skepnurnar éta, drekka eða sleikja smitefnið í sig. Smit getur einnig orðið um sár og þess eru dæmi að riðuveiki hafi komið fram í kind eftir burðarhjálp manns með óþvegnar hendur, nýkomnum frá því að hjálpa riðukind að bera. Þetta þýðir að smit hafi þá verið borið í skepnu um fæðingarveg. Unnt er að sýkja kindur í tilraunum á marga fleiri vegu. Blóðsýni úr riðukind var dælt í æðar heilbrigðra kinda á Keldum og fengu nokkrar þeirra riðu.“

Riða kemur ekki alltaf fram í sýktum kindum

Kindur geta gengið með riðu langa ævi án þess að hún komi fram. Oftast er þó kindin veik í mánuði áður en hún deyr, sjaldan þó lengur en eitt ár. Veikin leiðir kindina stundum til dauða á fáum vikum, eða á skemmri tíma. Smitefnið virðist lifa í umhverfinu í meira en áratug og getur komið upp á sama bæ oftar en einu sinni.

Kraftar sem umbreyta eðlilegu príonprótíni að mestu óþekktir 

„Kraftar þeir sem umbreyta eðlilegu príonprótíni og gera það að smitefni eru að mestu óþekktir. Mismunandi erfðaeiginleikar kinda og misjafnar arfgerðir príonprótíns í ólíkum kindum hafa áhrif á gang sjúkdómsins. Þessir þættir stjórna því hvort meðfædd mótstaða gegn veikinni er mikil eða lítil og hve fljótt veikin kemur í ljós eftir smitun.

Sumir telja að snefilefni í gróðri, fóðri, vatni, jarðvegi og í skepnunum sjálfum kunni að hafa áhrif á það hvort riðuveiki kemur fram, hve lengi hún lifir í umhverfinu og hvort hún kemur aftur og aftur. Einkum hefur verið rætt um koparskort og ofgnótt mangans. Selen er einnig til athugunar,“ sagði Sigurður í grein sinni. Hann benti þó á að að svo komnu bendi ekkert til þess að koparskortur hafi áhrif á riðuveiki.

Riðuveiki og aðrir príonsjúkdómar af TSEflokki

Í annarri grein Sigurðar Sigurðarsonar segir að  riðuveiki og aðrir príonsjúkdómar af TSEflokki leggist á ýmsar tegundir dýra í öðrum löndum. TSE stendur fyrir „Transmissible spongiform encephalopathy,“ er smitandi heilasjúkdómur þar sem vökvafyllt holrúm myndast í heilanum og hann verður svampkenndur. 

„Sauðfé er eina dýrategundin hérlendis sem vissa er um að hafi tekið sjúkdóm af þessum flokki. Riðugrunur hefur tvisvar sinnum fallið á hreindýr sem gengu með sauðfjárhjörð, gjörsýktri af riðu við mikil dauðsföll. Í hvorugt skiptið var unnt að sannreyna riðu, kannski vegna mistaka við sýnatöku og sendingu.“

Hliðstæður sjúkdómur í hjartardýrum 

„Rétt er að minnast þess að sjúkdómur hliðstæður riðuveiki, Chronic Wasting Disease eða CWD, er þekktur í hjartardýrum vestanhafs og því ætti ekki að koma á óvart þótt hreindýr gætu sýkst. Vegna gruns um riðuveiki í hreindýrum hér á landi er óráð að flytja þau á milli landshluta. Aldrei hefur fundist riða eða grunur um hana í geitum, köttum, minkum eða kúm á Íslandi.“

Heilum úr fólki sem sýkst hefur af Creutzfeldt-Jakob-veiki er oft líkt við svamp af augljósum ástæðum. 

Riðuveiki í sauðfé veldur ekki sjúkdómum í fólki ólíkt kúariðuafbrigðinu CJD

„Sjúkdómur af þessum flokki sem leggst á fólk, svokölluð CreutzfeldtJakobveiki (CJD), er sjaldgæfari hér á landi en í mörgum löndum og ekkert samhengi virðist milli hans og riðuveikinnar. Með öðrum orðum: það virðist engin hætta á því að riðuveiki í sauðfé valdi sjúkdómi í fólki.

Í kjölfar kúariðu á Bretlandseyjum var lýst nýju afbrigði af CJD sem leggst á ungt fólk og er líklega hið sama og kúariða. Það hefur aldrei fundist hér á landi frekar en kúariðan. Lesa má nánar um þetta efni í svari Haraldar Briem við spurningunni Hvernig breiðist CreutzfeldtJakobsjúkdómurinn út?“ að því er fram kemur fram í útlistun Sigurðar.

CreutzfeldtJakobveiki getur smitast í menn og veldur skemmdum á heila. Ekki er óalgengt að fólk sem smitast hefur af þessum sjúkdómi fái ranga greiningu og sé talið með Alzheimer eða Parkinsonsveiki. Um 300 til 400 tilfelli ýmiss konar sjúkdóma af völdum príons, eða skemmds prótíns, greinast í Bandaríkjunum á hverju ári. Reynt hefur verið að finna  út hvort næmni fyrir slíkum sjúkdómum geti verið arfgeng. 

Mikið fé hefur verið lagt í rannsónir á CreutzfeldtJakob sjúkdómnum, en þar hafa bandarískir vísindamenn verið í forystu, en evrópskir vísindamenn fylgja þar fast á eftir. Eins óhugnanlega og það kann að hljóma, þá er talað um mikil „markaðstækifæri” á þessu sviði og að sá markaður vaxi um 17,5% á milli áranna 2018 og 2023.

Mismunandi einkenni á riðu

Þegar kind hefur smitast af riðuveiki geta liðið nokkrir mánuðir til 5 ár þar til hún fer að sýna einkenni. Því getur einstaklingur virkað heilbrigður en er í raun smitberi. 

Hversu hratt dýrið fer að sýna einkenni ræðst af ýmsu eins og t.d. arfgerð kindarinnar, aldri við smit og ásigkomulagi. Oft koma einkennin frekar fram þegar dýrið verður fyrir streitu, eins og t.d. við smölun. Einkennin eru viðvarandi í nokkrar vikur eða mánuði þar til dýrið deyr. Riðuveikar kindur vanþrífast oftast nær. Fyrstu einkennin geta verið mismunandi. Þau eru breytileg frá degi til dags, meira áberandi suma daga en aðra. 

Langt getur verið í að einkenni verði stöðug. Því getur þurft að skoða kind á þessu stigi oftar en einu sinni til að vera viss. Einnig skortir á að öll einkenni riðuveiki komi fram í einni og sömu kindinni. 

Kláðariða: 

Kindurnar klóra sér á haus, síðum, drundi og víðar. Kláði sést þó ekki í öllum tilfellum, en flest riðusmitað fé svarar þó klóri í bak.

Taugaveiklunarriða: 

Kindurnar verða óttaslegnar, óöruggar með sig, hrökkva við, titra, skjálfa og gnísta tönnum.

Lömunarriða: 

Kindurnar liggja mikið, bera fætur hátt, slettast til í gangi.

Heimild / MAST

Fólk smitast ekki af riðu

Engar vísbendingar eru um að fólki stafi hætta af snertingu við riðusmitað fé né neyslu afurða þess, svo sem kjöts, innmatar og mjólkur. Þannig að hvorki neytendur né fólk sem starfar á sauðfjárbúum eða í sláturhúsum eru í hættu vegna riðuveiki í sauðfé.

Tilgáta um að frumorsök riðuveiki kunni að leynast í gasmyndun í gripahúsum

Vegna þeirrar óvissu sem uppi er um grunnorsökina fyrir prótínafmynduninni sem veldur riðuveikinni, hafa komið fram ýmsar tilgátur. Ein þeirra er að gasmengun í gripahúsum, m.a. frá mykjuhúsum undir fjósum eða kindaskít undir grindargólfum, geti verið orsakavaldurinn. Þar er bent á ammoníaks og metangas mengun. Ammoníak, eða ammonia á ensku, er líka nefnt köfnunarefnisvetni NH3. Er þetta litlausa gas m.a. mikið notað í áburð og sprengiefnagerð.

Vísindamenn sem Bændablaðið hefur spurt um þennan möguleika staðfesta að ekki sé vitað um frumorsök þess að galli myndast í prótíni sem síðan orsakar riðuveiki. Jón Kolbeinn Jónsson, héraðsdýralæknir Norðvesturumdæmis, segir að um sé að ræða tvær tegundir af riðu, önnur er hefðbundin riða og er smitandi, en hitt afbrigðið er NOR98 og er ekki talin vera smitandi. 

NOR98 verður til við stökkbreytingu og á hún sér stað oftast í eldri gripum. Jón segist hafa heyrt af þessum getgátum að ammoníak eða metangas geti valdið riðu en hann hafi ekki fundið neina tilraun sem gerð hefur verið eða nokkuð sem styðji þessa tilgátu.

„Ég tel að riðusmitefnið lifi í tugi ára og jafnvel hundruð ef jarðvegurinn er þannig gerður að lítið niðurbrot lífræns efnis á sér stað. Tel mestu hættuna vera þegar bændur eru að vinna upp gömul tún, setja í kál eða moka upp úr gömlum skurðum þar sem smitefni gæti hafa leynst. Sauðfé á svo hættu á því að éta jarðvegsmengað fóður þegar gróðurþekjan er gisin eins og á nýræktum og kálstykkjum,“ segir Jón Kolbeinn. 

Óskað eftir rannsókn

Guðbrandur Jónsson lýsti þeim tilgátum í Bændablaðinu 23 júlí. 2015, en hann hefur gert fjölda mælinga á styrkleika ammónía og metangass í fjárhúsum hér á landi. Hann hefur nú sent Matvælastofnun erindi með ósk um rannsókn á riðubúunum í Skagafirði. Væntanlega er full ástæða til að slík rannsókn verði gerð í ljósi upplýsinga um að engin vitneskja virðist vera til um að slík rannsókn hafi yfirleitt farið fram. 

Guðbrandur hefur starfað sem þyrluflugstjóri, en er með sérþekkingu á málefnum tengdum rekstri á biogasstöðvum á Íslandi. Hann segir að höfundur príonprótínkenningarinnar hafi verið spurður út í hvaða munur væri á heilbrigðu prótíni og príonprótíni. Hann hafi svarað því til að heilbrigt prótín væri hringlaga en príonprótín tígullaga. 

Getur ammónía aflagað prótín?

Guðbrandur segir að ammónía sé mjög mínushlaðið efni og gæti þannig verið skýringin á riðuveiki og þeim skjálfta sem veik dýr ganga í gegnum. Ef maður tengi rafmagn í gegnum heilbrigt prótín þá verði það tígullaga. 

Hann segist sannfærður um  að bakteríugasið ammonia sé orsakavaldurinn í riðuveiki á Íslandi, en það myndist í niðurbroti á taði og í fljótandi flór. 

Í grein sinni í Bændablaðinu bendir hann á að að fjárhúsalyktin sé ekki bara venjulegt andrúmsloft. Þar sé köfnunarefnið 78%, súrefnið 21% og annað efni 1%. Þegar vatnið tekur svo völdin umbreytist fjárhúsið í efnaverksmiðju vegna gerjunar í skít. 

„Til að fá skít til að hlaupa í gerjun þarf hitastig að vera 3 gráður eða hærra. Vatnið sem er 6.7 að pH gildi, þynnir út pH gildið í skít sem er 4.4 og hlandi sem er pH 5.4, gerjun hefst við pH gildið 6.5. PH gildið þarf síðan að vera pH 6.5 eða hærra, það er jafnt framboð af vatni. Falli niður framboð af vatni á þessu gerjunarstigi verður til eiturgas við pH gildið 6.2 eða lægra  og þá er hætta áferðum í flórnum þegar eiturbakteríur taka völdin og framleiða NOx gasið og minna magn af brennisteinsvetni H2S.

Gerjunarbakteríur þurfa loftfirrtar aðstæður og eru ljósfælnar og dafna best í myrkri að nóttu og þá gerist þetta við brunann, niðurbrot mykjunnar í flór, í gerjun á 1. og 2. stigi, en þau eru 3. stökkbreytingarstig baktería í gerjun, CH4 methan í lokin á gerjunarstigi 3.

 A. Bruni við loftfirrtar   aðstæður

í fjárhúsi er all sérstæður; Vatn   plús skítur jafnt og rakagas.

B. Bruni við loftvænar aðstæður er þekktari sem; O2 og N2 og raki í blöndu við Carbona yfir í eldsneyti.

Eða í tilfelli A; 

H2O, plús efnin í skít: C, plús H2 ,plús S, plús O2, plús N2 ,plús H2O, gerjast saman í efnin; CO2, plús CO, NH3, plús CH4, plús H2S, plús CH4, plús SO2, plús O2 ,plús NOx plús N2, plús raki og sót. Útkoman er   GERJUNARGAS.

Saklausa fjáhúsið verður að efnaverksmiðju

Vatn og vatnsgufa (raki)  blandast skít, innihald í skít eru efnin: 

C, carbon, H2, hydrogen, S, Sulphur, O2 oxygen,  N2 nitrogen og vatn og útkoman verður: Raka eða gufugas með eftirfarandi gasgufur: CO2 , CO, NH3, SO2, O2, NOx, N2, H2S, CH4, vatnsgufa og sót.

Saklausa fjárhúsið með sína kindalykt verður hér að efnaverksmiðju eða biogasstöð. Í biogasstöð eru flest efnanna metin hættuleg efni fyrir vinnandi menn og þungagasið metið lífshættulegt mönnum, efnin NOx, H2S, NO og NO2. Þessi gasefni eru ofan á skít í gerjun, eru þyngri en andrúmsloftið og fara hvergi, bara liggja og bíða eftir fórnarlambi. Ekki dugar að nota gasgrímur á þessi efni og því á að nálgast þau með súrefnisgrímu tengda súrefniskút,“ sagði Guðbrandur Jónsson í grein sinni. 

Skylt efni: riða | Riðuveiki

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...