Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Misjafnt er hversu mikið af hverri fisktegund er selt á markaði. Á undanförnum árum og áratugum hefur langmest verið selt af þorski og ýsu. Sala þorsks nam að jafnaði um 35 þúsund tonnum á árunum 2009–2019 og sala á ýsu um 17 þúsund tonnum.
Misjafnt er hversu mikið af hverri fisktegund er selt á markaði. Á undanförnum árum og áratugum hefur langmest verið selt af þorski og ýsu. Sala þorsks nam að jafnaði um 35 þúsund tonnum á árunum 2009–2019 og sala á ýsu um 17 þúsund tonnum.
Mynd / Vilmundur Hansen
Fréttaskýring 3. júní 2021

Mesta árssalan 116 þúsund tonn

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Um 100 þúsund tonn af fiski renna í gegnum fiskmarkaði á Íslandi á ári hverju. Þorskur vegur þar þyngst. Verð á fiskmörkuðum er að jafnaði hærra en í beinum viðskiptum.


Fiskmarkaðir gegna mikilvægu hlutverki í sjávarútvegi. Nýlega birtist skýrsla um stöðu og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi sem unnin var að beiðni sjávarútvegsráðherra. Höfundar skýrslunnar eru Sveinn Agnarsson, prófessor og ritstjóri, Sigurjón Arason prófessor, dr. Hörður G. Kristinsson og dr. Gunnar Haraldsson.

Skýrslan er ákaflega yfirgrips­mikil og fræðandi. Helstu niðurstöður hafa verið kynntar í fjölmiðlum en hér verður staldrað við einn athyglisverðan þátt hennar sem fjallar um fiskmarkaði á Íslandi.

Björt framtíð

Áður en vikið verður að fiskmörk­uðunum er rétt að nefna að framtíðarsýn höfunda skýrslunnar er mjög björt. Í skýrslunni segir að enn séu mikil tækifæri til vaxtar í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum, svo sem í búnaði og þekkingu, líftækni og þörungum. Mögulegt sé að auka verðmæti þessara greina verulega á næstu árum.

Árið 2019 var samanlagt virði framleiðslu í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum um 332 milljarðar króna. Að gefnum forsendum gætu þessar greinar skilað um 440 milljörðum króna í verðmæti árið 2025 og 615 milljörðum árið 2030. Virði framleiðslunnar árið 2030 yrði þannig 85% meira en virði hennar árið 2019. Mestum vexti er spáð í fiskeldi.

24 fiskmarkaðir

Fyrsta uppboð fiskmarkaðs á Íslandi fór fram í Hafnarfirði í júní 1987. Í dag eru 24 fiskmarkaðir starf­ræktir á 45 stöðum á landinu og eru þeir tengdir í eitt uppboðsnet þar sem kaupendur kaupa fisk í fjarskiptum. Uppboðskerfi Reiknistofu fisk­markaða (RSF) tengir þessa markaði saman.

Tvö fyrirtæki, Fiskmarkaður Íslands og FMS (áður Fiskmarkaður Suðurnesja ehf.), bera höfuð og herðar yfir aðra markaði. FMS er með 6 markaði á sínum vegum, höfuðstöðvar eru á Suðurnesjum, en Fiskmarkaður Íslands rekur markaði á 9 stöðum, aðallega á Snæfellsnesi. Níu minni markaðir eru einnig starfandi.

17,4% af lönduðum botnfiskafla

Umsvif fiskmarkaða jókst hratt á fyrstu árum þeirra og nam 22 þúsund tonnum árið 1987 en fór í 96 þúsund tonn árið 1991. Síðan hefur magnið haldist um 100 þúsund tonnin á ári flest árin. Mest var salan 116 þúsund tonn árið 1996.

Aðallega eru botnfiskar og flatfiskar seldir á mörkuðunum en engir uppsjávarfiskar. Árið 2019 voru 17,4% af lönduðum botnfiskafla seld á innlendum fiskmörkuðum.

Í skýrslunni er ekki fjallað sérstaklega um heildarumsvif fiskmarkaða árið 2020 en á vef RSF má sjá að salan var góð í fyrra. Hún nam rúmum 115 þúsund tonnum og veltan var 31,5 milljarðar króna. Til samanburðar má geta þess að aflaverðmæti alls botnfisks og flatfisks árið 2020 nam rúmum 123 milljörðum króna að því er fram kemur á vef Hagstofunnar.

Mest selt af þorski

Misjafnt er hversu mikið af hverri fisktegund er selt á markaði. Á undanförnum árum og áratugum hefur langmest verið selt af þorski og ýsu. Sala þorsks nam að jafnaði um 35 þúsund tonnum á árunum 2009-2019 og sala á ýsu um 17 þúsund tonnum.

Undanfarinn áratug hafa um 6.700 tonn verið seld af ufsa á fiskmörkuðum á hverju ári og 4.600 tonn af karfa og steinbít.

Þótt langmest sé selt af þorski á fiskmörkuðum er ekki nema tiltölulega lágt hlutfall af lönduðum þorskafla selt þar. Árin 2014-2019 voru seld um 15,2% af þorskafla á mörkuðum. Hærra hlutfall af afla í öðrum tegundum, sem veiðast í frekar litlu magni, hefur ratað inn á markaðina á þessu tímabili, t.d. 75% af skötu og 66% af hlýra. Ríflega helmingur af lönduðum afla af skötusel og skarkola og 48% af steinbít hafa verið seld á mörkuðum síðustu ár.

Þorskur hækkað um 46% á föstu verði

Verð á fiskmörkuðum ræðst af framboði og eftirspurn. Náið sam­band er á milli verðs á íslenskum fiskmörkuðum og verðs á erlendum mörkuðum.

Í gegnum tíðina hefur verð á einstökum tegundum þróast með misjöfnum hætti. Á föstu verði hefur þorskur hækkað mest frá árinu 1997 til 2020, eða um 46%. Fyrstu 9 mánuði ársins 1997 var verð á þorski að jafnaði 223 krónur á kíló, miðað við verðlag í september 2020. Verðið var hins vegar 325 krónur að meðaltali á kíló sömu mánuði ársins 2020.

Ýsa hækkaði í verði á sama tímabili um 21% á föstu verði, karfi um 14%, skarkoli um 4% og langa um 2%. Steinbítur og ufsi lækkuðu aftur á móti á þessu tímabili.

Samþjöppun meðal kaupenda

Seljendur á fiskmörkuðum eru mun fleiri en kaupendur. Árið 2019 seldu 1.184 aðilar fisk á mörkuðum og þeir voru 2 þúsund árið 2011. Þessi fjöldi helgast meðal annars af því hve margir strandveiðibátar selja afla sinn á fiskmörkuðum á sumrin.

Árið 2019 keyptu 234 aðilar fisk á innanlandsmarkaði, einum fleiri en árið 2008. Fjöldi kaupenda hefur haldist nokkuð svipaður síðasta áratug, rokkar á milli 230 og 280.
Töluverð samþjöppun er meðal kaupenda á markaði. Árið 2012 keyptu þeir 10 aðilar sem keyptu mest samtals 41% af öllum fiski á markaði, þetta hlufall var 38% árið 2019. Þeir 25 umsvifamestu keyptu ríflega 60% af heild.

Þeir 10 stærstu keyptu árið 2012 um 64% af öllum þorski og 79% af allri ýsu sem var í boði. Hlutföll í þessum tegundum höfðu heldur lækkað árið 2019.

Erlendir aðilar geta keypt beint

Erlendir kaupendur, þ.e. kaupendur sem hafa ekki íslenska kennitölu, geta boðið í fisk á íslenskum fiskmörkuðum. Flest undanfarin ár hafa 9 til 11 erlendir kaupendur keypt fisk á mörkuðum hér. Að auki hafa íslenskir aðilar keypt fisk á mörkuðunum fyrir erlenda aðila.

Í heild keyptu útlendingar beint um 3.000 tonn af fiski á mörkuðum árið 2016 og 2.600 tonn árið 2019. Mest kaupa þeir af steinbít og þorski en einnig töluvert af skötusel, karfa og skarkola.

19% hærra verð á mörkuðum

Í skýrslunni er borin saman verð­myndun á fiskmörkuðum annars vegar og í beinum viðskiptum hins vegar, þ.e. þegar skip landa afla sínu hjá fiskkaupanda. Í beinum viðskiptum er aðallega um að ræða kaup og sölu á milli tengdra aðila, þ.e. bæði útgerð og fiskvinnsla eru á sömu hendi.

Samkomulag um verð í beinum viðskiptum er meðal annars háð ákvæðum í kjarasamningi sjómanna og útvegsmanna sem kveða á um vissa tengingu við verð á fiskmarkaði yfir tiltekið tímabil.

Verð á fiski á mörkuðum er nokkru hærra en verð í beinum viðskiptum. Á tímabilinu janúar 2010 til september 2020 var verð á óslægðum þorska að jafnaði 19% hærra á markaði en í beinum viðskiptum.

Helsta hlutverk fiskmarkaða

Í skýrslunni er tekið saman helsta hlutverk fiskmarkaða. Þar kemur fram að fiskmarkaðir endurspegli vel hvaða verð kaupendur séu tilbúnir að greiða fyrir fisk á hverjum tíma.

Fiskmarkaðir hafa líka auðveldað fiskvinnslum sem ekki reka útgerð aðgang að hráefni.
Fiskmarkaðir gera stærri fyrirtækjum kleift, sem einnig ráða yfir aflaheimildum, að jafna út tímabundið misræmi á milli framboðs og eftirspurnar.

Loks má nefna að fiskmarkaðir hafa ýtt undir sérhæfingu í vinnslu ákveðinna fisktegunda. Sjávarútvegsfyrirtæki geta sett aukaafla, sem þau hafa ekki áhuga eða tök á að vinna, á fiskmarkað og einbeitt sér að vinnslu þorsks eða ýsu, svo dæmi séu nefnd. Önnur fyrirtæki, sem hafa ekki aflaheimildir, geta sérhæft sig í vinnslu á tegundum sem veiðast ekki í miklu magni. Þá safna þau slöttum saman í viðkomandi tegund frá nokkrum mörkuðum sem nægja til að halda uppi fullri vinnslu.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...