Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Alifuglum fargað vegna útbreiðslu fuglaflensu á Indlandi.
Alifuglum fargað vegna útbreiðslu fuglaflensu á Indlandi.
Mynd / Indian Express
Fréttaskýring 4. mars 2021

Nýr fuglaflensufaraldur farinn að stórskaða alifuglaeldi víða um lönd

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Fuglaflensa hefir skotið upp kollinum annað slagið í gegnum árin, en nú er óttast um alvarlegar afleiðingar af nýjum faraldri sem þegar er farinn að valda skaða í alifuglarækt í Evrópu. Þessi fuglaflensa gæti hæglega borist með farfuglum til Íslands.

Fuglaflensan bætist ofan á áhyggjur manna vegna svínapestar sem leikið hefur landbúnað grátt, sérstaklega í Kína og í Austur- Evrópu. Þá er enn mikill ótti við að svínapest berist úr villisvínum í Evrópu í svínabú t.d. í Þýskalandi. 

Í lok janúar bárust fregnir af því að 1,3 milljónir kjúklinga hafi verið slátrað í Kalmar í Svíþjóð eftir að fuglaflensa af H5N8 og H5N5 stofnum greindist þar á alifuglabúi. Þetta eru samt fuglaflensustofnar sem ekki er vitað til að geti smitast í menn.  

Hinn 4. febrúar 2020 tilkynntu stjórnvöld í Sádi-Arabíu og Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunin (World Organisation for Animal Health - OIE) um að mjög smitandi fuglavírus H5N8 hafi brotist út í alifuglabúi í landinu. Atvikið átti sér stað í Mið-Sudair héraði og drap vírusinn meira en 22.700 fugla á nokkrum vikum. Var 385.300 fuglum sem eftir voru á búinu slátrað. Var þetta fyrsta fuglaflenskutilvikið sem tilkynnt var í landinu síðan í júlí 2018. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og hefur vírusinn dreifst með farfuglum víða um heim, m.a. til Skandinavíu.

Fuglaveirustofn sem getur borist í menn finnst í Skotlandi

Þótt fréttir nú af hraðri út-breiðslu fuglaflensu af H5N8 stofni þyki ógnvekjandi fyrir matvæla-fram-leiðsluna, þá vakti það óneitanlega dálítinn óhug að sjá fréttir frá umhverfis- og matvæla-yfirvöldum í Bretlandi þann 15. febrúar síðastliðinn. Þar var greint var frá því að mjög smitandi afbrigði af H5N1 stofni fuglaflensu hafi greinst í Skotlandi. Þó áhættan sé ekki sögð mikil á að fólk smitist af fuglaflensuveiruafbrigðinu H5N1, þá eru dæmi um að fjöldi manna hafi látið lífið af völdum þess fyrr á árum. Ekkert hefur þó komið fram um að veiran hafi smitast í fólk í Skotlandi.

Greindist fyrst í mönnum 1997

Þetta afbrigði veirunnar greindist fyrst í mönnum í Hong Kong árið 1997 eftir að fuglaflensufaraldur braust út í kjúklingum í borgríkinu þáverandi. Síðan hefur veiruafbrigðið H5N1 greinst í villtum fuglum í yfir 50 löndum í Asíu, Afríku, Evrópu og Mið-Austurlöndum.

Ekki dæmi um að H5N1 veiran hafi valdið faraldri hjá mönnum

Sex lönd eru sögð sérstaklega útsett fyrir þessu afbrigði fuglaflensu-veirunnar, en það eru Bangladesh, Kína, Egyptaland, Indland, Indó-nesía og Víetnam. Frá árinu 2003 hafa komið upp tilfelli annað slagið um að fólk hafi smitast af H5N1 fuglaflensuafbrigðinu í Asíu. Einnig í Afríku, Mið-Austurlöndum og Evrópu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO greindi m.a. frá því að stofnuninni hafi borist 700 tilkynningar um smit af völdum H5N1 veirunnar frá 2003 í 15 löndum. Þann 21. janúar síðastliðinn var þó aðeins talað um 239 staðfest smit í fólki frá 2003 og þar af 134 dauðsföll sem þýðir að dánartíðnin er 56%.

Þetta afbrigði fuglaflensu-veir--unnar berst ekki auðveldlega manna á milli og hefur aldrei náð að verða að faraldri meðal manna. Samkvæmt tölum eftirlits-stofnunar-innar CDC (Center for Disease Controle and Prevention) hafa tiltölulega mjög fáir jarðarbúar sýkst af veirunni en dánartíðnin meðal þeirra sem sýkst hafa er eigi að síður há, eða allt að 60%. Ekki er tekið fram hvort það fólk hafi verið með undirliggjandi sjúkdóma af öðru tagi, en veiran getur framkallað margvísleg veikindi hjá fólki. 

Eitt tilfelli H5N1 greindist í Kanada

Þann 8.  janúar 2014 var greint frá því að  H5N1 fuglaflensuafbrigðið hafi í fyrsta sinn greinst í manni í Ameríku. Það var maður í Kanada sem verið hafði á ferðalagi í Kína. Fram til þessa er ekki vitað um neitt annað tilfelli af smiti H5N1 veirunnar í fólk í Kanada og ekki heldur í Bandaríkjunum. Veiran hefur aftur á móti nýlega greinst í villtum fuglum í Bandaríkjunum, samkvæmt gögnum landbúnaðarráðuneytis Bandaríkjanna. H5N1 afbrigðið sem þar hefur fundist er þó sagt erfðafræðilega að einhverju leyti öðruvísi en asíska afbrigðið af sömu veiru. 

Smit H5N8 hefur borist víða með farfuglum

Á sumarmánuðum 2020 greindist H5N8 í villtum fuglum í Vestur-Rússlandi og Kasakstan. Búist var við að veiran myndi einnig berast með vaðfuglum og sundfuglum til Norður- og Vestur-Evrópu. Staðfesting fékkst síðan á því í október og nóvember með aðvörun matvælaöryggisyfirvalda í Evrópu (European Food Safety Autority – EFSA) þann 19. nóvember. Sum þeirra smita sem greinst höfðu í haust fundust í farfuglategundum sem verpa í norðanverðri Evrópu, m.a. á Íslandi. Þar sagði m.a.:

„Frá 16. október 2020 hefur verið greint frá faraldri af mjög skæðri fuglaflensu (HPAI) í nokkrum ESB og EES ríkjum. Þetta eru Belgía, Danmörk, Frakkland, Írland, Holland, Svíþjóð og einnig Bretland.“

Þann 17. nóvember var farið að undirbúa slátrun 70.000 alifugla  í Þýskalandi. Einnig var fyrirskipuð slátrun á 25.000 fuglum í Danmörku og 13.000 fuglum í Norðvestur-Englandi.  

Á hádegi 19. nóvember, hafði verið tilkynnt um fjölda HPAI A (H5) tilfelli, þar sem meirihlutinn af greiningunum var rakinn til villtra fugla. Þá voru smittilfelli einnig greind í alifuglum og öðrum búrfuglum. 

Flest smitin í villtum fuglum voru í vað- og sundfuglum. Þar var m.a. um að ræða smit í helsingja (Barnacle goos – Branta leucopsis). Þá fundust smit í grágæs og  í „evrasískri dúgu“ og 14 í stokköndum. Eins höfðu fundist smit í fugli af fálkaætt sem nefndur er common buzzard (Bluteo buteo). 

Í þessum smitum sem greind voru reyndust vera þrjár undirtegundir HPAI-vírusa. Það voru A (H5N8), A (H5N5) og A (H5N1). Algengasta afbrigðið var A (H5N8).

EFSA taldi að búast mætti við frekari útbreiðslu þegar farfuglar færu til vetrarstöðva sinna víða í Evrópu. Með vorinu mætti síðan búast við nýrri smitbylgju frá villtum farfuglum. 

Ekkert sem bendir til að H5N8 vírusinn berist í menn

ESFA telur hættu fara vaxandi á að fuglaflensusmit af H5N8 stofni breiðist víðar um Evrópu. Enn sem komið er sé þó ekkert sem bendi til þess að þessi veira geti sýkt menn og önnur spendýr. Eigi að síður bendir EFSA á að fólk ætti að forðast að snerta sjúka eða dauða fugla. Þekkt er að aðrir stofnar fuglaflensu eins og H5N1 og H7N9 hafi borist í spendýr og valdið dauða hundraða manna á árunum 2003 og 2013.

Þann 19. nóvember höfðu einnig borist enn frekari tilkynningar um fjölda smita í villtum fuglum og alifuglum í Belgíu, Danmörku, Frakklandi, Þýskalandi,  Írlandi, Hollandi, Svíþjóð og i Bretlandi. Samkvæmt erfðafræðilegum rannsóknum var sagt að vírus í þessum löndum væri aðeins frábrugðinn þeim HPAI A(H5N8) og A(H5N2) afbrigðum sem fundist höfðu í austanverðri Evrópu frá júní 2019 til júní 2020. 

Þann 20. nóvember var greint frá banni yfirvalda í Noregi á að alifuglar á ákveðnum svæðum væru hafðir utanhúss. 

Þann 4. janúar var greint frá því að 9.000 alifuglum hafi verið slátrað vegna fuglaflensunnar á búi í bænum Lovel á Jótlandi í Danmörku. Var það gert til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu á H5N8 vírusnum. Í lok janúar bárust síðan fregnir af því að 1,3 milljónum kjúklinga hafi verið slátrað í Kalmar í Svíþjóð.

Tilkynnt um smit á Indlandi og víðar í Asíulöndum

Yfirvöld í Suður-Kóreu greindu frá því í lok nóvember að fyrirskipuð hefði verið slátrun á 392.000 alifuglum í forvarnarskyni til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins. 

Nú í byrjun janúar 2021 bárust svo fregnir af því að vírus af H5N8 stofni hafi drepið hundruð fugla í Kerala-ríki á Indlandi í desember. Í framhaldinu var þúsundum alifugla slátrað. Þá var greint frá frekari útbreiðslu fuglaflensunnar í fleiri héruðum á Indlandi. Þannig hafði 160.000 alifuglum verið slátrað í Barwala, Panchkula og í Raipur Rain. Frá miðjum desember til 8. janúar var búið að slátra 437.000 alifuglum á Indlandi vegna fuglaflensunnar. Þann 9. janúar hafði verið tilkynnt um smit í 7 ríkjum á Indlandi. 

Yfirvöl í Namibíu í Afríku lokuðu fyrir allan innflutning þann 15. janúar á alifuglum og alifuglakjöti frá Evrópu og öðrum ríkjum þar sem fuglaflensusmit höfðu komið upp.

Þann 20. janúar greindi Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunin (World Organisation for Animal Health – OIE) frá mjög smitandi veiru af H5N8 stofni í Írak. Hafði veiran fundist í alifuglabúi í bænum Samsara og hafði þá drepið 63.700 fugla af 68.800 fuglum sem í búinu voru.

Japanska landbúnaðarráðuneytið upplýsti svo þann 21. janúar að greinst hafi H5N8 veira í öndum sem nýttar voru til manneldis á alifuglabúi í Yokoshibahikari nærri Narita. Þá hafði aliöndum á tíu alifuglabúum verið slátrað í forvarnarskyni til að hefta frekari útbreiðslu.

Ráðuneyti landbúnaðar- og dreifbýlis í Kína greindi frá því þann 1. febrúar að mjög smitandi veira af H5N8 hafi greinst í svönum við Vetrarhöllina í Beijing. Þarna eru að jafnaði um 4.000 svanir og höfðu nokkrir drepist og fleiri greindir með sýkingu.  

Yfirvöld í Brandenburg í Þýska-landi upplýstu þann 2. febrúar að 14.000 kalkúnum hafi verið slátrað á Uckermark svæðinu til að reyna að hefta útbreiðslu fuglaflensunnar þar í landi. 

Döpur slóð fuglaflensufaraldra

Í gegnum tíðina hefur fuglaflensu-veira margoft skotið upp kollinum, en þá af öðru afbrigði en nú er að breiðast út, sem er H5N8. Þannig hafði fuglaflensa af H5N2 stofni alvarlegar afleiðingar fyrir alifuglarækt í Bandaríkjunum 2015. Í maí það ár hafði 43 milljónum alifugla verið slátrað vegna þessa vírus í 15 ríkjum Bandaríkjanna, einkum kjúklingum og kalkúnum. Þar af var 30 milljónum fugla slátrað í Iowa sem er helsta eggja-framleiðsluríki landsins. Olli þetta gríðarlegum verðhækkunum á eggjum og alifuglakjöti.  

Skylt efni: fulglaflensa

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...