Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Vegna nýrra aðbúnaðarreglugerða þarf að ráðast í viðamiklar endurbætur á svínabúum, alifuglabúum auk breytinga vegna aðbúnaðar dýra í örðrum búgreinum. Er það í takt við breytingar sem unnið hefur verið að í nágrannalöndunum á undanförnum árum. Munurinn e
Vegna nýrra aðbúnaðarreglugerða þarf að ráðast í viðamiklar endurbætur á svínabúum, alifuglabúum auk breytinga vegna aðbúnaðar dýra í örðrum búgreinum. Er það í takt við breytingar sem unnið hefur verið að í nágrannalöndunum á undanförnum árum. Munurinn e
Fréttaskýring 12. apríl 2016

Öflugur stuðningur er víða til að mæta kostnaðarauka bænda

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Svínabændur gagnrýndu á dögunum harðlega nýgerða búnaðarsamninga sem bændur greiða nú atkvæði um. Bentu þeir á að þeir séu ekki að njóta sanngirnis í vaxandi samkeppi við bændur í nágrannalöndunum, einkum hvað varðar kostnaðarauka vegna aðlögunar búanna að nýjum aðbúnaðarreglugerðum. 
 
Þegar skoðuð er staðan á hinum Norðurlöndunum má sannarlega segja að íslenskir svínabændur hafi nokkuð til síns máls. Hafa verður í huga að hér er aðlögun að aðbúnaðarreglugerðum rétt að hefjast. Sú  aðlögun hefur þegar staðið yfir í nokkur ár á hinum Norðurlöndunum.
 
Stuðningskerfi við lýði um allan heim
 
Stuðningur er við landbúnað í nær öllum ríkjum heims. Kerfin á bak við það eru misflókin og misöflug og sum meira að segja falin inn í öðrum kerfum eins og greiðslum til hernaðar. 
 
Í nálægum löndum er víða að finna styrki til bænda til að fjárfesta í húsum og innréttingum til að takast á við nýjar og auknar kröfur um aðbúnað. Slíkar kröfur eru af margvíslegum toga, eins og vegna aukins rýmis fyrir hvern grip, lausagöngu gylta á gottíma í sérstökum gotstíum, endurnýjun innréttinga, breyttar kröfur til gólfefna og svo framvegis. 
 
Styrkir af þessu tagi hafa verið í boði til bænda í löndum ESB en þaðan kemur þorri innfluttra afurða m.a. á grundvelli tollfrjálsra kvóta. Eru þeir þá veittir af fjármagni sem fellur undir svonefnda Stoð II (Pillar II) í CAP landbúnaðarstefnu ESB, með mótframlagi frá viðkomandi landi sem getur numið um 20 til 30% ofan á stuðning ESB. 
 
Ný reglugerð ESB, RDP – EC (1305/2013) fjallar um þróunarverkefni í dreifbýli,  „Rural Development Program“. Undir það fellur dýravelferð, en aðildarríkin hafa þar mátt styðja við hin ýmsu verkefni. Það getur verið ansi víðtækt og lýtur að því  sem viðkomandi aðildarríki telur nauðsynleg að gera  til að styðja við byggð, atvinnu- og frekari atvinnuuppbyggingu í dreifðari byggðum sambandsins. 
 
Undir því sem kallaðar eru dýravelferðargreiðslur, „animal welfare payments“, geta bændur gengið lengra en grunnreglugerðin segir til um. Þar geta menn fengið allt að 500 evrur á hvern haus eða á dýraeiningu (LSU - Livestock unit) á ári í allt að sjö ár.
 
Styrkir einkum til svína-, mjólkur- og eggjabænda
 
Á Norðurlöndunum eru styrkir til endurbóta á byggingum til að mæta breyttum aðbúnaðarkröfum. Í dag beinast þessar greiðslur einkum að svínakjötsframleiðendum og mjólkurframleiðendum samkvæmt úttekt RML. Á sama hátt voru víða styrkir í boði t.d. þegar framleiðendur breyttu fyrirkomulagi í eggjaframleiðslu úr búrum í lausagöngu. 
 
Styrkir allt að 40% til svínabúa í Danmörku
 
Sem dæmi um stuðning við svínarækt í Danmörku vegna hertra aðlögunarreglugerða má nefna nýbyggingar. Bæði eru veittir styrkir til fjárfestinga í uppeldishúsum og gyltueldi.
 
Styrkir til nýbygginga sem ótengd eru eldri húsum nema sem svarar 20% af kostnaði við hvert pláss. Í viðbyggingum nemur styrkurinn einnig 20% af kostnaði. 
 
Við allsherjar endurnýjun á innréttingum og gólfefnum nemur styrkurinn  allt að 40% á hvert pláss.
Í gyltueldi eru veittir styrkir til að koma mjólkandi gyltum í lausagöngu á gottíma. Stefnan er að því að  10% af gyltum verði í lausagöngu árið 2020. Til þessa verkefnis er forgangsraðað 20 til 25 milljónum danskra króna á ári, eða sem svarar 471 milljón íslenskra króna. Gert er ráð fyrir styrkjum annars vegar til nýbygginga eða viðbygginga við núverandi rekstrareiningar. Viðmiðunarkostnaður er 39.400 krónur á stíu og hámarksstuðningur 40% (15.760 kr/stíu). Er þá líka reiknað með að ekki verði greitt meira en 7.000 kr/stíu. Hins vegar eru styrkir til endurnýjunar á eldri húsum þar sem viðmiðunarkostnaður er 14.500 krónur. Þar er hámarksstyrkur 40% eða 5.800 kr. stíu.
 
Þak á stærð verkefna
 
Einnig eru hámörk á heildarkostnað verkefna sem styrkt eru í Danmörku, eða sem nemur um 80 milljónum íslenskra króna. Lágmarksstærð verkefna sem eru styrkhæf eru sem nemur 6 milljónum íslenskra króna. 
 
Finnar stíla mest á fastar greiðslur
 
Þótt finnskir bændur bölvi stuðningskerfi CAP hressilega þessa dagana, þá má í því finna ákveðna þætti sem eru að skila mun hærri stuðningi til bænda en þekkist á Íslandi. Það varðar þó einkum stuðning við endurnýjun á búunum til viðbótar innanlandsstuðningi. 
 
Frændur vorir hafa tiltölulega einfaldar reglur í þessum efnum. Þeir greiða fastar upphæðir í styrki út á fyrirfram ákveðnar kröfur. Vilji viðkomandi bóndi ganga lengra en fasti stuðningurinn segir til um, þá greiðir bóndinn fyrir það úr eigin vasa. 
 
Um 2–10% styrkir eru greiddir á fermetra við endurbætur á básum í fjósum og stíum í svínabúum og hesthúsum. Síðan eru einskiptisstyrkir vegna endurnýjunar og nýbygginga upp á fastar upphæðir á fermetra. Er þá miðað við fyrirframgefnar kröfur um stíu- og básastærð.
 
Samkvæmt upplýsingum blaðsins  mun þó vera til í dæminu að bændur séu að fá allt að 10 þúsund evra styrki á hverja mjólkurkú vegna nýbygginga. Það er vissulega ótrúlega há tala, eða eins og hálft bílverð á meðalstórum bíl. Þetta hafa íslenskir ráðunautar þó fengið staðfest af kollegum sínum í Finnlandi.
 
 
Öflugt stuðningskerfi í Noregi
 
Í Noregi er víðtækt og flókið stuðningskerfi við landbúnað. Þar er misjafnt eftir landshlutum hvernig styrkjum er beitt og er það þá um leið hluti af byggðastefnu. Þá geta  hins ýmsu fylki Noregs líka beitt sértækum stuðningi við landbúnað á sínu svæði til viðbótar við almennu regluna. Er beitt margháttuðum styrkjum við ýmsar búgreinar til að viðhalda byggð í dreifbýlustu héruðunum. 
 
Offramleiðsla er á kjúklingakjöti og eggjum í Noregi um þessar mundir og því hefur verið dregið úr stuðningi til uppbyggingar í þeim greinum. Mestu styrkirnir eru aftur á móti til mjólkurframleiðenda og nautakjötsframleiðslu. Svipað gildir einnig varðandi kinda- og geitakjöt.
 
Varðandi mjólkurframleiðsluna er líka í gildi verðjöfnunarþáttur. Stuðningur til framleiðslu á kúa- og geitamjólk, er breytilegur.
 
Sér styrkur er einnig veittur ef menn vilja nýta húsdýraskít til gasframleiðslu. Þá er líkt og í sauðfjárræktinni á Íslandi stuðningur í gegnum gæðastýringu.
 
Stuðningur til eflingar landbúnaði og nýliðunar í Noregi 2016 í gegnum „Landbrukets utviklingsfond (LUF)“, nemur rúmum 1.440 milljónum norskra króna. Það samsvarar um 21,5 milljörðum íslenskra króna. Þar er stærstum styrkjum veitt til skógarnýtingar og til umhverfisvænnar landnýtingar og umhverfisvæns landbúnaðar af ýmsum toga. 
 
Styrkir eru veittir vegna dýravelferðar, m.a. ef fella þarf dýr vegna sjúkdóma eða af öðrum velferðar­ástæðum svo eitthvað sé nefnt.
 
 Hærra verð vegna afurða velferðarbúa í Þýskalandi
 
Í Þýskalandi hefur orðið nokkuð athyglisverð þróun varðandi kjúklingabændur samkvæmt þýska landbúnaðarráðuneytinu. Þar hafa stórmarkaðir tekið höndum saman við þá kjúklingabændur sem gera „velferðarsamning“. Er þeim greitt álag sem nemur 2 til allt að 3,6 evrusentum á hvert kílógramm fyrir sínar afurðir. Er það þá sett sem skilyrði að bændur sérmerki kjúklinginn frá býlum sem bætt hafa aðbúnað. 
Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...