Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Hröð útbreiðsla ofursýkla er farin að valda miklum áhyggjum um allan heim.
Hröð útbreiðsla ofursýkla er farin að valda miklum áhyggjum um allan heim.
Fréttaskýring 21. september 2021

Ótti við að sýklalyfjaónæmar bakteríur verði stærra vandamál en COVID-19

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna greindi frá því þann 24. ágúst að alþjóðlegur hópur leiðtoga um sýklalyfjaónæmi (The Global Leaders Group on Antimicrobial Resistance) hafi hvatt til þess að öll lönd dragi verulega úr notkun sýklalyfja í matvælaframleiðslu. Er þetta í takti við varnaðarorð og áhyggjur sem Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýklarannsóknardeild Landspítala, hefur haft uppi á Íslandi árum saman.

Baráttan gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería lýtur líka að fæðuörygismálum þjóða. Þar hefur verið bent á að einmitt þess vegna skipti afar miklu máli að Íslendingar geti haldið landinu hreinu. Þar höfum við haft mikla sérstöðu vegna lítillar notkunar sýklalyfja í íslenskum landbúnaði. Auk þess hefur ekki verið heimilt að nota sýklalyf á Íslandi sem vaxtarhvata í ræktun alifugla og nautgripa, eins og víða hefur verið stundað í stórum stíl. Þar er talað um að vart sé t.d. gerlegt að rækta nautgripi í verksmiðjubúum eða risastórum fóðrunarstöðvum án þess að gefa sýklalyf í fóðri í stórum stíl. Í Bandaríkjunum er talið að allt að 70% af allri sýklyfjanotkun fari fram í landbúnaði og jafnvel meira. Það er því augljóst að um hagsmunamál er að ræða fyrir lyfjaiðnaðinn.

Matvælainnflytjendur á Íslandi hafa samt löngum gert lítið úr varnaðarorðum um sýklalyfjanotkun í matvælaframleiðslu, t.d. í Evrópu. Ekki síst vegna innflutnings á fersku kjöti og jafnvel eggjum og mjólkurvörum. Ástæðulaust sé að hafa áhyggjur af innflutningi matvæla enda fari þau í gegnum strangt eftirlitskerfi ESB og fái þar heilbrigðisvottun. Þar hefur einnig verið lögð mikil áhersla á að þetta snúist ekki síst um frelsi í viðskiptum á alþjóðavísu. Þar megi engan skugga bera á.

Á móti hefur verið bent á að aðrar og veikari reglur gildi um sýklalyfja­notkun í Evrópu en á Íslandi. Þá er vísað til þess að heilbrigðisvottorð hafi gengið kaupum og sölum og því sé lítt á þau treystandi. Eins hafa heilbrigðisyfirvöld vaxandi áhyggjur af aukningu ofurbaktería sem þola öll venjuleg sýklalyf. Líka eru áhyggjur af fjölónæmum ofurbakteríum sem þola öll sterkustu lyf sem til eru, eða svonefnd lokaúrræðalyf. Það leiði aftur til þess að ekki er hægt að lækna fólk með slíkar sýkingar með hefðbundnum aðferðum, jafnvel þó þar sé einungis að kljást við meðhöndlun á annars sakleysislegum sárum.

Afleiðingin getur orðið skelfileg

Afleiðingin er vaxandi fjöldi dauðsfalla af völdum sýklalyfjaónæmra- og fjölónæmra baktería. Því sé mikilvægt að Íslendingar reyni af fremsta megni að forðast að sýklalyfjaónæmar bakteríur nái sér á strik hérlendis. Barátta við sýkingar af þeirra völdum muni verða gríðarlega kostnaðarsöm fyrir heilbrigðiskerfið. Er því spáð að kostnaðurinn af þessari baráttu muni nema 100 billjónum dollara (100.000.000.000.000) árið 2050 og kosta 10 milljónir mannslífa. Lágtekju- og millistéttalönd muni bera meginþungann af þessum áföllum.

Fréttir af vandamálum við meðhöndlun á ofurbakteríum hrannast upp frá sjúkrahúsum víða um heim. Þar hefur borið mest á fréttum frá Bandaríkjunum og Evrópu, en sambærilegar fréttir má lesa frá Íran, Ísrael, Egyptalandi og löndum um allan heim.

Nú þegar sýkjast milljónir árlega og tugir þúsunda láta lífið
Með tímanum leiðir ofnotkun sýklalyfja í fóðri dýra til þess að sýklarnir ávinna sér ónæmi fyrir lyfjunum. Því duga sýklalyf ekki lengur til að drepa þá þegar fólk sýkist af sýklalyfjaónæmum bakteríum.

Sýklar ávinna sér þol gegn sýklalyfjum með tímanum, venjulega með erfðabreytingum. Ofnotkun sýklalyfja hraðar mjög því ferli. Nær þrjár milljónir Bandaríkjamanna sýkjast nú á ári hverju vegna sýkla­lyfjaónæmra baktería (2,8 milljónir 2019). Af þeim látast um 35 þúsund manns, samkvæmt tölum Eftirlits- og sjúkdómavarnastofnunar Banda­ríkjanna, CDC (Centers for Disease Control and Prevention). Þessi tala hefur verið að hækka jafnt og þétt, en 23.000 manns dóu af þessum orsökum í Bandaríkjunum 2013. Tölurnar frá Evrópu eru af svipuðum toga. Í Evrópusambandinu er talið að kostnaðurinn vegna þessa sé þegar kominn í 1,5 milljarða evra á ári.

Þróun útbreiðslu baktería sýnir að þar verður gjarnan veldisvöxtur sem fljótlega getur orðið óviðráðanlegur. Nú velta heilbrigðisyfirvöld um allan heim því fyrir sér að sýklalyfjaónæmisfaraldur kunni að taka við þegar sljákkar í Covid-19 faraldrinum.

Læknar og sjúkrahús eru líka sek um ofnotkun sýklalyfja

Eftirlits- og sjúkdómavarnastofnun Bandaríkjanna) segir baráttuna við sýklalyfjaónæmar bakteríur stærstu heilsufarsáskorunina á okkar tímum. Þar er líka vísað til nýlegrar rannsóknar sem bendi til þess að læknar geti að hluta sjálfum sér um kennt vegna ofnotkunar sýklalyfja á sjúkrahúsum.

Ofnotkun sýklalyfja á sjúkrahúsum

Rannsóknin var birt í mars á þessu ári undir yfirskriftinni; Mat á því hvort sýklalyfjanotkun sé með viðeigandi hætti á bandarískum sjúkrahúsum. Þar var um að ræða þversniðsrannsókn á 1.566 sjúklingum á 192 sjúkrahúsum. Spurt var hversu hátt hlutfall af sýklalyfjanotkun sjúkrahúsa í Bandaríkjunum víkur frá ráðlögðum aðferðum, svo sem meðferðarvali eða lengd, á grundvelli sjúkraskráa?

Í niðurstöðum segir að 55,9% þessara 1.566 sjúklinga hefðu ekki átt að fá sýklalyf samkvæmt leiðbeiningum um starfshætti. Leiðbeiningarnar studdu hins vegar ekki að ávísa sýklalyfjum til 79,5% sjúklinga sem fengu meðferð vegna lungnabólgu og 76,8% sjúklinga sem fengu meðferð við þvagfærasýkingu. Þá benda niðurstöðurnar til þess að hægt sé að nota staðlað mat á sýklalyfjaávísunargæðum sjúkrahúsa til að áætla hvort sýklalyfjanotkun sé með ásættan­legum hætti á miklum fjölda sjúkrahúsa.

Tekið fyrir á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í New York 23. september

Í lok nóvember 2020 gaf Alþjóða- heilbrigðismálastofnunin (World Health Organization – WHO) út yfirlýsingu um hættuna sem stafar af ofnotkun sýklalyfja.

Tilkynning FAO í ágúst um hvatningu leiðtoganna um að dregið verði úr sýklalyfjanotkun á alþjóðavísu felur í sér að hætt verði notkun á læknisfræðilega mikilvægum örverueyðandi lyfjum til að stuðla að auknum vaxtarhraða hjá heilbrigðum dýrum. Þá beri að fara sparlega með notkun sýklalyfja í heildina.

Þessi áskorun er sett fram í aðdraganda að leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um matvæli sem haldinn verður í New York 23. september 2021. Þar munu fulltrúar aðildarþjóðanna ræða leiðir til að breyta matvælakerfum heimsins.

Fulltrúar frá 22 þjóðríkjum í GLG

Í Global Leaders Group on Antificrobial Resistance eru þjóðhöfðingjar, ráðherrar ríkisstjórna og leiðtogar frá einkageiranum og borgaralegu samfélagi frá 22 löndum. Hópurinn var stofnaður í nóvember 2020 til að flýta fyrir hnattrænni pólitískri ákvarðanatöku og aðgerðum gegn sýklalyfjaónæmi (Antimicrobial Resistance - AMR). Með sameiginlega formennsku í hópnum fara Mia Amor Mottley, forsætisráðherra Barbados, og Sheikh Hasina, forsætisráðherra Bangladess.

Eldi á nautgripum í risastórum fóðrunarstöðvum er vart talið fýsilegt nema með ótæpilegri sýklalyfjagjöf.

Krafa um að dregið verði verulega úr notkun sýklalyfja í matvælaframleiðslu

Að draga úr notkun sýklalyfja í matvælaframleiðslu er lykillinn að því að ná árangri. Í yfirlýsingu Global Leaders Group er hvatt til áræðinna aðgerða allra landa og leiðtoga þvert á starfsgreinar til að takast á við lyfjaónæmi. Forgangsverkefni til aðgerða er að fara sparlega með örverueyðandi lyf í matvælaframleiðslu og draga verulega úr notkun lyfja sem eru mikilvægust við meðhöndlun sjúkdóma hjá mönnum, dýrum og plöntum.

Helstu áherslur hópsins eru:
  • Hætta verði að nota sýklalyf sem eru mikilvæg fyrir lækningar á fólki til að auka vaxtarhraða dýra.
  • Takmarka magn sýklalyfja sem gefin eru til að koma í veg fyrir sýkingu hjá heilbrigðum dýrum og plöntum. Einnig að tryggt verði að öll slík notkun sé framkvæmd undir eftirliti.
  • Að útrýma eða minnka verulega lausasölu á sýklalyfjum sem eru mikilvæg í læknisfræði eða dýralækningum.
  • Minnka heildarnotkun sýklalyfja með því að bæta sýkinga- og smitvarnir, eftirlit, hreinlæti, líffræðilegt öryggi og bólusetningar í landbúnaði og fiskeldi.
  • Tryggja aðgang að ódýrum gæða-sýklalyfjum fyrir heilsu dýra og manna og stuðla að nýsköpun gagnreyndra og sjálfbærra valkosta við sýklalyf í matvælaframleiðslu.
Örveruvitundarvika haldin í nóvember

Samkomulagið um „Eflum vitund og stöðvum útbreiðslu“ verður þema vitundarviku ársins 2021 (2021 World Antimicrobial Awareness Week - WAAW). Hún verður haldin dagana 18.-24. nóvember af Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO), Alþjóðastofnun um dýraheilbrigði (OIE) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO), sem saman mynda þriggja stofnana kerfið AMR. Yfirgrips­mikið slagorð alþjóðlegrar örveru­vitundarviku er eins og áður „Sýklalyf meðhöndlist með varúð“.

Sýklalyfjaónæmar örverur finnast víða

Sýklalyfjaónæmar örverur finnast í fólki, dýrum, matvælum, plöntum og umhverfinu (í vatni, jarðvegi og lofti). Þær geta breiðst út frá manni til manns eða milli manna og dýra, þar með talið frá mat úr dýraríkinu.

Helstu drifkraftar sýkla­lyfja­ónæmis eru misnotkun og ofnotkun sýklalyfja; skortur á aðgangi að hreinu vatni, hreinlætisaðstöðu og hreinlæti bæði fyrir menn og dýr. Lélegum forvörnum gegn sjúkdómum og eftirliti á heilsugæslustöðvum og á sveitabæjum. Lélegu aðgengi að ódýrum gæðalyfjum, og bóluefnum. Vegna skorts á greiningu, meðvitund og þekkingu, sem og þegar lögum er ekki framfylgt.

Stefnir í hrikalegar afleiðingar fyrir heimsbyggðina

Þó að sagt sé að dregið hafi verulega úr notkun sýklalyfja í dýraeldi á heimsvísu, þá sagði í fréttum evrópsku lyfja­stofnunarinnar (European Medic­ines Agency - EMA) þann 30. júní síðastliðinn að þörf sé á að draga mun meira úr slíkri notkun.

„Án tafarlausra og rót­tækra­ aðgerða til að draga verulega úr sýklalyfjanotkun í matvælaframleiðslunni stefnir heimurinn hratt í átt að tímamótum þar sem sýklalyfin sem treysta á til að meðhöndla sýkingar hjá mönnum, dýrum og plöntum munu ekki lengur skila árangri.

Áhrifin á staðbundin heilbrigðis­kerfi, efnahag þjóða, matvælaöryggi og matvæla­framleiðslu á heimsvísu verða hrikaleg.“

Slagur sem við höfum ekki efni á að tapa

„Við getum ekki tekist á við hækkandi sýklalyfjaónæmi án þess að nota örveru­eyðandi lyf sparlega í öllum greinum,“ sagði Mia Amor Mottley, forsætis­ráð­herra Barba­dos, formaður Global Leader Group on Antificrobial Resistance.

„Heimurinn er í kapp­hlaupi gegn sýklalyfjaónæmi og það er sá slagur sem við höfum ekki efni á að tapa.“

Að draga úr notkun sýklalyfja í matkerfum hlýtur að vera forgangs­verkefni allra landa að mati Global Leaders Group.

„Notkun sýklalyfja á ábyrgari hátt í matvælaframleiðlsu þarf að vera forgangsverkefni allra landa,“ sagði Sheikh Hasina, forsætisráðherra Bangladess, meðstjórnandi sýkla­lyfjaónæmis.
„Sameiginlegar aðgerðir á milli ólíkra sviða samfélagsins eru mikilvægar til að vernda dýrmætustu lyfin okkar, öllum til hagsbóta, alls staðar.“

Neytendur velji aðeins vörur frá ábyrgum framleiðendum

FAO segir að neytendur í öllum löndum geti gegnt lykilhlutverki með því að velja matvörur frá framleiðendum sem nota sýklalyf á ábyrgan hátt. Einnig er brýn þörf á fjárfestingu til að þróa árangursríka valkosti við sýklalyfjanotkun í matvælum framleiðslu, svo sem bóluefni og önnur lyf.

Yfirvofandi heilsuhamfarir og banvænni en Covid-19

World Health Organization (WHO) og World Economic Forum vöruðu heimsbyggðina við ofnotkun sýklalyfja þann 20. nóvember á síðasta ári. Var það í tengslum við vakningarviku um notkun sýklalyfja á heimsvísu. Þar segir beinlínis í fyrirsögn:

„Yfirvofandi heilsuhamfarir sem gætu verið banvænni en Covid-19.“ – Síðan sagði:

  • Sýklalyfjaónæmi er ein af 10 helstu alþjóðlegu ógnunum við lýðheilsu, samkvæmt Alþjóða­heilbrigðis­málastofnuninni.
  • Áhætta skapast þegar bakteríur, veirur, sveppir og sníkjudýr breytast með tímanum og bregðast ekki við lyfjum sem ætlað er að drepa þau.
  • Ofnotkun lyfja – hjá mönnum og landbúnaði – hefur aukið vandann.
  • Sýklalyfjaónæmar sýkingar gætu valdið 10 milljónum dauðsfalla á ári fyrir árið 2050, samkvæmt yfirliti um sýklalyfja­ónæmi.
  • Alþjóðleg vika gegn sýklalyfjum miðar að því að stuðla að aðgerðum til að takmarka áhættuna.
  • Misnotkun sýklalyfja meðan á heimsfaraldri Covid-19 stendur getur flýtt fyrir ónæmi.

Alþjóða­heilbrigðis­málastofnunin hefur áður bent á að misnotkun og ofnotkun sýklalyfja séu helstu drifkraftar í þróun lyfjaónæmra sýkla. Einnig að skortur á hreinu vatni, hreinlætis­aðstöðu, ófullnægjandi forvarnir gegn sýkingum og eftirliti, stuðli að útbreiðslu örvera sem sumar geta verið ónæmar fyrir sýklalyfjameðferð. Þá segir WHO:

  • Kostnaður vegna ónæmra ör­vera fyrir hagkerfið er verulegur. Auk dauða og fötlunar hafa langvarandi veikindi í för með sér lengri legu á sjúkrahúsi, þörf fyrir dýrari lyf og fjárhagslegar áskoranir fyrir þá sem verða fyrir áhrifum.
  • Án áhrifaríkra örverueyðandi lyfja væri árangur nútíma lækninga í verulegri hættu við meðhöndlun sýkinga, þar með talið meðan á stórum skurðaðgerðum stendur og krabbameins­lyfjameðferð.

Með þessum aðvörunum reynir Alþjóða­heilbrigðis­málastofnunin að auka meðvitund heimsbyggðarinnar gagnvart alvarleika málsins ásamt World Anti­microbial Awareness Week.

Ofurbakteríur gera COVID-19 hjákátlegt

„Þú hefur sennilega heyrt um ofurbakteríur, en vissirðu að þær eru ein stærsta ógnin við lýðheilsu á heimsvísu? Þessir lyfjaónæmu bakteríur geta drepið milljónir manna á hverju ári og valið heilsutjóni sem gæti hugsanlega gerir baráttuna við COVID-19 hjákátlega,“ segir í ábendingu GLG.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...