Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Samþjöppunin í fiskvinnslunni
Fréttaskýring 1. apríl 2022

Samþjöppunin í fiskvinnslunni

Höfundur: Guðjón Einarsson

Umræðan um samþjöppun og hagræðingu í íslenskum sjávar­útvegi á síðustu árum og áratug­um hefur einkum snúist um fiskiskipaflotann, en þessi þróun er ekki síður afgerandi í fiskiðn­aðinum.

Í fiskvinnslugeiranum er sam­þjöppunin mest áberandi í vinnslu uppsjávarfisks. Þeim stöðum á landinu þar sem starfræktar eru fiskimjöls- og lýsisverksmiðjur hefur fækkað úr nítján árið 1992 í níu árið 2019 og á þeim fimm stöðum þar sem mest er unnið eru framleidd 88% af öllu lýsi og mjöli.

Færri og stærri uppsjávarfrystihús

Söltun á síld hefur nær lagst af og er nú eingöngu stunduð hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði, en þess í stað hefur framleiðsla á frystum uppsjávarafurðum aukist verulega. Jafnframt hefur fækkað þeim frystihúsum sem vinna þessar afurðir. Árið 1992 voru þau á 28 stöðum á landinu en á 17 stöðum árið 2019. Frystihús á fimm stöðum framleiða langmest af frystu uppsjávarafurðunum.

Þessar upplýsingar er að finna í skýrslunni „Staða og horfur í íslensk­um sjávarútvegi og fiskeldi“, sem atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytið lét taka saman á síðasta ári. Hér á eftir verða áfram raktar upplýsingar úr þessari skýrslu.

Saltfiskvinnslum fækkar

Enda þótt fyrirtækjum sem vinna frystar botnfiskafurðir hafi ekki fækkað mikið hefur átt sér stað mikil samþjöppun í vinnslu. Á þeim 10 stöðum þar sem mest er verkað eru nú framleiddir þrír fjórðu af öllum botnfiskafurðum landsmanna.

Saltfiskverkunarhúsum hefur bæði fækkað og hlutur þeirra stærstu orðið stærri. Þau voru á 49 stöðum árið 1999 en á 26 stöðum árið 2019 og hlutur 10 stærstu staðanna farið úr 70% í 90%. Söltun hefur dregist mikið saman á þessu tímabili. Árið 1999 voru t.d. 112 þúsund tonn af þorski unnin í saltfisk, en árið 2019 hafði magnið minnkað í 41 þúsund tonn. Aftur á móti hefur vinnsla á léttsöltuðum fiski aukist en hann er fluttur út sem lausfryst vara.

Aukin áhersla á ferskfiskvinnslu

Önnur mikilvæg breyting er stóraukin framleiðsla á ferskum flökum og flakabitum sem eru verðmætasti hluti þorskafurða. Jafnframt hefur dregið úr flutningskostnaði þessarar vöru. Fyrir 20 árum var nær ekkert flutt út af ferskum þorskflökum og bitum með skipum heldur einungis með flugi. Framfarir í flutningstækni og bætt geymsluþol hefur opnað möguleika á skipaflutningum. Nú er svo komið að jafnmikið er flutt út af ferskum afurðum með skipum og með flugvélum.

Staðsetning fiskvinnslufyrirtækja

Fyrirtæki sem selja ferskar unnar fiskafurðir með flugi eða skipum eða óunninn fisk með gámum til útlanda hafa ótvíræðan hag af því að staðsetja sig nálægt flugvöllum eða höfnum.

Árið 2019 voru 34% af öllum botnfiski sem seldur var ferskur með flugi unninn af fiskvinnslum sem staðsettar voru á höfuðborgarsvæðinu og fyrirtæki á Suðurnesjum seldu 22%. Þessi fyrirtæki eru bæði staðsett nálægt stærsta millilandaflugvelli og stærstu höfn landsins. Við Eyjafjörð eru fyrirtæki sem seldu 24% af öllum ferskum fiskafurðum og fluttu þær beint í skip í millilandahöfnum á Norðurlandi, Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu, eða í flug á Keflavíkurflugvelli.

Samdráttur í sjófrystingu

Samfara aukinni framleiðslu á ferskum fiskafurðum hefur orðið verulegur samdráttur í frystingu á sjó. Sjófrysting var árið 2019 komin niður í 23% af heildarbotnfiskaflanum en var 32% árið 2010.

Frystitogurum hefur fækkað, sér í lagi þeim sem veiða þorsk. Samdráttinn í sjófrystingunni má að hluta rekja þess hve landvinnslan hefur þróast hratt með aukinni tæknivæðingu. Nýting á aflanum er mun betri í landvinnslu þótt þyngst vegi þó trúlega hár launakostnaður og hátt veiðigjald á sjófrystar afurðir, að því er segir í skýrslunni.

Bent er á að framleiðsla á verðmætari afurðum í landi hafi einnig náð lengra með aukinni sjálfvirkni. Erfitt sé að koma við hátæknivinnslu hliðarhráefnis um borð í skipi og því ekki hægt að nýta lifur, hrogn, roð, hausa, hryggi, afskurð, maga og innyfli til framleiðslu á niðursoðnum afurðum, lýsisafurðum, snyrtivörum, lyfjum, ensímum, bragðefnum og fæðu­bótar­efnum, svo dæmi séu nefnd.

Krosseignarhald

Meðal stærstu sjávarútvegs­fyrir­tækja landsins er mikil fjölbreytni, bæði hvað varðar áherslur í starf-
semi og hve stóran hluta virðiskeðjunnar þau ráða yfir. Bent er á í skýrslunni að mörg dæmi séu um krosseignarhald milli stærri og minni fyrirtækja sem auki sveiflujöfnun. Fyrirtæki sem sérhæfi sig annars vegar í botnfiskveiðum og -vinnslu og önnur sem sérhæfi sig í uppsjávarveiðum og -vinnslu eigi hvort í öðru. Slíkt stuðli að stöðugleika í rekstri og dragi úr fjárhagslegri og rekstrarlegri áhættu.

Auk þess hafi efnahagslegur styrkur stærstu fyrirtækjanna gert þeim kleift að ekki aðeins kaupa, heldur einnig taka þátt í að þróa nýjustu tækni í veiðum og vinnslu í samvinnu við innlend tækni- og rannsóknafyrirtæki.

Fækkun starfa í fiskvinnslu

Samfara fækkun og stækkun fiskvinnslu­húsa og síaukinni tækni­væðingu hefur störfum í fiskvinnslu fækkað um helming á síðustu fjórum áratugum. Árið 1982 voru ársverkin 9.800. Árið 2014 voru þau tæplega 6.000 og árið 2019 komin niður
í 5.000.

Í nefndri skýrslu segir að þróun­in allra síðustu árin eigi sér tvær meginskýringar. Annars vegar hafi sjálfvirkni og aukin vél- og tæknivæðing í stærstu fiskvinnslu­húsunum hugsanlega fækkað atvinnu-
tækifærum og hins vegar hafi aukinn útflutningur á óunnum fiski minnkað eftirspurn eftir vinnuafli.

Fiskvinnslan ekki á leið úr landi

Það er mat skýrsluhöfunda að enda þótt einstaka vinnslugreinar geti átt í erfiðleikum með að standast erlenda samkeppni sé samt ekki ástæða til þess að óttast að fiskvinnsla flytjist í stórum stíl til útlanda.
Til þess sé samkeppnisstaða stóru íslensku fyrirtækjanna einfaldlega of sterk. Lítil ástæða sé því til að halda að útflutningur hérlendis þróist með svipuðum hætti og í Noregi þar sem útflutningur á óunnum þorski var um 51% árið 2020.

Heimild:
Staða og horfur í íslenskum sjávarútegi og fiskeldi. Höfundar: Sveinn Agnarsson prófessor, Sigurjón Arason prófessor,
dr. Hörður G. Kristinsson og
dr. Gunnar Haraldsson.

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver
Fréttaskýring 30. desember 2024

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver

Stefnt er að stofnun rekstrarfélags á næstunni utan um starfsemi á lífgas- og áb...

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...