Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Blágrænir innviðir kalla á að við leiðum regnvatnið niður í jarðveginn, eins nálægt þeim stað og það fellur. Yfirborð skal vera eins gegndræpt og kostur er. Fundnir eru farvegir og svæði á yfirborði fyrir ofanvatnið sem geta verið aðlaðandi gróðurgeirar. Vatnið rennur þá á öruggum svæðum. Þetta þýðir aukna notkun á gróðri og grænum svæðum innan lóða og í almenningsrýmum. Regnvatninu er þannig beint niður af t.d. grænum húsþökum í regnbeð og svelgi. Ofanvatni af götum er veitt í græna geira, regnbeð og trjábeð meðfram þeim. Þegar rigningarákefðin er mikil fer yfirfall í lautir meðan það seytlar niður í jarðveginn. Loftmynd úr Urriðaholtinu, sem sýnir leiksvæði, lóðir og stíga, gróðursæl svæði og þök, sem urðu fleiri en ella hefði orðið, vegna innleiðingar blágrænna ofanvatnslausna þar.
Blágrænir innviðir kalla á að við leiðum regnvatnið niður í jarðveginn, eins nálægt þeim stað og það fellur. Yfirborð skal vera eins gegndræpt og kostur er. Fundnir eru farvegir og svæði á yfirborði fyrir ofanvatnið sem geta verið aðlaðandi gróðurgeirar. Vatnið rennur þá á öruggum svæðum. Þetta þýðir aukna notkun á gróðri og grænum svæðum innan lóða og í almenningsrýmum. Regnvatninu er þannig beint niður af t.d. grænum húsþökum í regnbeð og svelgi. Ofanvatni af götum er veitt í græna geira, regnbeð og trjábeð meðfram þeim. Þegar rigningarákefðin er mikil fer yfirfall í lautir meðan það seytlar niður í jarðveginn. Loftmynd úr Urriðaholtinu, sem sýnir leiksvæði, lóðir og stíga, gróðursæl svæði og þök, sem urðu fleiri en ella hefði orðið, vegna innleiðingar blágrænna ofanvatnslausna þar.
Mynd / Alta
Fréttaskýring 30. júní 2023

Smærri sveitarfélög í dauðafæri við innleiðingu blágrænna innviða

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Blágrænir innviðir gætu létt á fráveitukerfum og búið til áhugavert grænt þéttbýlisumhverfi. Hugsanlega munu smærri sveitarfélög þurfa að lúta strangari reglum um fráveitur innan tíðar og því er ekki seinna vænna en að huga heildstætt að þeim framkvæmdum sem fylgja slíku regluverki. Ofanvatnslausnir munu spila þar lykilhlutverk.

Blágræn ofanvatnslausn í Malmö.

Fráveitur eru skilgreindar sem öll þau mannvirki sem reist eru til meðhöndlunar, flutnings eða hreinsunar á skólpi. Kerfið flytur frárennsli frá heimilum, stofnunum, fyrirtækjum sem og ofanvatn af yfirborði og götum. Kerfið safnar því saman, hreinsar í einhverjum tilfellum, áður en því er svo hleypt út í viðtaka sem í flestum tilfellum hér á landi er sjór, en getur einnig verið vatn eða á.

Loftslagsbreytingar munu hafa áhrif á veðurfar á Íslandi. Talið er að úrkoma muni aukast um að minnsta kosti 1,5% fyrir hverja gráðu sem hlýnar. Vísbendingar eru um að úrkomuákefð geti aukist enn frekar og rigningar muni verða æ algengari.

Vatn sem fellur í þéttbýli er vanalega leitt burt úr byggð í fráveiturörum. Slíkt ofanvatn, sem hefur til að mynda fallið á umferðargötu, inniheldur mengun og er m.a. talin ein algeng uppspretta örplasts. Því þéttara sem yfirborð hins manngerða svæðis er því hærra hlutfall ofanvatns endar í fráveitukerfum.

Hlöðver Stefán Þorgeirsson.

Í erindi sínu á fræðslufundi um fráveitumál á Vesturlandi, sem haldinn var á Hótel Stykkishólmi þann 25. maí sl., sagði Hlöðver Stefán Þorgeirsson, sérfræðingur vatns- og fráveitu Veitna, að víðast hvar um land séu til staðar vatnsveitur sem anna eftirspurn samfélagsins öllum stundum. Öðru máli gegnir um fráveitur og þá sérstaklega þar sem byggðir búa við svokölluð blönduð fráveitukerfi, þar sem skólp og regnvatn renna um sama lagnakerfi. Slíkt fyrirkomulag var meginreglan við uppbyggingu fráveitukerfa fram yfir miðja 20. öld og búum við því við hundruð kílómetra af slíkum lagnakerfum víða um land.

„Lagnirnar eru opnar fyrir því að taka regnvatnið inn í niðurföll og má þá segja að almættið, með sínum úrhellisrigningum, bætist í hóp þjónustuþegna. Tímabundið álag á kerfið getur verið margfalt á við þurrviðrisálag og engin leið er að hanna og byggja kerfi sem ráða við slíkt.“

Til þess að svo gæti orðið þyrftu flutningskerfi og hreinsistöðvar annaðhvort að vera tröllaukin og kostnaðarsöm mannvirki – eða að samfélagið yrði að sætta sig við að losað sé óhreinsað skólp með reglulegu millibili samhliða úrkomutoppum líkt og algengt er á svæðum sem búa við blandkerfi og ráðist hefur verið í uppbyggingu skólphreinsunar.

Þó hreinsistöðvar séu til staðar og þær hannaðar til að afkasta miðað við fjölda notenda, svokallaðra persónueininga, þá gera þær sem sagt ekki ráð fyrir gífurlegu magni rigningar. Bygging og viðhald fráveitukerfa eru kostnaðarsamar aðgerðir sem sveitarfélög bera ábyrgð á. Skiljanlega óar þeim yfir hugmyndum um stórtækar fjárfestingar og framkvæmdir og hafa hugmyndum um blágræna innviði því verið tekið fagnandi. Því þeim fylgir oftar en ekki minni kostnaður og umstang en stækkun leiðslulagna og uppsetning hreinsistöðva með öllu tilheyrandi.

Í umræðum framsögumanna á fyrrnefndum fræðslufundi kom enda fram að smærri sveitarfélög væru núna í dauðafæri við innleiðingu blágrænna innviða, þeim til hagræðingar, fráveitukerfum til frelsunar og umhverfinu til hagsbóta.

Halldóra Hreggviðsdóttir.

Blágrænar lausnir

Halldóra Hreggviðsdóttir, framkvæmdastjóri ráðgjafarfyrirtækisins Alta, er manna kunnust um náttúruvænar lausnir – þar með talið blágræna innviði.

„Blágrænir innviðir eru nýjar og spennandi leiðir við að skipuleggja gróðursælli og umhverfisvænni byggð, græn bylting í raun. Það er verið að breyta því hvernig við förum með regnvatnið sem fellur í byggðina okkar, á fagmáli kallað ofanvatn, Þar sem við nýtum blágræna innviði í staðinn – stundum kallaðar blágrænar ofanvatnslausnir.

Blágrænir innviðir nota leiðir náttúrunnar. Við leiðum regnvatnið niður í jarðveginn og nýtum það og njótum í byggðinni á öruggan hátt. Með því að gera því kleift að síga niður í jarðveginn eins nálægt þeim stað sem það fellur hugum við að öllu lífi, hvort sem er plantna, dýra eða okkar sjálfra, auk þess sem við auðgum umhverfi okkar.

Við nýtum þjónustu vistkerfanna. Plöntur, vatn og jarðvegur draga í sig vatnið, hluti þess sígur niður í jarðveginn og grunnvatnið. Jarðvegurinn síar set og mengunarefni úr vatninu.

Þetta er „win-win“ því jarðvegur og gróður hreinsar regnvatnið, hann er ótrúlega seigur við að brjóta niður mengunarefni og hreinsa mengunina af götum og bílum, plastagnir, olíu og fleira.

Blágrænir innviðir vinna með hringrás vatnsins. Við reynum að breyta henni eins lítið og kostur er. Leyfum vatninu að leika um jarðveg og gróður sem hreinsar. Breytingin er ótrúleg og í raun einföld en leiðir til grænni og heilsusamlegri bæja,“ segir Halldóra.

Innleiðing slíkra innviða er einföld að sögn Halldóru en hún segir þó mikilvægt að sveitarstjórnir móti langtímasýn í skipulags- og veitumálum og að sýnin birtist í skipulagsáætlunum.

Grundarfjörður

Í Grundarfirði hefur verið hafist handa við að umbreyta og endurnýja götur, gangsvæði, göngutengingar og almenningsrými, þar sem kominn var tími á viðhald, endurnýjun og endurbætur. Blágrænar ofanvatns- lausnir eru nýttar samhliða þessum framkvæmdum og þannig unnið í haginn hvað fráveitumálin snertir.

Björg Ágústsdóttir.

Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar, hélt erindi á fyrrnefndum fræðslufundi þar sem hún kynnti verkefni bæjarins samkvæmt stefnu aðalskipulags 2019–2039 en ráðgjafarfyrirtækið Alta aðstoðaði bæinn við skipulagsgerðina og innleiðingu.

„Mjög víða í smærri bæjarfélögum, eins og hjá okkur, er ekki búið að tengja útrásir og setja upp hreinsistöð fyrir fráveitu. Við erum með einfalt holræsakerfi, sem þýðir að bæði skólp og regnvatn fer í sömu rásina, sömu lagnirnar. Allt sem við gerum núna, til að minnka ofanvatnið, regnvatn, sem fer í lagnirnar, það léttir á og einfaldar allt sem við þurfum að gera þegar kemur að því að vinna með skólpið og hreinsun þess í framtíðinni,“ segir Björg

Í tilfelli Grundarfjarðarbæjar voru endurbætur á gangstéttum orðnar tímabærar og því var þeim í lófa lagt að innleiða blágrænar lausnir við hönnun þeirra. Stefnan er að koma ofanvatni niður í jörð sem næst þeim stað sem það fellur. Það er gert með því að fjölga náttúrulegum viðtökum og fjölga gegndræpum svæðum.

Með þessu er einnig verið að nýta hæfileika jarðvegs til að sía mengunarefni úr vatninu.

Í erindi sínu á fræðslufundinum sagði Björg að bærinn vildi fjárfesta í grænum innviðum á yfirborði, sem hefði ýmsan aukalegan ávinning samhliða, í stað þess að þurfa í framtíðinni að stækka lagnakerfið neðanjarðar og eiga við flóknari hreinsun síðar meir.

Framkvæmdir í Grundarfirði beinast að götum, göngusvæðum og göngutengingum eða aðgengi. Götur eru almennt breiðar og því tækifæri til að nýta göturýmið vel, breikka göngusvæði og fleira. Nú er í vinnslu að bæta við gróðursvæðum sem taka við regnvatni á tveimur breiðum aðalgötum bæjarins. Geta slík græn svæði þjónað sem svelgir sem taka við regnvatni og létta þar með á holræsakerfum bæjarins.

Björg Ágústsdóttir.
Framkvæmdirnar í Grundarfirði beinast að götum, göngusvæðum og almenningsrýmum.

Smærri og stærri birtingarmyndir

Fleiri dæmi eru um innleiðingu blágrænna innviða hér á landi.

Nýlegt hverfi Urriðaholts í Garðabæ er hannað og skipulagt með vistvænum áherslum, þar sem hugað er að flæði vatnsins niður hverfið með slíkum lausnum til verndar Urriðavatni, því vitað er að vatnsborð myndi lækka til muna ef vatninu hefði verið veitt úr hverfinu með fráveitu. Urriðaholt er fyrsta umhverfisvottaða hverfi Íslands.

Smærri framkvæmdir eru líka mögulegar. Við Óðinsgötu og Týsgötu í Reykjavík hafa verið sett gróðurbeð kringum niðurföll sem grípa úrkomu og tempra afrennsli þess niður í fráveitukerfið. Einnig þjóna grænhúsþök tilgangi við að taka við úrkomu í stað þess að veita úrkomu beint í rennur. Þá er algengt að það ofanvatn sem fellur á þjóðvegi landsins rati á gegndræpan malarbratta og þannig geta blágrænar ofanvatnslausnir birst nokkuð hversdagslega í hinu manngerða umhverfi.

Tækifæri smærri byggða

Fyrir liggur endurskoðun tilskipunar um fráveitumál hjá Evrópuþinginu en Ísland hefur innleitt fyrri tilskipun um málið að mestu leyti, þó töluvert vanti enn upp á framkvæmd hennar. Í dag falla 28 sveitarfélög undir tilskipunina og þurfa þau að mæta tilteknum kröfum um fráveitu, þegar kemur að hreinsun skólps, útrásum og eftirlitsmælingar og vöktun verða að vera til staðar. Samkvæmt Stöðuskýrslu fráveitumála 2020 sem Umhverfisstofnun gefur út á tveggja ára fresti uppfyllti aðeins eitt af þessum 28 sveitarfélögum allar kröfur.

Ef nýja tilskipunin verður samþykkt óbreytt munu fleiri sveitarfélög lúta strangari reglum um hreinleika yfirborðs- og grunnvatns og meðferð og hreinsun skólps frá þéttbýli. Bíður því lítilla sveitarfélaga kostnaðarsamar fjárfestingar, ef af verður.

Hlöðver Stefán bendir þó á að fyrirséðar áskoranir bíði minni þéttbýliskjarna felist í þeim spennandi tækifæri.

„Litlar byggðir gætu frelsað skólpkerfin undan ofanvatnsálaginu og búið til áhugaverðara bæjarumhverfi um leið. Þannig yrðu gamlar fjárfestingar varðveittar, með því að fjarlægja úr fráveitukerfinu úrkomutoppana. Við erum vön að vistkerfi þéttbýlis séu einsleit. En ef þú getur séð það sem jákvætt að blanda inn vistkerfum þar sem vatn er til staðar þá getur bærinn einnig verið að búa sér til ákveðna sérstöðu. Þá gæti jafnframt þessi stóri biti, fjárfesting í skólphreinsun, orðið viðráðanlegri því þá þarf ekki að stærðarákvarða mannvirki miðað við úrkomutoppa,“ segir Hlöðver.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...