Sýnd veiði en ekki gefin
Miklar vonir eru bundnar við að yfirstandandi loðnuvertíð verði gjöful enda er útgefinn kvóti sá stærsti í 20 ár. Áætlað hefur verið að útflutningsverðmæti loðnuafurða gæti numið á bilinu 60-70 milljarðar króna. Þessir peningar eru þó hreint ekki í hendi því árangurinn veltur á veðurfari á miðunum, afkastagetu vinnslufyrirtækjanna í landi og ástandi á mörkuðum.
Útgefinn loðnukvóti til Íslendinga á þessari vertíð er 662 þúsund tonn sem er næstum tíu sinnum meira en kvótinn á síðustu vertíð. Á árinu 2021 nam útflutningsverðmæti loðnuafurða samtals um 24 milljörðum króna (sjá töflu). Vegna þess hve aflinn var takmarkaður (um 70 þúsund tonn) tókst að ráðstafa megninu af honum í framleiðslu heilfrystrar loðnu og loðnuhrogna sem gefa mest verðmæti en mjög litlu var landað til bræðslu í fiskimjöl og lýsi, ef frá er talið frákast frá hrognatöku. Lítið framboð af loðnuafurðum á heimsvísu hafði líka hagstæð áhrif á verðþróun á markaði. Verð var í hæstu hæðum á hrognaloðnu og loðnuhrognum bæði í Asíu og Austur-Evrópu.
Tíðarfarið ræður úrslitum
Nú horfir dæmið öðruvísi við. Framleiðendur þurfa að sætta sig við að aukið framboð leiði til verðlækkana. Jafnframt er hreint ekki gefið að fiskimjölsverksmiðjurnar hafi undan að vinna þann afla sem kemur að landi. Á það reyndi fyrir skemmstu þegar Börkur NK, skip Síldarvinnslunnar, var sendur til Noregs með 3.000 tonna loðnuafla vegna löndunarbiðar á Íslandi, svo dæmi sé tekið.
Eins og ávallt veltur velgengni á vertíðinni fyrst og fremst á því hvernig viðrar, ekki síst á þeim tiltölulega skamma tíma þegar hrognaloðnan er verðmætust og þegar hrognatakan getur farið fram, en einnig þurfa veiðar í bræðslu að geta átt sér stað jafnt og þétt án teljandi tafa svo ekki myndist langvarandi löndunarbið.
Lokun Rússlandsmarkaðar mikill skellur
Rússland var langstærsti einstaki markaðurinn fyrir frysta loðnu áður en Rússar ákváðu að loka honum fyrir þeim löndum sem tóku þátt í efnahagslegum refsiaðgerðum gegn þeim vegna Úkraínudeilunnar. Ísland var þeirra á meðal.
Síðustu tvö árin fyrir lokunina, eða árin 2014 og 2015, fór um helmingur af útflutningi heilfrystrar loðnu Íslendinga til Rússlands, eða tæp 27 þúsund tonn fyrra árið og 22 þúsund tonn seinna árið. Síðan ekki söguna meir.
„Lokun Rússlandsmarkaðar var mikill skellur fyrir okkur. Undir venjulegum kringumstæðum værum við núna að frysta í öllum vinnslustöðvum fyrir Rússland, því á þessum tíma er loðnan feitust og best fyrir þann markað, en það er nánast engin frysting í gangi,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.
Hrognamarkaðurinn einnig mikilvægur
Fram kom í máli hans að rússneskumælandi lönd hafi einnig verið stærsti einstaki markaðurinn fyrir loðnuhrogn. Hrognamarkaðurinn þar eystra hefði verið byggður upp af fyrirtæki í Hvíta-Rússlandi, Santa Bremur, sem byrjaði að kaupa loðnuhrogn í tilraunaskyni árið 2003 og var þetta orðinn 6.000 tonna markaður áður en Rússar skelltu í lás.
Þrátt fyrir lokun Rússlandsmarkaðar hefur sala til annarra rússneskumælandi landa á heilfrystri loðnu og loðnuhrognum haldið áfram en markaðurinn í heild í þessum heimshluta er verulega laskaður. Að frágengnu Rússlandi eru Úkraína og Hvíta-Rússland aðalmarkaðslöndin af ríkjum fyrrum Sovétríkjanna en ólga er í stjórmála- og efnahagslífi þessara landa sem áhrif hefur á viðskipti. Japan er áfram tryggur kaupandi loðnuafurða af hæstu gæðum og aukin sala er á loðnu til vinnslu í Kína en þær afurðir fara svo að mestu leyti til sölu í Japan.
Framleiðslan bundin við fjögur lönd
Aðeins fjögur lönd í heiminum framleiða heilfrysta loðnu, Ísland, Noregur og Kanada og Færeyjar að takmörkuðu leyti. Á meðfylgjandi súluriti má sjá að heildarframboðið hefur farið hraðminnkandi undanfarin ár, eða úr rúmlega 190 þúsund tonnum árið 2013 í 10 þúsund tonn árið 2020. Hluti af skýringunni er auðvitað sá að loðnuveiðibann hefur ríkt í Barentshafi árum saman og sömuleiðis var samdráttur í kvóta við Ísland og svo veiðibann um tveggja ára skeið. Þrengingar á loðnumörkuðum með lokun Rússlandsmarkaðar hafa þó ekki síður vegið þungt því eins og sannaðist á síðasta ári er hægt að gera mikil verðmæti úr litlum kvóta.
Minnkuð afkastageta í fiskimjölsvinnslu
Sú spurning vaknar hvers vegna vafi ríkir á því að það takist á veiða allan loðnukvótann að þessu sinni í ljósi þess að afli Íslendinga hefur fyrr á árum oft verið umtalsvert meiri en nú er heimilt að veiða, jafnvel um og yfir milljón tonn.
Gunnþór Ingason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, svarar því til að afkastageta íslenskra fiskimjölsverksmiðja hafi frá árinu 2003 minnkað úr 16-17 þúsund tonnum á dag í 11-12 þúsund tonn á dag. Fjölmargar verksmiðjur hafa verið lagðar niður, í Helguvík, Bolungarvík Siglufirði, Eyjafirði, Raufarhöfn, Reyðarfirði, Djúpavogi og Þorlákshöfn.
Ekki reiknað með risavertíðum
„Aflinn hefur farið minnkandi síðustu ár. Við erum með nýja aflareglu í loðnu þar sem ekki er reiknað með risavertíðum eins og áður og meiri jafnstöðuafla. Menn hafa verið að aðlaga sig að því og ekkert sem réttlætir risa umframafkastagetu til þess að ná einhverjum toppi. Svo má ekki gleyma því að þegar aflinn var hvað mestur var einnig veitt á sumrin og fram á haust þannig að aflinn dreifðist á miklu lengri tíma en síðar varð,“ sagði Gunnþór.
Núna hófst veiðin í desember síðastliðnum og hafa skipin þurft að hafa mikið fyrir henni, en Gunnþór segist samt enn þá vongóður um að kvótinn náist.
Í upphafi þessarar viku var búið að veiða 179 þúsund tonn af loðnu á vertíðinni. Það er 27% af útgefnum kvóta upp á 662 þúsund tonn.