Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Það er kúkur á hreinleikaímynd Íslendinga
Fréttaskýring 12. maí 2021

Það er kúkur á hreinleikaímynd Íslendinga

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Íslendingar eru sannarlega með allt niður um sig í skólphreins­unarmálum. Hér á landi er ekki starfrækt ein einasta skolp­hreinsisstöð á vegum sveitar­félaga sem sinnir alvöru þriggja-, hvað þá fjögurra þrepa skolphreinsun, líkt og þekkist víða um lönd þar sem litið er á umhverfi og vatn sem mikilvæg verðmæti.

Þetta kemur m.a. fram í gögnum sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið vísaði í vegna fyrirspurnar Bændablaðsins um stöðu þessara mála á Íslandi.

Umhverfisstofnun gaf út skýrslu um stöðu skólpmála fyrir árið 2018 núna um áramótin og byggir hún á stöðunni hjá 28 stærstu þéttbýlunum, eða þeim sem eru að losa meira en 2.000 „persónueiningar“ af skólpi á ári. Já „persónueiningar,“ það er sannarlega ekki dónalegt stofnanaorðið sem búið hefur verið til um kúk og piss, klósettpappír og annað góðgæti sem sturtað er niður í klósett landsmanna.

Í svari umhverfisráðuneytisins er reyndar líka tekið fram að Umhverfisstofnun sé að vinna í gerð gagnagáttar fyrir skil á fráveitugögnum frá heilbrigðiseftirlitum og sveitarfélögum og mun verða hægt að skoða þau gögn í framtíðinni í kortasjá https://kortasja.ust.is/mapview/. Í dag eru aðeins komnar hráar upplýsingar um staðsetningu hreinsistöðva og útrása byggt á gögnum frá þessum 28 þéttbýlum. Það á þó eftir að rýna þau gögn og bæta við upplýsingum. 

Skýrsla Umhverfisstofnunar var gefin út í desember 2020 og heitir „Stöðuskýrsla í fráveitumálum 2018“. Skýrsla þessi er unnin í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp fyrir samantekt gagna um stöðu fráveitumála á tveggja ára fresti. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að skýrslan á að sýna stöðuna 2018, en var svo tvö ár í vinnslu þar til hún var birt. Því er vart við því að búast en að staðan í fráveitumálum 2020 verði birt fyrr en í árslok 2022. Í skýrslunni segir m.a. í inngangi: 

Lítið hefur breyst síðan 2010

 „Helstu niðurstöður skýrslunnar eru þær að lítið hefur breyst í stöðu fráveitumála hjá sveitarfélögum síðan 2014 og í raun síðan 2010. Alls voru um 74% íbúa með einhvers konar hreinsun árið 2014 en það hlutfall var orðið 76% árið 2018. Ef tekið er mið af þróuninni frá árinu 2010 til 2018 eru breytingar afar hægar í áttina að því að sveitarfélög uppfylli að fullu kröfur um hreinsun skólps. Þegar fráveituvatn er hreinsað þarf einnig að fylgjast með árangri hreinsunarinnar með mælingum og ástandi viðtaka. Skortur er á að slíkt sé framkvæmt í samræmi við kröfur reglugerðarinnar. Auk þess er kominn tími á endurskoðun á skilgreiningum fyrir síður viðkvæma viðtaka.

Áhersla á endurnýtingu á seyru er að aukast en um það bil helmingur af þeirri seyru sem safnaðist árið 2018 var endurnýttur. Með fjárstuðningi ríkisins við sveitarfélög vegna fráveituframkvæmda, sbr. breytingu á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, eru líkur á að meiri hreyfing verði á málaflokknum sem leiði til aukinnar hreinsunar. Þá verður unnið að því í tengslum við vatnaáætlun að sveitarfélög vinni að úrbótum á hreinsun fráveituvatns og uppfylli ákvæði reglugerðar um fráveitur og skólp.“

Engin áætlun til um innleiðingu á aukinni hreinsun! 

Með hliðsjón af skuldbindingum Íslands og þeim samningum sem íslensk stjórnvöld hafa undirritað í gegnum tíðina er staðan hreint út sagt ömurleg. Í svari ráðuneytisins við erindi Bændablaðsins segir:

„Áætlun um innleiðingu á aukinni hreinsun er ekki til sem slík en það má segja að með styrkveitingu ríkisstjórnarinnar er verið að bæði þrýsta á sveitarfélög um að hreinsa skólp og aðstoða þau við framkvæmdina. Í ár hefur ríkisstjórnin sett einn milljarð í það verkefni.“

Ef menn líta til nágrannalandanna er alveg ljóst að Íslendingar eru ekki að standa sig vel í þessum málum. Í Noregi eru t.d. reglur um að bannað sé að losa skolp út í hafið nær landi en 300 metrum frá strönd. Sveitarfélögum er samt heimilt að setja strangari reglur. Þannig hefur sveitarfélagið Nesodden t.d. hreinlega bannað losun óhreinsaðs skólps í hafið.

Margt sagt vera í gangi 

Ekki er staðan þó alveg svo slæm að ekki sé verið að gera neitt í þessum efnum hér á Íslandi, en varla er samt hægt að segja að hér sé rösklega tekið til hendi. Í svari ráðuneytisins segir líka:

„Það er margt í gangi í dag, t.d. er Umhverfisstofnun að vinna að gerð ýmissa leiðbeininga fyrir heilbrigðiseftirlit og sveitarfélög, þá er unnið að bættri samræmingu og upplýsingagjöf. Meiri áhugi er á fráveitumálum og vilji til að gera betur varðandi marga þætti, s.s. nýtingu á seyru til landgræðslu. Þá er einnig mikilvægt að við náum að draga úr úrgangi og öðrum mengandi efnum í fráveitu svo að við séum að fá betra hráefni til meðhöndlunar og að við séum ekki að losa þessi efni út í viðtakana okkar. Sjá t.d. samstarfsverkefnið okkar nýja með Samorku, heilbrigðiseftirlitum og SÍS https://klosettvinir.is/“.

Skólpið ekki lengur sýnilegt í fjörunni, en ...

Eins og kunnugt er af fréttum hafa yfirvöld á höfuðborgarsvæðinu mjög stærst sig af viðamiklum umbótum á skólphreinsikerfum. Þær felast þó aðallega í því að settar hafa verið upp dælustöðvar sem safna saman skólpi á nokkra staði og dæla því í gegnum leiðslur langt út í Faxaflóa. Skólpið er því ekki lengur sýnilegt í fjöruborðinu á höfuðborgarsvæðinu eins og áður, en fer eigi að síður aðeins grófhreinsað sem ómeðhöndluð gerla-, bakteríu- og efnasúpa út í lífríki hafsins, þar sem sjómenn stunda sínar fiskveiðar. Ný „hreinsistöð“ á Akureyri er af svipuðum toga.

Skólpmál á Íslandi í ósamræmi við alþjóðasamninga

Í skýrslunni segir einnig að mikilvægt sé að hafa í huga að hreinsun fráveituvatns sé hluti af stærri heildarmynd þar sem markmiðið er að draga úr losun mengandi efna út í umhverfið.

„Hreinsun fráveituvatns tengist skuldbindingum íslenska ríkisins t.d. í gegnum alþjóðasamninga eins og OSPAR, loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.“

„OSPAR Convention“ er samningur um verndun sjávarumhverfis Norðaustur-Atlantshafsins. Hann er hluti af alþjóðasamningi um verndun hafsins. Þessi samningur er eins konar uppfærsla á  Oslóar-sáttmála frá 1972 og sameining við Parísarsamkomulag og var undirritaður af fulltrúum 15 þjóðríkja í París 22. september 1992.  Löndin sem undirrituðu samkomulagið voru Belgía, Danmörk, Finnland, Frakkland, Þýskaland, Ísland, Írland, Holland, Noregur, Portúgal, Spánn, Svíþjóð, Bretland og Norður-Írland, Lúxemborg og Sviss. Samningurinn tók gildi 25. mars 1998 og kom þá í stað bæði Oslóar- og Parísarsamkomulagsins. Þó hvorki Finnar, Lúxemborgarbúar, né Svisslendingar eigi í raun bein tengsl við við það hafsvæði sem samningurinn tekur til, þá vildu þau eigi að síður taka þátt. Finnar á þeim forsendum að finnskar ár rynnu í Barentshaf og Lúxemborgarar og Svisslendingar á forsendum Parísarsamkomulagsins vegna tengsla sinna við ána Rín. Þá er samningurinn líka viðurkenndur af Evrópusambandinu. 

Viðauki 5 í Ospar samningnum öðlast gildi á Íslandi nú í sumar, eða þann 18. júlí 2021 og fjallar um  vernd og varðveislu vistkerfa og líffræðilegs fjölbreytileika. Í fyrstu grein viðaukans segir:

„Að því er varðar þennan viðauka og viðbæti 3 eru skilgreiningar á „líffræðilegri fjölbreytni“, „vistkerfi“ og „búsvæði“ þau sem eru í samningnum um líffræðilega fjölbreytni frá 5. júní 1992.“

Í þriðju grein OSPAR samningsins segir svo um hlutverk aðildarríkja samningsins og skyldur:

„Við að uppfylla skyldu sína samkvæmt samningnum til að gera, hver í sínu lagi, nauðsynlegar ráðstafanir að vernda hafsvæðið gegn skaðlegum áhrifum athafna manna til að vernda heilsu manna og til að vernda vistkerfi hafsins. Einnig þegar það er hægt, að endurheimta hafsvæði sem hafa orðið fyrir skaðlegum áhrifum, sem og skyldu þeirra samkvæmt samningnum um líffræðilega fjölbreytni frá 5. júní 1992. Skyldur til að þróa áætlanir um varðveislu og sjálfbæra nýtingu og um líffræðilega fjölbreytni. Samningsaðilar skulu:

  • Grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að vernda vist­kerfin og líffræðilegan fjölbreytileika hafsvæðisins og að endurheimta, þar sem það er gerlegt, hafsvæði sem hafa orðið fyrir skaða.
  • Vinna saman að því að gera áætlanir og ráðstafanir í þeim tilgangi að hafa stjórn á athöfnum manna sem skilgreindar eru með beitingu viðmiðana í 3. viðauka samningsins.“

Tveggja þrepa hreinsun á skolpi líkt og sést á þessari mynd, þykir eiginlega lágmarkið í skólphreinsun í flestum þéttbýlisstöðum í Evrópu og Bandaríkjunum. Á höfuðborgarsvæðinu á Íslandi er eins þreps hreinsun látin duga. 

Það eru óhreinindi á fínu hreinleikaímyndinni

Samkvæmt þessu er alveg ljóst að Íslendingar eru ekki að uppfylla skyldur sínar gagnvart OSPAR samningnum í ljósi þess að aðeins 4% sveitarfélaga á Íslandi með meira en 2.000 íbúa eru með tveggja þrepa hreinsun á skólpi sem frá þeim rennur í hafið.

Tveggja þrepa hreinsun er í raun það sem mætti kalla lágmarkshreinsun úrgangsefna úr skólpi.

Fyrsta stigs hreinsun á skólpi sem notuð er í 56% sveitarfélaga á Íslandi með 2.000 íbúa eða fleiri, felur eiginlega ekki annað í sér en að grófhreinsa rusl til að koma í veg fyrir að dælubúnaður skólpdælustöðva stöðvist. Samt skilar þetta um 120 tonnum af rusli sem sturtað er í klósettin og fer í „hreinsi-“dælustöðvar í Klettagörðum og Ánanaustum í Reykjavík á ári. Það hefur síðan verið urðað í Álfsnesi.

Engin hreinsun í 40% sveitarfélaga með yfir 2.000 íbúa

Þá hlýtur það að teljast skelfileg staða að 40% sveitarfélaga með meira en 2.000 íbúa í landi sem státar af hreinni matvælaframleiðslu og hrósar sér af hreinu hafi og umhverfi, eru ekki með eina einustu hreinsun á sínu skólpi. Það er sannarlega kúkur á fínu hreinleikaímyndinni sem Íslendingar verða, samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum, að þrífa upp eftir sig.

Coca-Cola sýnir gott fordæmi

Víða í stórborgum erlendis má sjá gríðarstórar fjögurra þrepa skólphreinsistöðvar þar sem öll snefilefni eru gerð óvirk og vatnið hreinsað þar til það er nothæft að nýju til áveitu og jafnvel sem drykkjarvatn. Hér í Bændablaðinu hefur verið fjallað um eina hreinsistöð á Íslandi sem hefur þessa eiginleika, en hún er í eigu Vífilfells (Coca-Cola) í Reykjavík og hreinsar allt affall og skólp sem frá verksmiðjunni kemur. Til að sýna fólki fram á hreinleikann á vatninu sem þar er hreinsað er vatnið frá stöðinni m.a. notað í fiskabúr.  Þessi stöð var reist samkvæmt stefnu Coca-Cola Company sem tekin var upp árið 2007 um að allt vatn sem notað er í verksmiðjum fyrirtækisins skyldi 100% endurunnið.

Þó Íslendingar geti enn státað af nægu hreinu vatni, þá er það ekki svo með allar aðrar þjóðir. Þannig hefur Coca-Cola t.d sett upp 500 hreinsistöðvar í Indlandi sem skila yfir 25 milljörðum lítra af hreinu vatni aftur út í samfélagið til neyslu.   

Aukin vitund í heiminum um mikilvægi skólphreinsunar

Á vefsíðu IGI Global má sjá grein um mikilvægi skólphreinsunar í ljósi sögunnar, vaxandi mannfjölgunar og aukinnar ferðaþjónustu. Þar segir að skólpmál hafi svo sem ekki verið mikið áhyggjuefni manna fyrir tvö hundruð árum eða svo þegar íbúatala jarðar var „einungis“ um einn milljarður. Með vaxandi fólksfjölda þar sem jarðarbúar eru nú nálægt 7,6 milljörðum og stórauknu þéttbýli er lykilatriði að stunduð sé hreinsun á skólpi. Þá hafa stóraukin ferðalög fólks líka aukið áherslur á að þessir þættir séu í lagi sem og meðvitund sem vaknað hefur vegna COVID-19 faraldursins um smithættu af skólpi.

Skólphreinsistöð í borginni Montpellier í Frakklandi, sem er þriðja stærsta borgin á Miðjarðarhafsströnd Frakklands. Þarna eru m.a. tankar fyrir metangasframleiðslu. Borgin er litlu stærri en höfuðborgarsvæðið á Íslandi, eða með um 290.000 íbúa. 

Strangar reglur í Evrópu

Í Evrópusambandinu hafa verið í gildi reglur um meðferð skólps í þéttbýli sem byggðar eru á regluverki sem tekið var upp í maí 1991. Ýmis sérafbrigði af þeim reglum eru þó í gildi í einstökum löndum.

Könnun á stöðu þessara mála í Evrópu var fyrst gerð af EurEau, landssamtökum vatnsveitna og skólphreinsunarmála árið 2009 (European Federation of National Associations of Drinking Water Suppliers and Wastewater Services). Í nýrri könnun sem gerð var 2017 kom fram að þó miklar framfarir hafi átt sér stað væri samt full ástæða til aðgæslu á sumum svæðum.  

18.000 skólphreinsistöðvar og 68,4% af skólpinu fullhreinsað

Í könnuninni kom fram að 18.000 skólphreinsistöðvar af ýmsum stærðum voru þá starfræktar í allri Evrópu. Þar kemur líka fram að upplýsingagjöf um meðferð á skólpi er víða mjög ábótavant og tölur um ýmsa liði vantaði frá nokkrum löndum. Eigi að síður segir að 3,1% af skólpinu sé meðhöndlað með forstigs, eða eins þreps hreinsun. (Líkt og gert er með nær 100% af skólpinu frá höfuðborgarsvæðinu á Íslandi). Tveggja þrepa hreinsun var á 28,5% af skólpinu og fullhreinsun, eða það sem nefnt er „tertiary level“ var á 68,4% af skólpinu. Þessi skilgreining „tertiary“ var þó ekki sögð viðurkennd sem slík í leiðbeiningum um frárennslismál, „Urban Wastewater Treatment Direction – UWWTD“.

Meðhöndlaða hratið frá skólphreinsistöðvunum var að 49,2% hluta nýtt sem áburður í landbúnaði, en 24,9% var brennt. Þá fór 12,4% til uppgræðslu og 8,7% í landfyllingar.

Niðurstaðan er að 95% íbúa í Evrópu hafa aðgengi að hreinu drykkjarvatni og hjá þeim er skólp endurunnið og veitt að nýju út í náttúruna með öruggum hætti. Þá er skólphreinsunin líka víða nýtt til að framleiða metangas.   

Með 4,2 milljóna kílómetra vatnsveitukerfi

Þess má til gamans geta að í könn­un EurEau kom einnig fram að vatnsveitukerfið í Evrópu er um 4,2 milljónir kílómetra, eða 11 sinnum vegalengdin frá jörðinni til tunglsins. Um þetta kerfi renna árlega 44,7 milljarðar rúmmetra af vatni. Það þýðir samkvæmt könnuninni að hver einasti íbúi Evrópu noti að meðaltali 128 lítra af vatni á dag, þá er allt með talið, iðnaður og annað. Víða er það miklu minna og á öðrum stöðum meira. Til samanburðar þá er meðalnotkun á vatni á reykvískum heimilum um 165 lítrar á dag, sem er það mesta sem þekkist á Norðurlöndum samkvæmt tölum Samorku. Rétt er að taka fram að ýmiss konar atvinnustarfsemi notar margfalt meira af vatni.

Hverju ætla menn að svara?

Í ljósi áherslu annarra þjóða varðandi skólphreinsun er áhugavert að hugsa til þess að engin áform séu uppi um aukna skólphreinsun á Íslandi. Það er líka áhugavert að velta því fyrir sér hverju menn ætla að svara  þegar erlendir ferðamenn, sem eru afar vel meðvitaðir um hreinleikaímynd landsins, fara að spyrja um ástand skólpmála hér á landi.

Þetta er einmitt spurning sem ferðamálafrömuðir eru farnir að spyrja í auknum mæli um allan heim, eins og í Malasíu þar sem mikil aukning varð í ferðaþjónustu upp úr 2013. Þar hefur aukin skólpmengun m.a. leitt til mengunar grunnvatns og vatnsbóla. Eða eins og fram kemur í greininni á vef  IGI Global.

Mengun skólps hefur í för með sér hættu bæði fyrir heilsu manna og umhverfið, svo sem:

  • Hætta fyrir heilsu manna vegna sýkla, baktería,  vírusa og eiturefna sem skila sér út í þörungablóma í hafinu.
  • Hætta sem skólp getur skapað fyrir margvíslega ferðaþjónustu.
  • Hætta fyrir lífríki sjávar, lífríki vatns, dýralíf og fleira.
Bandaríkjamenn vöktu athygli á skólp- og sorpmálum fyrir rúmum 70 árum

Ýmsir aðrir samningar hafa verið gerðir til að stemma stigu við losun úrgangsefna í hafið. Þar má t.d. nefna London Convention frá 1972 sem gert var að frumkvæði Bandaríkjamanna sem höfðu áhyggjur af losun úrgangsefna í hafið á árunum frá 1950 til 1980. Í þessu samkomulagi segir m.a.:

„Samningsaðilar skulu hver og einn stuðla að virkri stjórn á öllum uppsprettum mengunar sjávarumhverfisins, og beita sér sérstaklega til að taka öll framkvæmanleg skref til að koma í veg fyrir mengun sjávar með því að henda úrgangi og öðru efni sem er til þess fallið að skapa hættu fyrir heilsu manna, skaða lífríki sjávar, eða trufla aðra lögmæta notkun hafsins.“

Skólphreinsistöð í Amersfoort í Hollandi, þar sem íbúafjöldinn er um 146 þúsund. Stöðin var tekin í notkun 2013.  

Fastur úrgangur frá sveitar­félögum í heiminum yfir 2 milljarðar tonna á ári

Samkvæmt gögnum Alþjóða­bankans verða til 2,01 milljarður tonna af föstum úrgangi í sveitarfélögum heimsins á hverju ári.  Að minnsta kosti 33 prósent af því er ekki meðhöndlað á umhverfisvænan hátt. Á heimsvísu er úrgangur sem myndast á mann á dag að meðaltali 0,74 kíló en er víða, frá 0,11 til 4,54 kílóum á mann. Líklega er úrgangurinn frá Íslendingum með því mesta sem þekkist.

Þótt í hátekjulöndum búi aðeins um 16% jarðarbúa, þá framleiða þeir um 34 prósent, eða 683 milljónir tonna, af úrgangi heimsins.

Þegar horft er fram á við er búist við að úrgangur á heimsvísu muni aukast í 3,40 milljarða tonna árið 2050, sem er meira en tvöföld fólksfjölgun á sama tíma.

Á heildina litið er að mati Alþjóðabankans jákvæð fylgni milli myndunar úrgangs og tekjustigs. Spáð er að framleiðsla úrgangs á hvern íbúa í hátekjulöndum aukist um 19 prósent árið 2050 samanborið við lág- og meðaltekjulönd þar sem búist er við að það aukist um um það bil 40% eða meira.

Úrvinnsla úrgangs minnkar upphaflega við lægstu tekjurnar og eykst síðan hraðar til aukinna tekjubreytinga við lágar tekjur en við háar tekjur. Reiknað er með að heildarmagn úrgangs sem myndast í lágtekjulöndum aukist meira en þrisvar sinnum árið 2050. Austur-Asía og Kyrrahafssvæðið búa til mestan úrgang heimsins, 23 prósent, og Mið-Austurlönd og Norður-Afríka framleiða minnst, 6 prósent. Samt sem áður eru svæðin sem vaxa hraðast í Afríku sunnan Sahara, Suður-Asíu og Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, þar sem gert er ráð fyrir að árið 2050 verði heildarúrgangur meira en þrefaldur, tvöfaldur og tvöfaldur. Á þessum svæðum er meira en helmingur úrgangs um þessar mundir afhentur með opnum hætti og ferlar vaxtar úrgangs munu hafa mikil áhrif á umhverfi, heilsu og velmegun og krefjast þess vegna brýnna aðgerða.

OSPAR löndin sem aðild eiga að samningi um verndun Norðaustur-Atlantshafsins. 

Meðhöndlun á skólpi og vatnsendurvinnsla er vaxandi iðnaður

Meðhöndlun á skólpi og vatnsendurvinnsla er víða stór iðnaður og fer vaxandi. Samkvæmt skýrslunni „Water And Sewage Global Market Report 2021“ þá mun þessi geiri vaxa árlega á heimsvísu um 5,5%, eða úr 501,8 milljörðum dollara árið 2020 í 529,5 milljarða dollara á árinu 2021. Er stærsti hluti vaxatarins nú sagður tilkominn vegna endurskipulagningar fyrirtækja vegna COVID-19 faraldursins. Faraldurinn hefur einmitt opnað augu manna fyrir mikilvægi skólphreinsunar til að hefta útbreiðslu sjúkdómsfaraldra. Gert er ráð fyrir að veltan á þessum markaði verði komin í 711,1 milljarða dollara árið 2025.

Skylt efni: skólphreinsun | skólp

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...