Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Rannsóknir á líftæknisviði er aðalsmerki Bayer. Er fyrirtækið stórtækt í þróun lyfja og plöntuafbrigða og nýtir þar væntanlega mikillar þekkingar sinna starfsmanna í erfðatækni.
Rannsóknir á líftæknisviði er aðalsmerki Bayer. Er fyrirtækið stórtækt í þróun lyfja og plöntuafbrigða og nýtir þar væntanlega mikillar þekkingar sinna starfsmanna í erfðatækni.
Mynd / af vefsíðu Bayer
Fréttaskýring 21. apríl 2017

Unnið hörðum höndum að samruna efnarisanna Bayer og Monsanto

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Þýska efnafyrirtækið Bayer hefur verið að vinna að því að kaupa bandaríska efnafyrirtækið Monsanto. Forsvarsmenn fyrirtækjanna eru nú sannfærðir um að það takist að ganga frá öllum lausum endum fyrir lok þessa árs. 
 
Fjallað var um málið á vefsíðu Farm Industry News þann 8. mars. Þar kemur einnig fram að þótt viðræður séu í fullum gangi þá vinni fyrirtækin, að sögn forsvarsmanna þeirra, enn á sama grunni sem harðir keppinautar.
 
Um sjö þúsund milljarða viðskipti
 
Samkvæmt tímaritinu Forbes, bauð Bayer 66 milljarða dollara í Monsanto í september á síðasta ári, eða sem svarar um 7.260 milljarða íslenskra króna miðað við gengi í byrjun síðustu viku. Fyrirtækið var í maí 2016 metið af Forbes á rúmlega 42 milljarða dollara (4.620 milljarða ísl. kr.).  
 
Risafyrirtækið Bayer
 
Bayer á 150 ára sögu í lyfjatækni, neytendaheilbrigðismálum, í uppskeruvísindum og dýraheilbrigði, samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins. Höfuðstöðvar Bayer AG eru í Leverkusen í Þýskalandi. Fyrirtækið er með 27.400 starfsmenn í Asíu og í Kyrrahafslöndum og veltir þar um 11 milljörðum evra á ári. Þá er það með 12.800 starfsmenn í Norður-Ameríku og er veltan þar um 12,8 milljarðar evra. Í Evrópu, Mið-Austurlöndum og í Afríku er veltan 17,8 milljarðar og starfsmenn fyrirtækisins eru 59.500. Þar af 37.000 í Þýskalandi. Í Suður-Ameríku eru um 12.500 starfsmenn og veltan þar um 5,1 milljarður evra. Samtals er velta Bayer því um 46,7 milljarðar evra, sem samsvarar um 5.600 milljörðum íslenskra króna.
  
Þótt margir í vísindaheiminum telji að samruni efnarisa á borð við Bayer og Monsanto geti orðið vísindunum til góðs, þá eru um leið uppi miklar efasemdaraddir um ágæti þess. Ótti er m.a. við að það muni leiða til enn aukins eiturefnahernaðar gagnvart náttúrunni, eins og þessi mynd af vefsíðu Marketwatch gefur til kynna. 
 
Efnarisinn Monsanto
 
Efnafyrirtækið Monsanto var stofnað 1901 og er með höfuðstöðvar í St. Louis í Missouri í Bandaríkjunum. Það er með samtals ríflega 20.000 starfsmenn á 353 starfsstöðvum í 69 löndum. Þar af eru 10.000 starfsmenn á 125 starfsstöðvum í Bandaríkjunum. 
 
Bæði fyrirtækin hafa verið stórtæk í þróun á erfðatækni í landbúnaði. Einnig í framleiðslu á eiturefnum til að eyða „illgresi“, sem líka eru nefnd „varnarefni“ í landbúnaði. Adrian Percy, sem er einn af yfirmönnum tæknideildar Bayer, segir að þótt þeir séu stórir á markaðnum varðandi varnarefnin, þá hafi aldrei verið virkt samráð á milli fyrirtækja í sama geira. Með samruna fyrirtækjanna geti menn unnið náið saman að þróun „varnarefna“ og þróun erfðabreyttra tegunda. 
 
„Þetta er mikilvægt þar sem menn hafa nú vaxandi áhyggjur út af þoli illgresis.“ Þar á hann væntanlega við það að illgresi hefur verið að mynda þol gegn eiturefnunum sem fyrirtækin framleiða og ætlað er að drepa það. Ýmis kornafbrigði hafa m.a. einmitt verið hönnuð til að þola þessi eiturefni af vísindamönnum Monsanto. Hann segir að þetta sé ekki sér bandarískt vandamál, heldur hafi slíkt líka verið að koma upp í Brasilíu, Ástralíu og í Evrópu.
 
Þess má geta að Monsanto hefur ekki einungis verið að hanna erfðabreyttar nytjajurtir með þol gegn eiturefnum og fleiru, heldur hefur fyrirtækið líka verið frumkvöðull í þróun margvíslegra gróðureyðingarefna á liðnum áratugum. Orðspor fyrirtækisins á þessu sviði hefur verið afar neikvætt og hefur það átt í útistöðum og málaferlum við bændur víða um heim. Hafa menn því leitt líkur að því að við samruna við Bayer verði nafnið Monsanto afmáð.  
 
Með gríðarlegan fjölda vísindamanna
 
Percy bendir á að sameining rannsókna- og þróunardeilda Bayer og Monsanto muni hafa á sínum snærum 10 þúsund rannsóknarmenn, vísindamenn og tæknimenn, eða 5.000 frá hvoru fyrirtæki um sig. Fjármagn sem varið verði til rannsókna í sameiginlegu fyrirtæki muni fara yfir 2,5 milljarða dollara. Það sé nauðsynlegt til að hjálpa ræktendum. Einnig til að mæta þeim málum sem eru að koma upp. 
 
„Við þurfum nýsköpun til að auka framleiðni matvæla. Við vitum sem fyrirtæki að gríðarleg tækifæri eru falin í nýsköpun í landbúnaði. Á stafrænu hliðinni eru nemar og gervihnettir og við þurfum að fjárfesta meira í slíku til að koma nýsköpuninni til bænda.“
 
Með allan þennan fjölda vísindamanna á bak við sig þarf engan að undra að auðvelt hafi reynst að fá aragrúa vísindamanna til að skrifa undir yfirlýsingar og röksemdafærslur fyrirtækjanna á opinberum vettvangi, gegn gagnrýni efasemdaradda um ágæti líftækni- og eiturefnaiðnaðarins.
 
Hrifinn af mikilli getu Monsanto
 
Adrian Percy viðurkenndi í samtali við Farm Industry News að hann hafi í upphafi verið mótfallinn kaupum Bayer á Monsanto. Eftir að hafa farið yfir tilboðið hafi honum snúist hugur og sé hrifinn af mikilli getu Monsanto. 
 
„Það mun fylgja okkur í aukinni og skilvirkari fjárfestingu og við að vinna í sameiningu að sérhæfðum lausnum.“
 
Nýtt hveitiafbrigði á markað 2020
 
Bæði fyrirtækin hafa fjárfest gríðarlega í þróun á erfðabreyttu hveiti. Segir Percy að nú sé verið að vinna að afbrigði hjá Bayer þar sem byggt er á kynblöndun og koma eigi á markað 2020. Segir hann að með því að leggja saman getu Monsanto í sama geira verði mögulega hægt að flýta þróuninni á kornmarkaði. 
 
Samruni fyrirtækjanna þarf að hljóta samþykki yfirvalda á 30 stöðum. Búið sé að samþykkja regluverkið á 20 stöðum og reiknað sé með að verkinu ljúki í lok þessa árs. Svipaðar spurningar hafi verið uppi varðandi samrunann hjá yfirvöldum í Bandaríkjunum, í Evrópusambandinu og í Kína.
 
Góð áhrif á nýsköpun og samkeppni?
 
Percy heldur því fram að samruninn muni hafa góð áhrif á nýsköpun og samkeppni. Í því ljósi eru eftirfarandi orð hans mjög athyglisverð:
 
„Einkaleyfi á erfðaefni og eiginleikum hefur fært fyrirtækjum okkar velgengni. Við erum að gera það sama við okkar vísindagögn og gert er í loftslagsmálunum, við vinnum með fjölda fyrirtækja og söluaðilum. 
 
Ræktendur munu njóta betri þjónustu með þessu móti. Við munum vinna með mismunandi vörumerkjum.“ Bændurnir hafa síðan val um að fá vörur eftir sínum þörfum frá ólíkum söluaðilum.“
 
Þetta hlýtur að teljast nokkuð sérstök túlkun á hvernig stefnt sé að því að auka fjölbreytni og samkeppni á vörum sem seldar eru til bænda. Þeir fái með samruna Bayer og Monsanto val um að velja sáðkorn og aðrar vörur tengda ræktun frá fjölmörgum mismunandi söluaðilum. Vörurnar verða svo að stórum hluta framleiddar af sameinaða risafyrirtækinu sem þá verður orðið í afar sterkri stöðu sem framleiðandi á markaði. 
Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...