Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Firnasterkri keppni í B-flokki gæðinga lauk með öruggum sigri Örnu frá Skipaskaga, knapi er Sigurður Sigurðarson, sem eru hér lengst til vinstri.
Firnasterkri keppni í B-flokki gæðinga lauk með öruggum sigri Örnu frá Skipaskaga, knapi er Sigurður Sigurðarson, sem eru hér lengst til vinstri.
Mynd / Guðrún Hulda
Fréttir 5. júlí 2017

Gæðingaveisla í Borgarnesi

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Rúmlega 1.000 manns komu saman á  Fjórðungsmóti Vesturlands í Borgarnesi dagana 28. júní til 2. júlí sl. Þar öttu kappi gæðingar og hestamenn af Vesturlandi, Húnavatnssýslum og Skagafirði. Skapti Steinbjörnsson var valinn knapi mótsins og Arna frá Skipaskaga hlaut titilinn Hestur mótsins.
 
Sigurveig Sigurðardóttir, hrossaræktandi í Skipaskaga, tekur við verðlaunum Örnu frá Skipaskaga sem var valin hestur Fjórðungsmótsins. 
 
Ingi Tryggvason, formaður framkvæmdarnefndar Fjórðungs­mótsins, segist sáttur með útkomuna, þótt mótsókn hafi ekki staðist vænt­ingar. „Mótið gekk allt mjög vel og dagskrá var á áætlun. Vell­irnir stóð­ust álagið vel, knap­arnir lýstu yfir ánægju bæði með aðal­völl og nýja kynbóta­völlinn. Við bjuggumst þó við aðeins fleiri gestum.“ 
 
Ingi Tryggvason, formaður framkvæmdanefndar Fjórðungsmóts Vesturlands.
 
Þátttaka á mótið var með besta móti og segir Ingi það benda til þess að Fjórðungsmót eigi enn tilverurétt. „Hugsanlega þarf þó að endurskoða fyrirkomulag Fjórðungsmóta með tilliti til fjölda móta á þessum tíma árs, en í júní og júlí eru mót nánast allar helgar. Það þyrfti að lágmarka kostnaðinn enn frekar, til að mynda liggur mikill kostnaður í tæknimálum á svona móti. Þá mætti líka skoða að stytta mótið um einn dag. Aftur á móti hafa margir lýst yfir ánægju með að dagskráin sé ekki mjög þétt. Þannig hefur gefist tími til að gera eitthvað annað en að horfa á hestana,“ segir Ingi.
 
Frábær hestakostur
 
Lárus Ástmar Hannesson, formaður Landssambands hestamannafélaga, segir það hafa sýnt sig í ár að þátttaka Húnvetninga og Skagfirðinga sé framfaraskref fyrir Fjórðungsmótið. „Hestakosturinn var frábær og reiðmennskan mjög góð. Svæðið, vellir og skipulag var til fyrirmyndar, þótt tjaldsvæðið hafi verið svolítið langt í burtu. Skipuleggjendur mótsins og Borgnesingar eiga heiður skilið fyrir gott mót. Hins vegar vantaði fleira fólk og meiri stemningu,“ segir hann.
 
Lárus Ástmar Hannesson leggur Atl­as frá Lýsuhóli í úrslitum A-flokks.
 
Lárus var enn fremur keppandi á mótinu en hann sat stóðhestinn Atlas frá Lýsuhóli í A-úrslitum í A-flokki gæðinga og hlutu þeir brons fyrir frammistöðu sína. „Það er alltaf gaman að vera á góðum hesti. Þetta er svona hestur sem gerir allt, maður þarf bara að passa að trufla hann ekki,“ segir Lárus.
 
Sterk gæðingakeppni
 
Mótið fór fram á tveimur völlum. Á aðalvelli fór fram gæðingakeppni í öllum flokkum ásamt opinni töltkeppni og skeiðkappreiðum. Stóðhesturinn Trymbill frá Stóra-Ási sigraði A-flokk gæðinga með vandaðri sýningu en eigandi hans, Mette Mannseth, sat gæðinginn. Merargullið Arna frá Skipaskaga sigraði B-flokk gæðinga örugglega, undir stjórn Sigurðar Sigurðarsonar. Arna var þar að auki valin hestur mótsins.
 
Trymbill frá Stóra-Ási og Mette Mannseth sigruðu A-flokk gæðinga.
 
Knapi mótsins að mati dómara var Skapti Steinbjörnsson á Hafsteinsstöðum. Hann fór mikinn á mótinu og var m.a. í 4 sæti í A-flokki gæðinga á 5 vetra hryssu, Hrafnistu frá Hafsteinsstöðum, ásamt því að hljóta silfur í B-flokki gæðinga með gæðinginn Odda frá Hafsteinsstöðum.
 
Skapti Steinbjörnsson og Oddi frá Hafsteinsstöðum á vígalegu brokki.
 
Yngri knapar sýndu ekki síður glæsilega reiðmennsku. Sonja S. Sigurgeirsdóttir og Jónas frá Litla-Dal fóru með sigur af hólmi í ungmennaflokki eftir að hafa unnið sig upp úr B-úrslitum. Guðný Rúna Vésteinsdóttir og Þruma frá Hofsstaðaseli sigraði í unglingaflokki nokkuð örugglega. Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal sigraði barnaflokk á Daníel frá Vatnsleysu en þeir höfðu einnig farið fjallabaksleið að sigrinum líkt og Sonja.
 
Jakob Svavar Sigurðsson og Júlía frá Hamarsey sigruðu opna töltkeppni mótsins og Guðmar Freyr Magnússon og Fönix frá Hlíðartúni sigraði töltkeppni 17 ára og yngri.
 
Hér tekur Helga Una Björnsdóttir Álfrúnu frá Egilsstaðakoti til kostanna, en hún var hæst dæmda kynbótahross Fjórðungsmótsins.
 
Helga Una Björnsdóttir hlaut reiðmennskuverðlaun Félags tamningamanna á mótinu. Hún kom fram með hross bæði í keppni og kynbótasýningum og þótti sýna vandaða, framúrskarandi reiðmennsku á áverkalausum hestum og prúða framkomu á mótinu. 
 
Hestagull á kynbótabrautinni
 
Á nýendurgerðum kynbótavelli komu fram 64 kynbótahross. Hæst dæmda kynbótahross mótsins, og jafnfram efsta hryssa í flokki 7 vetra og eldri, var Álfrún frá Egilsstaðakoti. Hún hlaut 8,75 í aðaleinkunn, 8,39 fyrir sköpulag og 8,99 fyrir kosti. Álfrún er undan Álfi frá Selfossi og Snögg frá Egilsstaðakoti en knapi hennar var Helga Una Björnsdóttir, sem á hryssuna ásamt Einari Hermundssyni, sem enn fremur ræktaði gripinn.
 
Hrossaræktandinn Benedikt Benediktsson tekur við verðlaunum fyrir Kylju frá Stóra-Vatnsskarði. Bróðir hennar, sammæðra, Sigur frá Stóra-Vatnsskarði, var einnig í verðlauna­sæti í flokki 4 vetra stóðhesta. Hans Þór Hilmarsson er knapi.
 
Kylja frá Stóra-Vatnsskarði var efst 6 vetra hryssna. Hún hlaut 8,38 í aðaleinkunn, 8,03 fyrir sköpulag og 8,61 fyrir kosti. Kylja er undan Kiljani frá Steinnesi og Lukku frá Stóra-Vatnsskarði. Benedikt Benediktsson er ræktandi hennar og eigandi en Hans Þór Hilmarsson sýndi hryssuna. Þess má geta að Kiljan frá Steinnesi hefur nú náð lágmarki til heiðursverðlauna fyrir afkvæmi sem hann mun að öllum líkindum hljóta á Landsmóti 2018.
 
Krús frá Skipaskaga var hæst 4 vetra hryssna en hún hlaut 8,28 í aðaleinkunn. Fyrir sköpulag hlaut Krús 8,69 og 8,00 fyrir kosti. Krús er undan Steinari frá Skipaskaga og Krús frá Ólafsvík. Daníel Jónsson sýndi Krús.
 
Efstu 5 vetra hryssurnar. Frá vinstri Ísey frá Lækjamóti, kn. Ísólfur Líndal Þórisson, Lukkudís frá Bergi, kn. Viðar Ingólfsson, Elding frá Þúfum, kn. Mette Mannseth, Fjóla frá Eskiholti II, kn. Hlynur Guðmundsson og Úa frá Efri-Hrepp, kn. Ámundi Sigurðsson.
 
Hæst 5 vetra hryssna var Ísey frá Lækjamóti. Hún hlaut í aðaleinkunn 8,60, 8,70 fyrir sköpulag og 8,54 fyrir kosti. Ísey er undan Jóni frá Kjarri og Hrönn frá Leysingjastöðum II. Ísólfur Líndal Þórisson sýndi Ísey en hann er ræktandi hennar ásamt Vigdísi Gunnarsdóttur.
 
Bróðir Íseyjar, sammæðra, Júpíter frá Lækjamóti, hlaut hæstu einkunn 4 vetra stóðhesta. Hann hlaut 8,30 í aðaleinkunn, 8,00 fyrir kosti og 8,74 fyrir sköpulag sem var hæsta einkunn sem gefin var fyrir sköpulag á mótinu. Fyrir það hlaut Júpíter Blesabókina, farandverðlaun Hrossaræktar­sambands Vestur­lands sem fjölskyldan í Skáney gaf til minningar um Marinó Jakobsson. Júpíter er undan heiðursverðlaunastóðhestinum Víði frá Prestsbakka.
 
Sigurvegari í 4 vetra flokki stóðhesta var Júpíter frá Lækjamóti en hann hlaut enn fremur Blesabókina. Rækt­endur og eigendur eru Vigdís Gunn­arsdóttir og Ísólfur Líndal Þórisson.
 
Hæst dæmdi stóðhestur Fjórðungsmótsins var Sægrímur frá Bergi, en hann sigraði flokk 5 vetra stóðhesta. Sægrímur hlaut 8,61 í aðaleinkunn, 8,54 fyrir sköpulag og 8,66 fyrir kosti. Sægrímur er undan Sæ frá Bakkakoti og Hríslu frá Naustum. Jón Bjarni Þorvarðarson er ræktandi og eigandi Sægríms en sýnandi hans var Jakob Svavar Sigurðsson.
 
Kalsi frá Þúfum var efstur í flokki 6 vetra stóðhesta. Hann hlaut 8,59 í aðaleinkunn, 8,35 fyrir sköpulag og 8,74 fyrir kosti. Kalsi er undan Trymbil frá Stóra-Ási, sem sigraði A-flokk gæðinga á mótinu, og Kylju frá Stangarholti. Ræktandi, eigandi og sýnandi Kalsa var Metta Mannseth.
 
Heikir frá Hamarsey sigraði flokk stóðhesta 7 vetra og eldri. Knapi og einn eiganda er Eyrún Ýr Pálsdóttir.
 
Heikir frá Hamarsey var efstur í flokki stóðhesta 7 vetra og eldri. Heikir hlaut 8,59 í aðaleinkunn, 8,36 fyrir sköpulag og 8,74 fyrir kosti. Heikir er Álfssonur undan Hrund frá Árbæ. Ræktendur hans eru Per S. Thrane, Hannes Sigurjónsson og Inga Cristina Campos en eigendur hennar eru Karl Áki Sigurðsson og Eyrún Ýr Pálsdóttir sem sýndi Heiki.
Rjúpan stygg í snjóleysi
Fréttir 26. nóvember 2024

Rjúpan stygg í snjóleysi

Áki Ármann Jónsson, formaður Skotvís, segir rjúpnaveiðina fara vel af stað. Fugl...

Afleysing ekki fáanleg
Fréttir 26. nóvember 2024

Afleysing ekki fáanleg

Axel Páll Einarsson, kúabóndi á Syðri-Gróf í Flóahreppi, þurfti að fara í aðgerð...

Tók við dýraleifum af öllu höfuð­borgarsvæðinu og Suðurlandi
Fréttir 26. nóvember 2024

Tók við dýraleifum af öllu höfuð­borgarsvæðinu og Suðurlandi

Kjötmjölsverksmiðjan Orkugerðin í Flóanum náði að taka við öllum sláturúrgangi o...

Heildargreiðslumark 152 milljón lítrar
Fréttir 26. nóvember 2024

Heildargreiðslumark 152 milljón lítrar

Framkvæmdanefnd búvörusamninga leggur til við matvælaráðherra að heildargreiðslu...

Bleik slær Íslandsmet
Fréttir 25. nóvember 2024

Bleik slær Íslandsmet

Kýrin Bleik 995 á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd hefur mjólkað mest allra íslensk...

Kjötmjöl og kúamykja betri áburðargjafi á eldri tún
Fréttir 25. nóvember 2024

Kjötmjöl og kúamykja betri áburðargjafi á eldri tún

Bræðurnir Ísak og Logi Jökulssynir á Ósabakka á Skeiðum gerðu áburðartilraunir þ...

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi
Fréttir 22. nóvember 2024

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi

Formlegt erindi liggur nú í matvælaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því að arf...

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...