Geitakjöt eftirsótt
Vinsældir geitakjöts hafa aukist mikið á Bretlandseyjum undanfarið og nú er svo komið að ræktendur geita hafa ekki undan að framleiða kjöt. Kjöt af kið er fitusnautt en ríkt af próteini og járn.
Eftirspurnin eftir kjötinu er svo mikil að tímaritið Observer Food Monthly hefur útnefnt það áhugaverðasta kjöt ársins 2015 og vinsælir matsölustaðir keppast við að bjóða það í matseðlum sínum. Framboð á geitakjöti í Bretlandi hefur verið takmarkað alveg eins og hér á landi enda geitastofnar beggja landa litlir.
Geitakjötið sem í boði er á Bretlandi er mest af ungum höfum þar sem huðnur fara í áframeldi til framleiðslu á geitamjólk og ostum. Árlega er slátrað um 30.000 geitum þar í landi. Auknar vinsældir kjötsins hafa komið geitabændum skemmtilega á óvart því fram til þessa hafa Bretar verið tregir til að borða geitakjör þar sem hefð fyrir átinu er lítil.