Græða á kjúklingi en tapa á svíni
Tvö félög um framleiðslu kjöts og matvælavinnslu í eigu Mataveldisins svokallaða skiluðu eigendum sínum ólíkri afkomu árið 2023. Á meðan alifuglaræktun og vinnsla félagsins skilaði eigendum sínum hagnaði tapaði svínaframleiðsla félagsins.
Starfsemi Matfugls felst í ræktun, slátrun og vinnslu alifuglakjöts ásamt því að stunda fjárfestingar í arðbærum atvinnurekstri og að stunda lánastarfsemi. Alifuglabú fyrirtækisins eru tíu talsins samkvæmt kortasjá Matvælastofnunar.
Rekstrartekjur félagsins á árinu 2023 námu rúmum fimm milljörðum króna samanborið við rúmar 4,5 milljarða kr. í fyrra. Hagnaður af rekstri félagsins nam 179 milljónum króna og samkvæmt efnahagsreikningi námu eignir félagsins um 1,7 milljörðum króna. Eigið fé hafði aukist töluvert, nam 467 milljónum króna í árslok 2023 en var 287 millj. kr. í árslok 2022. Í skýrslu ársreiknings kemur fram að velta félagsins hafi aukist um tólf prósent milli ára.
Tvö ný kjúklingahús skila 700 tonnum
Félagið fékk afhend tvö ný kjúklingahús á Hurðarbaki í lok síðasta árs og eru þau nú bæði komin í fulla notkun, skv. ársreikningnum. Í fullum afköstum ættu húsin að skila rúmlega 700 tonnum af kjúklingum á ársgrundvelli.
„Samkeppnisaðilar eru enn að vinna niður mikinn innflutning á tollfrjálsu kjúklingakjöti frá Úkraínu frá fyrra hluta 2023 og það hefur haft áhrif á eftirspurn eftir vörum frá Matfugli árið 2024,“ segir í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra. Þar segir einnig að fyrirliggjandi séu nokkrar fjárfestingar í sláturhúsi og kjötvinnslu félagsins sem eigi að bæta enn dýravelferð, auka gæði afurða félagsins og bæta vöruframboð.
Framkvæmdastjóri Matfugls er Sveinn Jónsson. Stjórn félagsins skipa Eggert Árni Gíslason, Guðný Edda Gísladóttir og Gunnar Þór Gíslason en þau eru meðal eigenda félagsins Langisjór sem er eigandi Matfugls.
Samkvæmt ársreikningi hefur stjórnin lagt til að 100 milljóna kr. arður verði greiddur út til hluthafa félagsins árið 2024.
Fækkun starfsfólks
Á sama tíma var 121 milljónar króna tap af rekstri félagsins Síld og fiskur ehf. Félagið hefur skilað neikvæðri afkomu í þrjú ár.
Samkvæmt efnahagsreikningi námu eignir félagsins rúmum milljarði króna og eigið fé í árslok nam 155,3 milljónum króna. Velta þess stóð í stað á milli ára en starfsmönnum fækkaði um tólf.
Starfsemi félagsins felst í framleiðslu matvæla úr svínakjöti og öðrum kjötvörum, tengd starfsemi, rekstur fasteigna, lánastarfsemi og skyldur rekstur. Félagið framleiðir og selur vörur undir merkjum Ali en á vefsíðu þess segir að fyrirtækið sé stærsti framleiðandi landsins á vörum unnum úr grísakjöti. Samkvæmt kortasjá Matvælastofnunar er Síld og fiskur skráð fyrirtæki að baki þremur svínabúum á landinu.
Í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra segir að rekstur ársins 2024 fari betur af stað en fyrri ár og rekstrarumbætur sem ráðist hefur verið í séu að skila sér í bættum rekstri félagsins.
Stjórn og framkvæmdastjóri félagsins er eins skipuð og hjá Matfugli. Eins er allt hlutafé félagsins í eigu Langasjó ehf.