Greiða 6% uppbót á dilkakjötsinnlegg
Kjötafurðastöð KS og Sláturhús KVH hafa gefið út tilkynningu um að greitt verði 6% uppbót á allt innlagt dilkakjöt síðastliðið haust og verður það reiknisfært 28. febrúar.
Ágúst Andrésson, forstöðumaður Kjöts, afurðastöðvar KS, segir að rekstur afurðastöðvanna hafi gengið nokkuð vel á síðasta ári og því tilefni til þess að greiða uppbót á það verð sem áður hafði verið gefið út.
„Ýmislegt jákvætt kemur til og þá helst að sláturtíðin gekk vel og einnig sala á afurðum bæði á erlendum og innlendum markaði. Minni framleiðsla á landsvísu hefur leitt til þess að birgðir eru í jafnvægi við eftirspurn og því dregst útflutningur saman á meðan innanlandssala heldur sínu.
Fréttabréf afurðastöðvanna kemur út á næstu dögum þar sem farið er ítarlega yfir stöðuna í greininni.