Heildarveiðin yfir 21 þúsund tunnur
Árlegur upplýsingafundur um grásleppumál var haldinn í Kaupmannahöfn fyrr í þessum mánuðir. Mjög góð þátttaka var á fundinum og þar kom meðal annars fram að heildarveiði á grásleppu í heiminum árið 2019 rúmar 21 þúsund tunnur.
Útflutningsverðmæti á grásleppuafurðum árið 2019 frá Íslandi nam 2,8 milljörðum króna. Hlutur Íslands í heildarveiði á grásleppu í heiminum var 46,6%.
Útflutningsverðmæti þeirra þriggja afurða sem fluttar eru frá Íslandi á erlenda markaði nam um 2,8 milljörðum á síðasta ári. Grásleppukavíarinn gaf mestu verðmætin, rúman 1,3 milljarða, söltuð grásleppuhrogn um 850 milljónir og frosin grásleppa rúmar 600 milljónir.
Heildarveiði allra þjóða á árinu 2019 umreiknað í fjölda tunna af söltuðum hrognum losaði 21 þúsund. Á vef Landssambands smábátaeigenda segir að almennt hefi veiðarnar gengið vel hér við land, Grænlandi og Noregi. Þótt lítils háttar aukning hafi verið hjá Nýfundnalendingum á veiðin þar langt í land með að skila því magni sem þar var veitt hér á árum áður.
Alls jókst heildarveiðin um 11% milli ára og skiptist þannig milli þjóðanna:
Ísland 9.433 tunnur
Grænland 8.432 tunnur
Noregur 1.965 tunnur
Nýfundnaland 461 tunna
Danmörk og Svíþjóð 1.000 tunnur
Hrogn úr grásleppuafla sem veiðist úti fyrir ströndum Svíþjóðar og Danmörku er að mestu leyti seld á fiskmörkuðum þar sem kaupendur eru fiskbúðir og veitingahús.
Í Danmörku er um árlegan viðburð að ræða þegar grásleppuhrogn koma og eru þau þá sett á matseðla sem sérstakur réttur.