Heimsmarkaðsverð á korni á niðurleið
Í kjölfar árásar Rússlands á Úkraínu rauk heimsmarkaðsverð á korni upp og náði t.d. verð á einu tonni af hveiti upp í 435 evrur, sem gera um 60.000 íslenskar krónur.
Það var hæsta verð sem hefur verið skráð á hveiti en nýlegar tölur benda nú til að heimsmarkaðsverðið sé á niðurleið á ný.
Þetta eru góð tíðindi fyrir heimsbyggðina alla og samkvæmt dönskum fréttamiðlum telja þarlendir sérfræðingar að þegar kemur að uppskerutíma á hveiti síðar í sumar gæti verðið verið komið niður í um 200 evrur á tonnið, þ.e. um 27.000 íslenskar krónur, eða jafnvel enn lægra.
Skýringin á þessari spá um verðlækkun markaða á ný er margþætt en það er sér í lagi spá um góða uppskeru í haust sem gefur tilefni til þess að ætla að verðið muni lækka verulega. Þá lítur út fyrir að hægt verði að flytja út korn á ný frá Úkraínu, en sem kunnugt er þá er Úkraína lykilland þegar kemur að útflutningi á korni í Evrópu.