Heita að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda
Þjóðir heims keppast við að gefa út yfirlýsingar sem heita minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda fyrir Parísarráðstefnuna um loftslagsmál sem haldin verður seinna á árinu.
Haldi núverandi losun gróðurhúsalofttegunda áfram óbreytt gera spár ráð fyrir að loftslagshiti jarðar muni hækka um 3,1° Celsíus fyrir árið 2100 sem er 1,7 gráðum hærra en þolmörk, sem eru tvær gráður. Standist spárnar má búast við gríðarlegum breytingum á veðurfari, sem reyndar er þegar farið að bera á, sem leiða til að veðrakerfi riðlast frá því sem nú er og slíkt mundi hafa víðtæk áhrif á fæðuframleiðslu og fæðuframboð í heiminum.
150 ríki lofa betrun
Alls hafa 140 þjóðir heitið því að gera allt sem í þeirra valdi er til að draga út losuninni. Gangi fyrirheit þeirra eftir gera spár ráð fyrir að loftslagshækkunin verði 2,7 gráður sem er 0,7 gráðum yfir þolmörkum. Þrátt fyrir að hækkunin sé enn yfir hættumörkum gera spár í fyrsta sinn ráð fyrir að hún verði undir þremur gráðum á Celsíus.
Stjórnvöld í Brasilíu hafa heitið því að draga úr losun gróðurhúsategunda um 37% fyrir árið 2025, í Indónesíu um 29% fyrir 2030, Kenía um 30% fyrir 2013, Bandaríkin um 80% fyrir 2025, Kína 45 % fyrir 2020 og ekki alls fyrir löngu var haft eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra að á Íslandi væri stefnan að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030.
Ekki skuldbundinn af samningum
Allt eru þetta göfug markmið en því miður er það svo að þjóðir eru ekki bundnari en svo af samþykktum og undirskriftum fulltrúa sinna þegar kemur að umhverfismálum að engin refsiákvæði eða sektir eru til staðar sé ekki staðið við samninginn. Slíkt á bara við þegar um fjárhagslegar skuldbindingar er að ræða.