Heitt vatn óskast
Bláskógaveita, sem er í eigu sveitarfélagsins Bláskógabyggð, hefur óskað eftir tilboðum í borun eftir heitu vatni.
Borun fer fram í tveimur vinnsluholum í samræmi við prufuholur og rannsóknir ÍSOR. Annars vegar í vestur-jaðri þéttbýlis í Reykholti og hins vegar að Laugarvatni við hlað menntaskólans. „Við þurfum að efla heitavatnsbúskapinn hjá okkur bæði í Reykholti og að Laugarvatni. Það hefur átt sér stað mikil uppbygging í Reykholti á síðustu árum.
Íbúðarhúsum hefur fjölgað mjög og garðyrkjustöðvar hafa stækkað. Hótel reis fyrir nokkrum árum og er hugað að stækkun þess. Við sjáum fram á að framhald verði á uppbyggingunni á næstu misserum. Að Laugarvatni er einnig að eiga sér stað veruleg uppbygging,“ segir Kristófer Tómasson, sviðsstjóri framkvæmda- og veitusviðs hjá Bláskógabyggð.
Tilboðum á að skila eigi síðar en fimmtudaginn 20. júní kl. 11.