Hnúðlax í íslenskum ám
Nokkuð hefur borið á því að hnúðlax hafi veiðst í ám hér á landi í sumar. Sérfræðingar Hafró telja að hann geti numið land í íslenskum ám.
Í lok júlí veiddist hnúðlax í net í Patreksfirði og snemma í ágúst veiddust nokkrir hnúðlaxar í Hafralónsá í Þistilfirði og annar í Sandá í Þistilfirði. Laxinn sem veiddist í Patreksfirði var kynþroska hængur.
Fyrsta dæmið er frá 1960
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hnúðlaxa verður vart í íslenskum ám. Fyrsta skráða dæmið er frá því í ágúst 1960 þegar einn slíkur veiddist í Hítará á Mýrum. Árið 2015 bárust fregnir um hnúðlax í ám víðs vegar um landið, Ytri Rangá, Hamarsá í Hamarsfirði, Skjálfandafljóti, Þorskafjarðará og Soginu.
Í Fiskifréttum hefur komið fram að sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar hafa varað við að hnúðlax geti numið land í íslenskum ám.
Upprunninn í Kyrrahafi
Hnúðlax, Oncorhynchus gorbuscha, kallast einnig bleiklax og á náttúruleg heimkynni í norðanverðu Kyrrahafi og algeng þar frá Beringssundi niður með Norður-Ameríku, Kóreuskaga og Japan. Hnúðlax er auðþekktur á dökkum hringlaga blettum á sporðinum og fíngerðu hreistri. Gerðar voru tilraunir með að sleppa hnúðlaxaseiðum í ár við Kólaskaga um 1960. Talið er að afkomendur þeirra hafi komið sér fyrir í nokkrum ám í Noregi og að laxarnir sem fundist hafa hér séu þaðan komnir.
Fremur smávaxinn lax
Hnúðlax dregur nafn sitt af stórum hnúð á baki hænganna. Hnúðurinn myndast við kynþroska auk þess sem skoltur hængsins stækkar við kynþroska. Við kynþroska eru hnúðlaxar 1,75 til 2,5 kíló að þyngd og 45 til 60 sentímetrar á lengd.