Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Hross landsmanna 4 til 8 þúsund fleiri en opinberar tölur segja
Fréttir 5. júlí 2018

Hross landsmanna 4 til 8 þúsund fleiri en opinberar tölur segja

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Hrossaeign landsmanna 2017 var 64.678, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Þessar tölur eru þó að margra mati ekki réttar og getur þar verið um vanmat að ræða sem nemur á bilinu 4.000 til 8.000 hrossum. Stafar það af skorti á talnaupplýsingum frá hestaeigendum sjálfum, einkum af höfuðborgarsvæðinu. 
 
Samkvæmt upplýsingum frá Búnaðarstofu MAST þá er ljóst að ásettum folöldum hefur verið að fækka á síðustu árum. Erfitt hafi samt verið að eiga við gagnasöfnun um fjölda hrossa í þéttbýli alla tíð.
 
Hestamenn hafi greinilega ekki séð neinn hvata til að skila inn tölum, líkt og þekkist í þeim búgreinum sem njóta stuðningsgreiðslna. Eigi að síður er bent á að það kostar hestamenn ekkert að skrá hross sín, eins og lög gera ráð fyrir, í gegnum Bústofn og WorldFeng. Hins vegar getur það valdið kostnaði ef menn trassa slíka skráningu. 
 
Misbrestur í tölum frá 2013
 
Frá 2013 hefur verið misbrestur á að upplýsingar um hrossaeign skili sér í gegnum skýrsluhaldið. Misbresturinn er ekki bara varðandi talningu á lifandi hrossum heldur líka í upplýsingagjöf um hesta sem felldir hafa verið. Þannig eru dæmi um að hross hafi verið á skrá árum saman eftir að hafa verið felld og má með sanni segja að þau hafi verið komin vel fram yfir síðasta söludag. 
 
Á árinu 2013 voru samkvæmt tölum Hagstofu Íslands samtals 72.626 hross í landinu. Samkvæmt gögnum Búnaðarstofu MAST voru hrossin einungis talin vera 53.021. Bændablaðið benti á þetta misræmi í sumarbyrjun 2014 og setti MAST frétt á vefsíðu sína um málið hinn 11. júní 2014. Þar segir m.a.: 
 
„Nýjustu tölur yfir fjölda búfjár á landinu sýna almenna fækkun búfjár. Þó er ljóst að ekki er um fækkun á fjölda dýra á Íslandi að ræða heldur má rekja þetta til ófullnægjandi skila á haustsskýrslum og eftirfylgni í kjölfar gildistöku nýrra laga um búfjárhald. Sérstaklega á þetta við um fjölda hrossa og þarf að skoða betur hvernig unnt er að bæta upplýsingar um fjölda hrossa í landinu.“ 
 
Dýraeftirlitsmönnum hefur verið fækkað um helming
 
„Skil á haustsskýrslum 2013 voru ófullnægjandi og bera hagtölur vott um það. Frá árinu 2010 hefur Matvælastofnun safnað upplýsingum um fjölda búfjár á landsvísu og birt á vef og í starfsskýrslum stofnunarinnar. Til ársins 2014 hafði skilum á haustsskýrslum verið fylgt eftir af búfjáreftirlitsmönnum sveitarfélaga í desember fram í febrúar ár hvert. Með gildistöku nýrra laga um búfjárhald 1. janúar 2014 fluttist búfjáreftirlitið frá sveitarfélögum til Matvælastofnunar. Sex dýraeftirlitsmenn hófu störf í stað u.þ.b. 40 búfjáreftirlitsmanna (10–12 stöðugildi) sem áður höfðu sinnt því starfi. Í lok ársins 2013 var eftirfylgni haustsskýrslna ólokið. Fækkun stöðugilda og innleiðing nýs verklags, sem setti eftirlit með velferð dýra í forgang fram yfir eftirfylgni með öflun hagtalna, varð til þess að ekki náðist að fylgja gagnasöfnun eftir með sama hætti og áður,“ segir í frétt MAST frá 2014.
 
Skil gagna á ábyrgð umráðamanna og eigenda
 
Hjá Búnaðarstofu MAST, fengust þær upplýsingar að Hagstofa hafi líklega áætlað fjölda hrossa 2013 út frá tölum fyrri ára. Það sé þó á ábyrgð umráðamanna og eða eigenda búfjár að skila haustsskýrslum í samræmi við lög um búfjárhald nr. 38/2013. 
 
Voreftirliti og talningu hætt eftir lagabreytingu 2013
 
Matvælastofnun hefur meðal annars ráðið verktaka til þess að sinna eftirfylgni og létta þar af leiðandi  á dýraeftirlitsmönnum þar sem umfangið er talsvert. Vandinn er að oft er ekki hægt að nálgast hestaeigendur í húsum nema um kvöld og helgar. 
 
Þegar búfjáreftirlitsmenn sveitar­­félaga sáu um eftirlitið samkvæmt eldri lögum, þá var skylt að fara í voreftirlit og telja allt búfé og þar með hross í þéttbýli. Með lagabreytingu 2013 var voreftirlit lagt af og stólað á áhættumiðað eftirlit. Niðurstaðan varð sú að margir hestamenn hafa trassað að fylla út skýrslur á netinu og því skortir gögn um hrossaeign. Ber mest á því á höfuðborgarsvæðinu.  
 
Varðar sektum að skila ekki haustsskýrslum
 
Starfsmenn Búnaðarstofu telja nauðsynlegt að koma skikki á þessi mál með einhverjum hætti. Er ætlunin að reyna það í gegnum skýrsluhald. Að öðrum kosti gæti þurft að leita annarra leiða eins og að beita viðurlögum samkvæmt lögum. Það varðar sektum ef búfjáreigendur eða umráðamenn vanrækja skilaskyldu haustsskýrslu. Þeim sektarákvæðum hefur þó ekki verið beitt hingað til. Mögulegt væri líka að fara í allsherjartalningu ef fjármagn fengist til slíks.
 
Unnið að einföldun kerfisins
 
Matvælastofnun vinnur nú að því í samvinnu við Bændasamtök Íslands að einfalda kerfið í stað þess að fara í harðari aðgerðir. Áætlað er að næsta haust verði komin tenging á milli WorldFengs og Bústofns til þess að einfalda skráningu á hrossum. Þannig að eigendur hrossa í WorldFeng geti skilað haustsskýrslu um leið og þeir ganga frá skýrsluhaldi í hrossarækt í WorldFeng. 
 
Sá galli er á slíku að eitthvað er um að eigendur hrossa eða umráðamenn gangi ekki frá skráningum í WorldFeng, sem er lögbundin hjarðbók í hrossarækt skv. reglugerð um merkingar búfjár.  
 
Matvælastofnun vonast eftir að hestaeigendur virði mikilvægi skráningar á hrossum sínum, enda er hún þeim að kostnaðarlausu. Mun MAST meta árangurinn af þessum aðgerðum í lok árs og taka síðan ákvörðun í framhaldi af því.

Skylt efni: Hestar. Mast

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu
Fréttir 3. janúar 2025

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu

Í haust keypti samlagsfélagið SÍA IV, framtakssjóður í rekstri sjóðstýringarfyri...

Hert á ferlunum
Fréttir 3. janúar 2025

Hert á ferlunum

Einfalda, hraða og stytta á ferli rammaáætlunar til að flýta fyrir orkuöflun í l...

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru
Fréttir 3. janúar 2025

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru

Framkvæmdir við uppbyggingu Laxeyjar á fiskeldi í Vestmanna­eyjum hafa gengið sa...

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð
Fréttir 2. janúar 2025

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð

Vænlegast þykir enn sem komið er að horfa til notkunar á verkuðu votheyi til nýt...

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð
Fréttir 2. janúar 2025

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð

Lagt er til að hugtakið kolefniseining verði skilgreint í lögum og að þær verði ...

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild
Fréttir 30. desember 2024

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild

Búsæld seldi hlut sinn í Kjarnafæði Norðlenska (KN) í heild til Kaupfélags Skagf...

Styrkir til verslana
Fréttir 30. desember 2024

Styrkir til verslana

Sex dagvöruverslanir í minni byggðarlögum kringum landið hlutu styrki frá innvið...

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans
Fréttir 27. desember 2024

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans

Stefán Hrafn Magnússon, hreindýrabóndi í Grænlandi, hefur gróðursett tré á landi...