Hugleiðingar um gróðurfar í bratta, skriðuhættu og beit
Á ferðum um landið verður manni stundum litið til fjalla. Víða má sjá varnargarða til að verja byggð fyrir snjóflóðum, en á og allt um kring um garðana eru fallegar breiður af lúpínu.
Alkunna er að lúpína er dugleg planta af belgjurtaætt sem býr við þann mikla kost að vera í ,,samlífi“ með bakteríum. Bakteríurnar binda köfnunarefni úr andrúmsloftinu, sem lúpínan getur nýtt sér til vaxtarauka, en þær fá ýmis stein- og snefilefni í staðinn í hnúðum á rótarkerfi plöntunnar. Lúpínan bindur mikið af kolefni og skilur eftir sig ómælt magn lífrænna efna í hlíðunum. Þær rotna og verða að lífrænum jarðvegi.
Efni í jarðvegsskriður, aurskriður?
Lífrænar leifar plantna aukast með árunum, fái þær að vaxa í friði, skilja mikið eftir sig og jarðvegurinn verður æ þykkari með hverju árinu sem líður. Saman við allar plöntuleifar, sem smám saman verða að mold, blandast ólífrænt efni frá veðrun bergs á svæðinu. Eftir nokkur ár, kannski 20, 30 eða 40 ár, er þessi jarðvegur orðinn mjög þykkur. Það sest snjór í dauðar leifar af stönglum og blöðum plantnanna, massinn getur haldið í sér miklu magni af raka, eins og annar lífrænn jarðvegur. Eftir asahláku og/eða grenjandandi rigningu, getur allt farið á flot. Þá er viðbúið að eitthvað gerist. Það er allavega ekki ráðlegt þeim sem búa undir brattri fjallshlíð, að planta eða sá lúpínu í hlíðarnar ofan við bæinn. Helst ekki í neinar hlíðar.
Skriðuföllin í Seyðisfirði
Eins og kunnugt er féllu margar aurskriður, stórar og smáar í Seyðisfirði 18. desember 2020. Þær ollu gífurlegu tjóni á mannvirkjum og menningarminjum, en enginn fórst í þessum hamförum. Það var mikil mildi.
Rétt er að rifja upp hvað það er sem gerist þegar aurskriður eða jarðvegsskriður falla, eins og gerðist á Seyðisfirði. Hvers vegna skapast þær aðstæður að aur- eða jarðvegsskriður falla? Margt þarf til, en allavega þarf að vera til staðar laus vatnsdrægur jarðvegur, lífrænn eða ólífrænn. Samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum kunnugra heimamanna er óhætt að fullyrða að með sáningu lúpínu þarna fyrir um 30 árum hafi lífræni hluti í efsta lagi jarðvegsins farið mjög vaxandi, einkum vegna rotnandi lífrænna leifa lúpínunnar.
Jurtaleifar þessar verða fljótt að fljótandi eðju í mikilli rigningu, eins og tilfellið var s.l. haust á Seyðisfirði. Frostleysi í ólífræna jarðveginum þar undir blotnaði þá einnig upp og vatnssósa og níðþung lífræn eðjan hefur farið að skríða með þeim afleiðingum að allt fór af stað. Áreiðanlegar heimildir herma, að einar 23 stórar og smáar aurskriður hafi fallið þennan örlagaríka dag, sem allar féllu úr lúpinugrónum hlíðum ofan við kaupstaðinn.
Auðvitað fer því fjarri, eins og margreynt er, ekki síst í Seyðisfirði, að hægt sé að draga þá ályktun að aurskiður falli ekki úr lítt eða ógrónum hlíðum, og má í því sambandi minnast á allstóra aurskriðu, sem féll úr fjalllendi Selstaða í norðanverðum Seyðisfirði í þessu ótrúlega vatnsveðri. Sú skriða kom kunnugum þó ekki alls kostar á óvart sökum aðstæðna í fjallshlíðinni, þar sem upptök hennar voru.
Hér er rétt að vitna í umræður á 18. og 19. fundi umhverfis- og framkvæmdanefndar Ísafjarðarbæjar, samkvæmt fundargerðum. Á 18. fundi var rætt um aðsendan tölvupóst sem varðaði ... ,,samhengi gróðurs og flóðahættu.“ Á 19. fundi segir umhverfisfulltrúi bæjarins, Svisslendingurinn Ralf Tylla, vegna reynslu sinnar frá heimalandinu:
,,Í brattri brekku þar sem mikið er af lúpínu býr hún til jarðveg ... Þegar blotnar .... Spurningin er hvað þarf til að slíkt fari af stað.“ –
Enn fremur:
,,Þetta snýst ekki bara um jarðskrið heldur líka hvort meiri líkur séu á snjóflóðahættu ef plöntur eru ofan á. Dæmi um þetta eru meðal annars frá Sviss,“ sagði Ralf Tylla á téðum fundi umhvefis- og framkvæmdanefndar Ísafjarðarbæjar.
Eins og fram kemur í fyrirsögn þessa pistils er hér aðeins um hugleiðingar að ræða út frá téðum aðstæðum og upplýsingum kunnugra, en vissulega hafa fleiri en við sem skrifum þennan pistil velt fyrir sér áhrifum af gróðri í bröttum fjallshlíðum á skriðu- og snjóflóðahættu, eins og tilvitnunin frá Ísafirði hér að framan ber með sér. - Eigi veldur sá er varar.
Mynd 2. Tekin af Búðarárfossi og árgilinu 18. júlí 2020. - Strandatindur sést gnæfa þar yfir, en úr hlíðum hans hafa oft fallið skriður og einmitt varað við slíku nú í frostþíðu.
Að lokum nokkur orð um gróður og beit
Sem gróðurverndarsinnar teljum við gróskumikinn gróður víðast hvar æskilegan, en eins og fram hefur komið, getur of mikið af plöntuleifum verið varasamar í brattri hlíð. Beit getur breytt þessu mynstri verulega, m.a. af eftirtöldum ástæðum:
- Tegundasamsetningin breytist. Einærar plöntur og blómjurtir hverfa að mestu.
- Plöntur sem þola beit ná yfirhöndinni. Þær hafa yfirleitt jarðlæga stöngla, mynda þéttan, styrkan svörð, sem helst vel saman. Þannig plöntur eru oftast notaðar á knattspyrnuvöllum, mynda sterkan svörð og þola að vera slegnar oft, með stuttu millibili. Þola traðk og beit.
- Beit þéttir jarðveginn og gerir hann fastari fyrir, ekki síst í bratta.
- Sina verður minni og snjór safnast því síður í gróðurleifar.
- Miklið af lausum gróðurleifum hindra að frost fari ofan í jarðveginn. Hann þiðnar því fyrr og blotnar í gegn og verður að leðju. Það eykur skriðuhættu.
- Sé jarðvegurinn frosinn rennur vatnið óhindrað niður hlíðina.
Af framansögðu telja höfundar ekki ráðlegt að sá lúpínu í brattar hlíðar ofan byggðar, en til bóta að koma þar upp beitargróðri og viðhalda honum með hóflegri beit. Svipað þessu kom fram í Vestmannaeyjum með flutningi fjár í Eyjarnar eftir meira og minna fjárleysi í kjölfar gossins. Myndaðist þá þéttari gróður þar vegna beitarinnar í stað óæskilegs gróðurs, sinu og ekki síst jarðvegslosi, sem síðan færðist til betra horfs eftir fjártöku.
Þessu til stuðnings er fróðlegt að vitna í eftirfarandi kafla úr afar áhugaverðri grein eftir Önnu Guðrúnu Þórhallsdóttur, prófessor við Háskólann á Hólum, sem fjallar um náttúrulega og sjálfbæra beitarræktun, sem jafnframt bindur mikið kolefni, sem enginn áhugasamur ætti að láta fram hjá sér fara (Bændablaðið 30.04. 2021):
,,Sú hugmynd hefur komið fram og er lífseig að ekki sé æskilegt að beita í halla þar sem beitin valdi rofi – að brekkur og halla þurfi að friða. Við friðun slíkra svæða minnkar hlutdeild grasa en mosi og fléttur koma inn í staðinn. Þar sem mosi og fléttur hafa ekki eiginlegar rætur gisnar svörðurinn, jarðvegurinn verður lausari og fer að síga niður hallann. Mikilvægi beitar til að viðhalda þéttum sverði í brekkum og miklum halla sést best í Svissnesku ölpunum þar sem seljabúskapur hefur verið stundaður í hundruð – ef ekki þúsundir ára. Brattar brekkur Svissnesku alpanna eru víðast grasi grónar – og þar er þéttur og sterkur svörður sem er viðhaldið af beitardýrum sem ganga þar sumarlangt.“
Sveinn Hallgrímsson
Þórarinn Lárusson