Oft verið miklu meira af rjúpu
„Við erum búnir að fara tvisvar á rjúpu og fengið mjög lítið, einn og einn fugl. það var bara alls ekki mikið af fugli,“ sagði veiðimaður sem við hittum uppi á Holtavörðuheiði aðra helgina sem mátti fara á rjúpu.
Flestir eru sammála um að það sé minna af rjúpu en oft áður. Og einn kom með þá kenningu að lítið hefði verið af berjum á stórum hluta landsins, eins og fyrir vestan og norðan.
„Rjúpan hefur bara ekki haft eins mikið að borða eins og venjulega, í Borgarfirði var mjög lítið af berjum, eiginlega ekki neitt bara,“ sagði þessi veiðimaður og það var margt til í þessu hjá honum.
Í Borgarfirði var varla ber á lyngi, sama hvað var leitað og leitað. Rigningasumar og sólarlítið.
Veiðimenn sem við höfum rætt við voru sammála um minni rjúpu eins og uppi á Holtavörðuheiði. Eftir tveggja tíma labb sást einn fugl og lítið annað. Einn hrafn á flugi og hann var alls ekki hvítur að sjá við fyrstu sýn.
Svona er þetta bara en einni helgi hefur verið bætt við og það hefur sitt að segja fyrir veiðimenn.