Sett í stórlax
Höfundur: Gunnar Bender
„Við vorum við veiðar, feðgarnir, fyrr í sumar og komum við í Urriðaá á Mýrum, áin var frekar vatnslítil á efri svæðunum, eins og oft gerist á þessum tíma í þurrki. En mjög góð skilyrði voru á flóðinu í neðstu fjórum hyljunum og hann sýndi sig þar í góðu veðri, sól, 15 stiga hita og logni,“ segir Hörður Alexander Eggertsson veiðimaður, þegar hann rifjar upp veiðitúr í sumar sem var skemmtilegur.
En Hörður setti í einn mjög vænan lax sem hafði betur og stóð viðureignin um fimmtán mínútur.
„Hann var mjög erfiður og var alveg klesstur við botninn allan tímann og sýndi sig ekki. Stöngin var alveg í keng og hann reif út línuna. Við Eggert Sk. Jóhannesson, faðir minn, vorum búnir að velja góðan stað við hylinn til þess að landa honum. En þegar það voru svona fjórir til fimm metrar í hann, þá sleit hann sig lausan af króknum með miklum látum. Líklega hefur hann verið að koma inn á flóðinu þennan dag, enda var hann ansi sterkur og ákveðinn.“
En það var alla vega gaman að takast á við þann stóra og glíma við hann í góðum og skemmtilegum félagsskap reyndra veiðifélaga í frábæru veðri,“ sagði Hörður Alexander Eggertsson.