Silungurinn tók þegar fór að hlýna
Höfundur: Gunnar Bender
„Ég og Ragnar Ingi Danner ákváðum að skella okkur í Laxárvatn í Dölum, sem er í Veiðikortinu, fyrir skömmu,“ sagði Árni Kristinn Skúlason er við heyrðum í honum nýkomnum úr veiðinni.
„Við mættum um 9 leytið og ákváðum að labba hringinn í kringum vatnið. Það kom mér á óvart hve aðdjúpt vatnið er, hentar einstaklega vel til fluguveiða. Það var éljagangur og sólskin til skiptis, skítkalt og fraus í lykkjum.
Í norðanverðu vatninu rann sæmilegur lækur út í og fékk Raggi tvo þar rétt hjá. Það er gott aðgengi að vatninu og bakkarnir eru vel grónir.
Þegar það fór að hlýna aðeins fóru hlutirnir að gerast, fiskur byrjaði að elta og taka. Í sunnanverðu vatninu fengum við 4 fiska, allir tóku grimmt og rifu vel í. Það þarf greinilega að hitna aðeins meira til að hlutirnir fari almennilega af stað,“ sagði Árni Kristinn, sem þræðir veiðivötnin hverja helgi.