Veiðimenn fara ekki í jólaköttinn
Höfundur: Gunnar Bender
„Það er töluvert í boði fyrir veiðimenn fyrir þessi jól, allavega tvær mjög góðar jólabækur um veiði og töluvert líka um veiði í bókinni um Gunnar í Hrútatungu,“ sagði veiðimaður sem aðeins hefur kíkt á veiðibækurnar svo veiðimenn fari ekki í jólaköttinn þetta árið.
Veiðibókum hefur samt fækkað síðustu árin, en er kannski aðeins að fjölga aftur sem betur fer. Bókin „Eins og skot“ er handbók um skotveiði, hleðslu þeirra, notkun og virkni eftir Böðvar B. Þorsteinsson. Það er afbragðsbók upp á næstum 600 síður og hrein snilld.
„Undir sumarhimni“ er önnur bók af veiðiskap eftir Sölva Björn Sigurðsson. Hann virðist bara skrifa þykkar bækur og kjarnmiklar. Gott að koma sér í veiðigírinn fyrir næsta tímabil með því að lesa hana. Síðan er Gunnar Sæmundsson, bóndi og veiðimaður, með flotta bók og þar er töluvert um veiði og flottir fiskar í henni. Kjarngóður lestur af bökkum Hrútafjarðarár.