Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Kaldur heiðagæsamorgun í Víðidal.
Kaldur heiðagæsamorgun í Víðidal.
Í deiglunni 11. október 2018

Víða veitt í sumar á stöng og byssu

Höfundur: Gunnar Bender
„Nesið er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég reyni alltaf að fara þangað 2–3 sinnum á sumri,“ segir Ómar Gunnarsson er hann rifjar aðeins sumarið  upp fyrir okkur.
 
 „Þar er einhver kyngimögnuð orka sem hefur góð áhrif á mig og veiðisvæðin eru einstök. Náttúran og litbrigði hennar og fuglalífið þar er engu líkt. Hvar annars staðar mætir maður uglu á leið sinni í hyljina  og sér fálka sveima yfir ánni og í bland við allar andategundir? Ég kem alltaf endurnærður á líkama og sál úr Nesinu. Ég nota mikið af flugum frá Pétri Steingríms í Laxárnesi og finnst gaman að spá og spekúlera saman litaharmoníu náttúrunnar og vatnsins við flugunnar. 
 
Ein af mínum uppáhaldsflugum er t.d. Green Condrad en ég landaði fyrir um fjórum árum síðan 101 cm fiski á einkrækju nr. 12 á Stíflunni. Þegar maður ber Green Conrad við litatóna umhverfisins á Stíflunni þá smellpassar eitthvað saman í mínum huga. Hún fer alltaf undir hjá mér þegar ég fer þangað og hef oft reist fiska á henni í tregfiskeríi.
 
Ég var núna að koma úr minni þriðju ferð í sumar fyrir skömmu á Nesið í Aðaldal. Veiðin var frekar treg, en ég náði að landa einum brjáluðum 87 cm hæng á Suðureyri á Low water Night Hawk flugu frá Pétri Steingríms. Laxinn var almennt tregur að taka og því setti ég Low water-útgáfuna undir og náði að festa í fiskinum. Annars virkuðu betur í þessari ferð flugur með gulu ívafi því vatnið var þörungaríkt og grænn undirtónn í því.“
 
Tók Munre Killer í ljósaskiptunum
 
„Eiður Péturs, veiðifélagi minn, landaði síðan 95 cm hrygnu á Hólmavaðsstíflunni en hún tók Munre Killer í ljósaskiptunum.
 
Það sem var stórkostlegt við þessa veiðiferð var að upplifa gleði 10 ára sonar Eiðs, Guðmundar Inga, sem fékk 85 cm hrygnu á Hólmavaðsstíflunni en það var maríulaxinn hans. Laxinn tók fluguna Skriðuflúð nr. 10 sem Níls Folmer hannaði. Fiskurinn tók rétt ofan við brotið á stíflunni og straujaði fljótlega niður hylinn og fram af brotinu. Þar tekur við nokkuð stíft vatn og ekki gáfulegt að reyna að landa fiski þar fyrr en kemur að dauðu vatni í vík,  ca 800 m neðar, þar sem honum var landað. Daginn eftir setti Guðmundur Ingi í 75 cm hæng á Skriðuflúð á fluguna Þokkadís eftir Níls Folmer og landaði þar með sínum öðrum laxi í ferðinni. Við karlarnir stóðum og brostum hringinn og görguðum af gleði með stráknum.
 
Á leið heim úr Nesinu stoppaði ég við í Víðidalnum en þar beið skotveiðifélagi minn, hann Ási málari, sem hafði boðið mér í gæsaveiði, sagðist vera búinn að finna tún sem væri fullt af heiðagæs og ekki í boði annað en að vaða strax í þá veiði, annars væri hætta á að fuglinn færi suður yfir heiðar. Við stilltum upp gervigæsum um kvöldið og lögðum okkur. Vöknuðum síðan kl. 4.30 um nóttina og þegar ég leit út um gluggann var norðan 12–14 m/s, 0°C hiti og slydduhraglandi – maður lætur ekki veðrið hafa áhrif á veiðigleðina, hugsaði ég, og klæddi mig í tvær lopapeysur undir veiðijakkann.  
 
Í ljósaskiptunum fengum við gríðarstóran hóp yfir okkur, það var gæs 360° kringum okkur og adrenalínið í botni. Sumar voru í réttri aðflugsstefnu og því í  fínu skotfæri en á sekúndubroti vissi maður ekki hvert maður ætti að beina rörinu … upp úr níu lágu 26 heiðagæsir í valnum og morguninn fullkomnaður. Tími til kominn að halda heim á leið og ganga frá laxveiðidótinu sínu,“ sagði Ómar í lokin.

Skylt efni: skotveiði | stangaveiði | veiði

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...