Ísland nær í silfurverðlaun í „Nordic Chef Junior“-keppninni
Síðastliðna helgi kepptu þrír íslenskir fagmenn í matreiðslu og framreiðslu um Norðurlandameistaratitla í faggreinunum í Álaborg í Danmörku. Í flokki ungkokka, „Nordic Chef Junior“, vann Rúnar Pierre Heriveaux frá Lava Bláa Lóninu til silfurverðlauna en Håkon Solbakk frá Noregi sigraði í keppninni.
Aðrir íslensku keppendanna komust ekki í verðlaunasæti en stóðu sig gríðarlega vel í harðri keppni.
Rúnar Pierre er 21 árs gamall og matreiðslunemi í Lava Bláa Lóninu. Hann var valinn matreiðslunemi ársins 2013 og varð í fjórða sæti í norrænu nemakeppninni 2014. Rúnar Pierre var aðstoðarmaður í Bocuse d´Or-keppninni 2015.
„Ég er ánægður með frammistöðuna og hvernig ég framkvæmdi allt eftir plani og hafði skipulagt á æfingum síðustu mánuði en hefði auðvitað viljað ná toppsætinu, tek það bara næst,“ segir Rúnar glaður í bragði.
Í „Nordic Chef“, þar sem Atli Þór Erlendsson frá Grillinu keppti, sigraði sænski keppandinn. Atli Þór er 27 ára gamall matreiðslumaður í Grillinu á Hótel Sögu og handhafi titilsins „Matreiðslumaður ársins“ þar sem hann sigraði í keppninni í mars síðastliðnum. Atli Þór var nýlega valinn í kokkalandsliðið. Natascha Elisabet Fischer, frá veitingastaðnum Kopar, keppti í framreiðslu í „Nordic Waiter“-keppninni en þar sigraði danski keppandinn.