Íslenskt viskí í sókn í Kína
Eimverk Distillery, framleiðandi Flóka viskí, skrifaði nýlega undir stóran samning við kínverska ríkisfyrirtækið China Poly Group um sölu á Flóka þar í landi.
Samningurinn var undirritaður á stórsýningunni China International Import Expo (CIIE) í Sjanghæ. Eimverk hefur verið þátttakandi ásamt fjölda íslenskra fyrirtækja undanfarin ár. Flóki er fyrsta og enn þá eina íslenska viskíið á markaði í dag og hefur verið í stöðugri sókn á erlendum mörkuðum. Flóki er nú fluttur út til yfir tuttugu landa.
„Við erum afar ánægð með þennan samning, við höfum unnið að markaðssetningu í Kína frá 2019 og þetta er spennandi þróun. Poly Group fékk fyrstu prufusendingu frá okkur fyrr á þessu ári og seldist hún hratt upp,“ segir Haraldur Þorkelsson, framkvæmdastjóri Eimverks. Samningurinn er í takt við áform félagsins um kraftmikla markaðssókn og stækkun framleiðslugetu allt að tífalt á næstu tíu árum.
„Það er okkar markmið að koma Íslandi á kortið í viskíheiminum, hér eigum við nægt bygg, frábært vatn og græna orku,“ segir Sigrún Barðadóttir, stjórnarformaður Eimverks.
Eimverk nýtur þess í dag að hafa fengið styrk frá Matvælasjóði til að styrkja markaðsstarf erlendis verulega og hefur að auki fengið aðstoð frá viðskiptafulltrúum sendiráða Íslands á erlendri grundu. Eimverk var stofnað 2009 með áherslu á að framleiða Flóka viskí úr íslensku byggi. Fyrirtækið er til húsa við Lyngás 13 í Garðabæ.