Jarfi frá Helgavatni besta nautið
Jarfi 16016 frá Helgavatni í Þverárhlíð í Borgarfirði hlaut nafnbótina besta naut fætt árið 2016 og viðurkenningu sem Nautastöð Bændasamtaka Íslands veitti á búgreinaþingi kúabænda.
Ræktendur Jarfa 16016 eru Ágústa Ó. Gunnarsdóttir, Karitas Þ. Hreinsdóttir og Pétur og Vilhjálmur Diðrikssynir á Helgavatnsbúinu og tóku þau Karitas og Pétur við viðurkenningunni úr höndum Herdísar Mögnu Gunnarsdóttur, fráfarandi formanns deildar kúabænda, og Sveinbjörns Eyjólfssonar, forstöðumanns Nautastöðvarinnar. Jarfi hefur fengið mikla notkun að sögn Sveinbjörns, hann er vinsæll kynbótagripur og fáheyrt sé að gripir fái viðlíka dreifingu. Guðmundur Jóhannesson, ráðunautur í nautgriparækt hjá RML, fór nokkrum orðum um Jarfa 16016 fyrir afhendingu viðurkenningarinnar. Í umsögn um dætur Jarfa segir meðal annars:
„Dætur Jarfa eru góðar mjólkurkýr þar sem mjólkurmagn og hlutföll verðefna í mjólk liggja um meðallag. Þetta eru fremur smáar kýr og háfættar, bolgrunnar og útlögulitlar með sterka yfirlínu. Malirnar eru grannar, aðeins hallandi og þaklaga. Fótstaða er sterkleg en aðeins þröng. Júgurgerðin er úrvalsgóð, júgurband mjög áberandi, festa mjög mikil og þau frábærlega vel borin. Spenar eru frekar stuttir og grannir en mjög vel settir. Mjaltir eru mjög góðar og mjaltagallar fátíðir. Skap þessara kúa er ákaflega gott og skapgallaðir gripir vandfundnir í hópnum.“