Kjalvegur, Þingeyrarvegur og vegur um Blönduós
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Markaðsstofa Norðurlands boðaði fyrir skömmu til funda um vegamál, m.a. á Norðurlandi vestra, en haldnir voru fundir á Sauðárkróki, Blönduósi og Hvammstanga.
Á fundunum gafst ferðaþjónustuaðilum, sveitarstjórnarmönnum og öðrum sem áhuga höfðu á málefninu að koma á framfæri sínum áherslum varðandi þjónustu, viðhald og uppbyggingu vegakerfisins. Markaðsskrifstofan er tengiliður ferðaþjónustunnar á Norðurlandi við Vegagerðina.
Að því er fram kemur á feykir.is voru Kjalvegur, Þingeyrarvegur og vegurinn í gegnum Blönduós meðal brýnustu verkefna að mati heimamanna.Vegurinn niður að Þingeyrum er sagður mjór, holóttur og ekki mikið viðhaldinn en þar er jafnan mikill ferðamannastraumur. Vegakaflinn gegnum Blönduós og norður að gatnamótum við Þverárfjall er orðinn gamall og hættulegur, eins er brúin yfir Blöndu orðin gömul og léleg.
Brýnt að byggja upp Vatnsnesveg
Það sem brann heitast á fundarmönnum á Hvammstanga var Vatnsnesvegurinn en þar ríður mest á úrbótum. Byggja þurfti þann veg upp en gríðarlegur fjöldi ferðamanna fer þar um, um 250 bílar á dag, yfir hásumarið.
Einnig var rætt um Norðurbraut, gatnamótin við Laugarbakka og planið við Hvammstanga-afleggjarann sem er of lítið. Talað var um brú yfir Norðlingafljót til þess að loka ákveðinni leið af heiðinni og vestur, niður að Húsafelli.