Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
„Þar sem ekki hafði verið sótt um leyfi til Matvælastofnunar fyrir umræddar sendingar hafði áhættumat ekki verið framkvæmt þegar þær voru fluttar til landsins,“ segir Hrund Hólm, deildarstjóri inn­ og útflutningsdeildar MAST.
„Þar sem ekki hafði verið sótt um leyfi til Matvælastofnunar fyrir umræddar sendingar hafði áhættumat ekki verið framkvæmt þegar þær voru fluttar til landsins,“ segir Hrund Hólm, deildarstjóri inn­ og útflutningsdeildar MAST.
Mynd / Azerbaijan Stockers
Fréttir 8. mars 2023

Kjúklingur fluttur inn í leyfisleysi

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Ekki var farið að reglugerð, um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins, við innflutning á um 185 tonnum af úkraínsku kjúklingakjöti frá septembermánuði 2022 til febrúar sl. Þrjú fyrirtæki fluttu inn vörurnar á þessu tímabili.

Vefur Hagstofunnar sýnir innflutning á úkraínsku kjúklinga­ kjöti en tæplega 80 tonn komu fyrir áramót og ríflega 107 tonn í janúar. Þrjú fyrirtæki fluttu inn kjúklinginn á þessu tímabili samkvæmt upplýsingum sem Matvælastofnun (MAST) hefur frá Tollinum. Það eru Esja gæðafæði, Kjötmarkaðurinn og Ó. Johnson og Kaaber. Tvö fyrirtæki til viðbótar hafa fengið innflutningsleyfi fyrir vörur sem fluttar voru inn í febrúar.

Samkvæmt upplýsingum frá MAST var innflutningsleyfis ekki aflað, né voru sendingar tilkynntar til stofnunarinnar í tilfelli innflutnings á kjúklingakjöti frá Úkraínu á tímabilinu september 2022 til og með janúar 2023.

Afla skal leyfa áður en varan er send frá útflutningslandi

Áður en óhitameðhöndlaðar dýraafurðir sem eiga uppruna utan Evrópska efnahagssvæðisins eru fluttar inn í fyrsta sinn, ber innflutningsaðila að láta MAST í té nauðsynlegar upplýsingar um vöruna til athugunar og samþykkis áður en varan er send frá útflutningslandi, skv. 4. gr. reglugerðar nr. 1250/2019 sem fjallar m.a. um grundvöll innflutningsleyfis. Dýraafurðir sem fluttar eru í gegnum EES en eiga uppruna í þriðja ríki skulu tilkynntar til MAST og á innflutningsaðili að leggja fram gögn til staðfestingar á því að þær uppfylli ákvæði reglugerðarinnar. Leyfið byggir meðal annars á áhættumati sem MAST er ætlað að framkvæma áður en heimildin er veitt.

„Þar sem ekki hafði verið sótt um leyfi til Matvælastofnunar fyrir umræddar sendingar hafði áhættumat ekki verið framkvæmt þegar þær voru fluttar til landsins,“ segir Hrund Hólm, deildarstjóri inn­ og útflutningsdeildar MAST, í svari við fyrirspurn. Einnig kemur fram í svarinu að stofnunin hafi kallað eftir nauðsynlegum gögnum vegna allra sendinganna. Í þeim er staðfesting á því að landamæraeftirlit innan EES hefði farið fram, niðurstöðum úr salmonellusýnatöku og staðfestingu á að kjötið hafi verið fryst í a.m.k. 30 daga fyrir tollafgreiðslu. Öll umbeðin gögn hafi verið lögð fram.

„Í heildina eru taldar nokkrar líkur á því að smitefni alvarlegra alifuglasjúkdóma berist til landsins með innflutningi á hráu alifuglakjöti frá Úkraínu og ESB en litlar líkur á að smitefnin berist í alifugla hérlendis. Helsta smitleiðin væri fóðrun hænsnfugla með eldhúsúrgangi en slíkt er óheimilt. Mikilvægt er því að allir sem halda alifugla, bæði á búum og heima við, fari eftir þeim reglum,“ segir Hrund í svarinu. Innflutningsleyfin voru því veitt.

Áhættumat var framkvæmt í febrúar vegna umsókna sem bárust um innflutning í þeim mánuði.

Ekki skimað fyrir sýklalyfjaónæmum bakteríum hér

Úkraína er aðildarríki Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunarinnar og hefur því skyldum að gegna. Fjórtán alifuglasjúkdómar eru tilkynningaskyldir, þar á meðal fuglaflensa, sem hefur til þessa aðeins verið greind í villtum fuglum í Úkraínu. „Dýraafurðir frá þriðju ríkjum eru skimaðar m.a. fyrir lyfjaleifum og lyfjaónæmum bakteríum við landamæraeftirlit. Slíkt fellur inn í sýnatökuáætlun sem byggist á áhættumati og eru þá tekin sýni af ákveðnu hlutfalli sendinga. Landamæraeftirlit skal fara fram á fyrstu landamæraeftirlitsstöð í EES sem varan berst til,“ segir Hrund, innt eftir framkvæmd eftirlits kringum sýklalyfjaónæmar bakteríur. Þar sem innflutti kjúklingurinn frá Úkraínu fór í gegnum landamæraeftirlit í Hollandi og Litáen, hefur slík skimun kannski farið fram þar.

Karl G. Kristinsson, prófessor og yfirlæknir við sýkla­ og veiru­fræðideild Landspítalans, sagði í síðasta tölublaði Bændablaðsins að mikilvægt væri að fylgjast með sýklalyfjaónæmi í innfluttum mat­ vælum frá löndum með útbreitt sýklalyfjaónæmi. Hrund segir að MAST hafi ekki talið ástæðu til að draga í efa gögn sem lögð hafa verið fram vegna innflutta kjúklingsins. Landamæraeftirlitsstöðvarnar í EES­ ríkjunum þar sem vörurnar fóru í gegn frá Úkraínu eiga að sannreyna að viðeigandi opinber heilbrigðisvottun, útgefin af dýralæknayfirvöldum í Úkraínu, fylgi sendingum.

Matvælastofnun er enn með innflutninginn til skoðunar en brot á ákvæðum reglugerðar nr. 1250/2019 geta varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

Innflutningur á úkraínsku kjúk­ lingakjöti hófst fyrst í september síðastliðnum. Það er flutt inn án tolla skv. breytingu á tollalögum, sem fela í sér fyrirvaralausa niðurfellingu tolla á allar vörur sem eru upprunnar í Úkraínu. Lögin voru samþykkt í júní og gilda til 31. maí nk.

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...