Kyngreining sæðis í frjóan jarðveg
Nautgripabændur hafa kallað eftir kaupum á búnaði til kyngreiningar á sæði undanfarin ár. Á búgreinaþingi var því beint til stjórnar deildar nautgripabænda og stjórnar Bændasamtakanna að hefja án tafar vinnu við að tryggja stofnfjármagn og hraða innleiðingu.
Í löndunum í kringum okkur er kyngreint sæði víða notað. Með sérstökum búnaði er hægt að skilja að sæðisfrumur sem gefa annars vegar kvígur og hins vegar naut. Þetta gagnast mjólkurframleiðendum sérstaklega, en með þessu geta þeir fengið fleiri og betri kvígukálfa. Kyngreint sæði er dýrara í innkaupum og hentar ekki í öllum tilfellum. Frá þessu er greint í nýrri skýrslu RML.
Áætlað er að kaup á sjálfri skilvindunni sem skilur sæðisfrumurnar eftir kynjum muni kosta 170 milljónir króna. Við það bætist kostnaður við uppsetningu á rannsóknarstofu, standsetning skilvindu og þjálfun starfsfólks sem gerir stofnkostnað upp á samtals 183,5 milljónir króna.
Árlegur rekstrarkostnaður er nokkuð hár, en áætlað er að þörf sé á tveimur stöðugildum sem kosta samtals 50 milljónir króna. Ofan á það bætist vörunotkun upp á 12,5 milljónir, rekstur tækjabúnaðar fyrir eina milljón á ári og 18,4 milljónir í afskriftir. Samtals má reikna með að rekstur kyngreiningar útheimti 82,9 milljónir króna árlega.
Frá árinu 1991 hefur verið til tækni sem byggir á að lita sæðisfrumurnar með sérstöku litarefni sem safnast í frumunum í mismunandi magni eftir því hvort þær beri X eða Y litning. Karlfrumur bera 3,8 prósent minna erfðaefni og gerir litarefnið kleift að rafhlaða sæðisfrumurnar og flokka með rafsviðsskilvindu. Mjög miklar framfarir hafa verið í þessari tækni og er sá búnaður sem býðst núna umtalsvert afkastameiri og ódýrari en sá sem framleiddur var fyrir fáum árum.
Lítil afköst eru á framleiðslu á kyngreindu sæði og er því nauðsynlegt að þynna það út til að fá fleiri skammta. Vegna þessa er frjósemi sæðisfrumna í kyngreindu sæði minni en í hefðbundnu sæði. Fjögur þrep fara í framleiðslu hefðbundins sæðis, en þegar kemur að kyngreiningu eru þrepin tuttugu. Samkvæmt rannsóknum er heilbrigði kálfa það sama með báðum tegundum sæðis.