Líf og fjör í lotuviku á Reykjum
Nú er nýafstaðin verkefnavika á Garðyrkjuskólanum á Reykjum. Nemendur fá þá verklega kennslu í ýmsum fögum og fara í heimsóknir í gróðrarstöðvar og önnur fyrirtæki sem tengjast garðyrkjunáminu, vinna verklegar æfingar og spreyta sig á ýmsum verkefnum. Í öllum hornum eru nemendahópar við störf, á námskeiðum eða í annarri fræðslu. Hér eru nokkrar svipmyndir sem sýna brot af því sem nemendur tóku sér fyrir hendur.
Mynd 1) Molta úr mötuneytinu á Reykjum ásamt stoðefni er notuð í ræktunartilraunir í gróðurhúsunum. Mynd 2) Athugun á mismunandi jarðvegsblöndum með lífrænum og tilbúnum áburði og uppeldi elriplantna. Mynd 3) Hálmur úr iðnaðarhampi sem ræktaður var á Reykjum sl. sumar, ætlaður til jarðgerðarverkefna.
Mynd 1) Fuglaskoðunarferðir eru fastur liður í kennslu í dýrafræði. Mynd 2) Skrúðgarðyrkjunemar við æfingar í verknámshúsi. Mynd 3) Býflugnarækt er kennd á Reykjum. Hér er verið að setja saman ramma í býflugnabú.
Skógtækninemar fræðast um öryggisatriði í meðferð véla til grisjunar og skógarhöggs.
Garð- og skógarplöntubrautin við plöntugreiningar og fræsöfnun á Reykjum.